6.7.2012 | 20:05
Glimmerkerti, glæsifákar ... og Ævintýrabarkinn
Veðrið í gær var dásamlegt, og þótt rigningu hafi verið spáð kom ekki dropi úr lofti.
------ ---0--- -----
Eftir morgunverð drifu börnin sig í sund, síðan í kertagerð og á útisvæði en keppendur kvöldsins fóru á æfingu eftir stutta sundferð. Það var svo mikill spenningur - og svo mikilvægt í þeirra huga að geta gert sitt allra besta.
Kertagerðin var mjög vinsæl - en börnin byrja á því að velja sér bláskel sem Ellen hellti síðan vaxi í og kveik var komið fyrir í því. Þegar vaxið var farið að storkna, gott að blása svolítið á það, þá var hægt að fara að skreyta eftir smekk, með glimmeri og fleira skrauti að hætti hússins. Sjá mynd hér aðeins neðar, til vinstri.
Útisvæðið var fjölsótt að vanda en hitinn það mikill úti að börnunum fannst gott að fara inn á herbergin skömmu fyrir hádegi til að kæla sig niður.
Í hádeginu bauð eldhúsið upp á hrísgrjónagraut og síðan mikið, mikið, mikið af ávöxtum. Vel var borðað að vanda.
Síðan var haldinn hádegisfundur og eftir hann voru námskeiðin haldin, aðeins rúmur sólarhringur í lokakvöldvökuna svo það þurfti að halda vel á spöðunum, æfa og æfa íþróttir, taka upp bíómynd, byrja að skipuleggja myndlistar-, dans- og grímugerðarsýningarnar. Mikið að gera á stóru heimili ...
Ævintýrakaka var í boði í kaffitímanum og einnig tekex með heimagerðu appelsínumarmelaði.
Íþróttahúsið var vinsælt eftir kaffi, einnig Spilaborg og útisvæðið þar sem mikið var æft fyrir kassabílarallíið sem sólarhringur var í.
Myndavélin fór með á reiðnámskeiðið og eins og sjá má á myndunum á heimasíðunni (sjá hlekk neðst á síðunni) var gaman fyrir knapana knáu að ríða um fallegar slóðir á þessum fallegu og barngóðu glæsifákum.
Í kvöldmat bauð eldhús stórfengleikans upp á glænýjan steiktan fisk með hrísgrjónum og karrísósu ... eða tómatsósu. Og börnin voru mjög sæl með þennan góða kvöldverð - og sum þáðu hrísgrjónagraut frá því í hádeginu í eftirmat.
Þátttakendur í hæfileikakeppninni tóku eina æfingu í viðbót, lokarennslið, generalprufuna, lokaæfingu ... en hin börnin fóru í útileiki á meðan.
Þá kom loks að Ævintýrabarkanum - söngvara- og hæfileikakeppni Ævintýralands. Atriðin þóttu öll mjög jöfn að gæðum og reyndi nokkuð á samlagningarkunnáttu yfirmanns dómnefndar. :) Þátttakendur uppskáru mikil fagnaðarlæti og greinilegt var að börnin kunnu að meta þessa góðu skemmtun. Tvö söngatriði fengu jafnmörg atkvæði í annað sætið. Öll börnin sem tóku þátt fengu viðurkenningarskjöl. Hér koma úrslitin, eða efstu þrjú sætin:
1. sæti: Jóhanna Huld söng lagið Betri tíð
2. sæti: Sema söng lagið Hallelujah
2. sæti: Cindy Natica söng lagið Bleeding love
3. sæti: Filippía Þóra söng lagið Til útlanda (frumsaminn texti við Euphoria)
Kvöldhressingin var brauð og safi og síðan var það draumalandið góða.
Myndir frá deginum eru hérna > http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T4D4.html
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.