14.6.2012 | 14:42
Vöffludagurinn græni ...
Dagur 3 var aðeins öðruvísi en hinir. Námskeiðin voru fyrir hádegi og eftir matinn, núðlusúpu, núðlur, brauð með eggi og kæfu, ásamt vatni í miklu magni, hófst húllumhædagurinn.
Fyrst var hádegisfundur með umsjónarmönnunum en svo var farið í fánaleikinn. Skipt var í tvö lið, Martröð og Draum og sigraði það fyrrnefnda, alls ekkert léttilega þó.
Fram að kaffi var margt um að vera; sápukúlusprengikeppni, sólbað, krítað á stéttina, boltaleikir og önnur dásamlegheit.
Í kaffinu var boðið upp á vöfflur með súkkulaði ... og rjóma sem var litaður grænn í stíl við daginn. Þemaliturinn var nefnilega grænn og allir voru í einhverju grænu. Í miðju vöfflusmjatti kom algjört steypiregn en dagskráin var bara inni þar til stytti upp eftir um tvo tíma. Gott fyrir gróðurinn.
Eftirmiðdagsskemmtunin var heldur betur fjölbreytt. Það var skartgripagerð, andlitsmálun, tattú, bandfléttur, keila og zumba (í Wii) ... og svo mætti heil spákona á svæðið, ég legg ekki meira á ykkur. Sú heitir Jósefína Potter og þykir nokkuð sérstök. Börnin settust hjá henni og fengu að heyra sitt lítið af hverju skemmtilegt. Spenningurinn var mikill að vita HVER þessi spákona væri og voru ýmsir starfsmenn nefndir til sögunnar en það mál er enn ekki upplýst ...
Svo var allt í einu komið að kvöldmatnum - pylsupartíi, takk fyrir. Það hefði mátt halda að engar rjómavöfflur hefðu verið á boðstólum í kaffinu eða að börnin hefðu bara rétt nartað í þær ... svo vel tóku þau til matar síns, þessar elskur. Það var líka gott að fá að skola því niður með gosi.
Draugaleikur var eftir matinn, keppni milli hópa, og margar hetjurnar sem létu sig hafa það að hlaupa í gegnum íþróttahúsið í nánast myrkri, í gegnum allskyns þrautaleiðir, sækja glóstikk og fljúga síðan út á ljóshraða. Þau sem vildu vernd töluðu bara við sumarbúðastjórann sem fór með þeim.
Gott var að skreppa í sund til að kæla sig niður, aðrir fóru í heita pottinn til að róa sig niður ... en svo kom fljótlega í ljós að draugarnir ógurlegu voru bara Gummi, Apríl og Árni Páll. Þá var nú hlegið.
Í stað þess að fara beint í matsalinn og síðan að sofa var það fyrst bíósalurinn þar sem börnin fengu að sjá tvær eldri stuttmyndir eftir sumarbúðabörn og popp og safi gerði bíósýninguna enn skemmtilegri.
Svo var sofnað vært og rótt.
Sápukúlusprengikeppnin: Steinar Dúi
Keila: Rakel Sandra
Draugaleikurinn: Krossfiskar
P.s. Myndir frá deginum eru á
www.sumarbudir.is - myndir - dagur 3.
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.