Nýr dagur rann upp, bjartur og fagur. Sólin skein eins og hún fengi borgað fyrir það. Fyrsti í rumski var þó ekki fyrr en klukkan 8.15, enda vel sofið eftir skemmtilegheit gærdagsins. Sigrún næturvörður getur ekki hætt að hrósa börnunum sem öll fengu broskarl í kladdann í morgun ...
Eftir leiki og fjör, sund og sólbað, fóru börnin út í íþróttahús en þar lék starfsfólkið leikrit fyrir þau, forvarnaleikrit í léttum og skemmtilegum dúr en með alvarlegan undirtón. Ping og Pong fóru á kostum og einnig Sing (góð ráð) og Song (slæm ráð).
Börnin tóku virkan þátt úr salnum og ekkert þeirra taldi rétt að Apríl færi upp í bíl hjá ókunnuga manninum þótt hann bæði hana að hjálpa sér með litla hvolpa. Sing spurði hreinlega hvar fjölskylda mannsins væri og hvers vegna hún hjálpaði honum ekki ... Sing og Song eru sko raddirnar í höfði Apríl, önnur leiðbeindi henni og peppaði hana upp en hin sagði henni að hún gæti ekkert, eins og t.d. í stærðfræðiprófi. Svo þegar Apríl fór í tölvuna og fékk vinarbeiðni á Facebook frá sætum en alveg ókunnugum strák sagði Sing henni að adda honum ekki, Song hélt nú að það væri óhætt en sem betur fer hlustaði Apríl á Sing.
Eftir leiksýninguna fóru börnin inn á herbergin til að ganga frá sunddótinu, sum völdu að slaka á þar fram að mat en önnur hlupu aftur út í sólina og krítuðu og léku, hoppuðu og skoppuðu.
Sumarbúðalandslið kokka bauð upp á skyr og síðan safaríka ávexti sem voru nú heldur betur góðir í hitanum.
Þá var komið að hádegisfundinum, hver hópur með sínum umsjónarmanni, og rætt var um leiksýninguna. Það gladdi umsjónarmennina mikið að heyra hvað börnin höfðu verið vel frædd um hætturnar af því að fara upp í bíl hjá ókunnugum. Einnig tók umsjónarmaður púlsinn á líðan barnanna, vildi vita hvort þau hefðu sofið vel, hvort þeim liði vel, svo var farið í uppbyggjandi og sjálfsstyrkjandi leiki sem eru ofboðslega skemmtilegir.
Námskeiðin byrjuðu svo klukkan 14, sum héldu áfram með listaverkin frá gærdeginum á meðan önnur máluðu grímurnar sínar í grímugerð og svo ætla þau að semja látbragðsleikrit. Kvikmyndagerðarhópurinn risastóri hóf tökur á myndinni sinni í dag, mikil leynd ríkir og spennan er gríðarleg. Við urðum að senda paparazzi-ljósmyndara á staðinn og honum tókst að taka örfáar myndir áður en börnin fleygðu honum út. Atriðið sem honum tókst að mynda áður var þar sem nokkur börn sváfu í rúmum hlið við hlið ... ja, myndin hér til hægri segir það sem segja þarf! Þetta verður rosalega spennandi mynd, ekki spurning.
Eftir kaffi voru stöðvarnar opnaðar: Íþróttahús, föndurstofa, spilaborg og útisvæði þar sem kassabílarnir léku stórt hlutverk, æfingar fyrir föstudagsrallíið eru á fullu.
Reiðnámskeiðsbörnin voru sótt klukkan 15 og voru klyfjuð nesti og nýjum skóm ... og brostu hringinn þegar Siggi rútubílstjóri kom að sækja þau. Þeim fannst mjög gaman og verða send með myndavél á fimmtudaginn og það kvöld koma svo hesta-og barnamyndir á heimasíðuna.
Ómótstæðilegur matarilmur barst um Kleppjárnsreyki, nánast allan Borgarfjörðinn hreinlega, upp úr hálfsjö en þá byrjuðu kokkarnir að baka pítsur í tonnatali ... og þvílík tilhlökkun hjá börnunum sem fóru fyrst inn á herbergi til að skipta um föt fyrir diskóið eftir matinn. Pítsur og diskó, hvað getur það verið betra?
Þau sporðrenndu sögulega miklu magni af pítsum, bara eins og hver gat í sig látið og svo var það bara diskófjör og ekki bara það, heldur var boðið upp á bandfléttur í hár og tattú þegar þau komu fram til að kæla sig. Einnig var gott að fara út og leika sér svolítið, bara eins og hver og einn vildi.
Gómsætir ávextir í kvöldkaffi - og mikið, mikið borðað af þeim. Svo var það bólið eftir hátt og burst og umsjónarmaðurinn las kvöldsöguna fyrir hópinn sinn. Þau fáu börn sem enn voru vakandi voru ýmist að reyna að sofna eða vildu fá að lesa aðeins lengur.
Á morgun verður algjör dúndurdagur (eins og þessi og gærdagurinn hafi ekki verið það ...). Sjálfur húllumhædagurinn - en þá ríkir sannnkölluð 17. júní-stemning. Litur dagsins verður grænn! Meira að segja rjóminn á vöfflunum í kaffinu verður litaður með grænum lit (góðum matarlit frá mömmur.is) en Ævintýralandsvöfflurnar eru löngu orðnar landsfrægar, með súkkulaðiglassúr og rjóma ... auðvitað sultu fyrir þá sem vilja ... en flestir velja súkkulaðið undir rjómann. Meira um þessa dýrð á morgun!
Myndir frá degi 2 (og týndu myndirnar frá degi 1) eru á heimasíðunni, sumarbudir.is, en hér er beinn hlekkur á dag 2, gjörið þið svo vel: http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T1D2.html
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.