Gjörsamlega frábær fyrsti dagur!

SundÞá er starfsemi sumarsins hafin, jibbí! Hópur 1 á tímabili 1 mætti í morgun.

Strax um tíuleytið byrjuðu fyrstu börnin að tínast á staðinn og þegar rútan kom um ellefuleytið varð heldur betur fjör. Glampandi sólskin, logn og blíða tók á móti fyrsta hóp sumarsins, ásamt starfsfólkinu auðvitað.

Umsjónarmenn hvers hóps (aldursskiptir) aðstoðuðu börnin með farangurinn og sýndu herbergin og aðstöðuna. Sýningarrúntur um svæðið var næstur á dagskrá, hóparnir skoðuðu vel umhverfið og húsakynnin öll. Íþróttahúsið féll vel í kramið, helst hefðu börnin viljað snæða hádegisverðinn þar en mötuneytið var ekki svo slæmt, eiginlega bara mjög gott. Kokkurinn káti hafði galdrað fram dýrindismáltíð, pastarétt og heimabakaðar hvítlauksbollur sem börnin borðuðu með góðri lyst. Fyrir mat höfðu þau komið sér vel fyrir, gerðu kósí hjá sér, reyndar á ljóshraða því mikið lá á að leika sér - bæði úti og inni, aðallega úti þó.

Skömmu áður en umsjónarmennirnir komu til að sækja börnin fyrir kynninguna sem átti að fara fram klukkan eitt í íþróttahúsinu náði sumarbúðastjórinn að spjalla svolítið við þau ... og fá þau til að hjálpa sér við pínulítið prakkarastrik. Þau máttu alls ekki segja umsjónarmönnunum neitt og svo hófst kynningin:

Sumarbúðastjórinn byrjaði að vanda á því að bjóða börnin innilega, hjartanlega, frábærlega velkomin og svo þegar hún sagði: „Ég heiti ...“ þá sögðu öll börnin hátt í kór: „Svanhildur!“ og sumarbúðastjóranum brá ofboðslega (eða þannig) en hélt áfram: „Og ég er ...“ „SUMARBÚÐASTJÓRINN,“ æptu börnin. Það nánast leið yfir umsjónarmennina, svo hissa urðu þeir, voru eins og eitt stórt spurningamerki í framan. Hvernig vissu börnin??? Þetta sló í gegn og mikið var hlegið.

Síðan kynntu starfsmenn sig og þar á eftir var sagt frá námskeiðunum frábæru - en börnin velja á milli nokkurra námskeiða sem þau eru á í tvo tíma á dag allt tímabilið. Flest börnin völdu sér kvikmyndagerð og næstvinsælasta námskeiðið var listaverkagerð. Öll verða börnin mikið í íþróttum og sundi - og það verður svo margt fleira í boði ...

Eftir kynninguna var haldið á námskeiðin og mikill spenningur í gangi. Það verða gerð ýmis listaverk þessa vikuna, meðal annars heil bíómynd, ja, allavega stuttmynd. Börnin semja handrit sjálf, skipa í hlutverk, velja búninga og leika af hjartans lyst. Á lokakvöldvöku er afraksturinn sýndur og kemur í ljós hvað verður þegar nær dregur; leikur, dans, íþróttir, bíómynd, myndlist og hvaðeina. Algjör stórhátíð.

Ekki varð dagurinn lakari þegar kom að kaffinu ... þar var heimabökuð skúffukaka á boðstólum og í eftirkaffi melónubitar eins og hver og einn gat í sig látið. Þetta er bara rétt upphafið.

Sæla í sundiSíðan var skráning og lagaval fyrir karókókeppnina. Útisvæðið var opið og einnig Spilaborg inni. Mikið flakkað á milli, enda ógurlega gaman að gera sem flest fram að mat. Spilaborg er snilldarafþreyingarkósíogfjörstaður Ævintýralands. Leikföng, bækur, púsl, spil, borðtennis og sitthvað fleira. Allir fundu eitthvað við sitt hæfi, auðvitað. Gott var að hamast svolítið útí í smástund og hvíla sig svo á milli úti eða inni.

Kassabílarnir slógu í gegn og allir vildu prófa. Nokkur kappaksturslið voru stofnuð, enda verður rallí á föstudaginn. Það verður án efa miklu meira spennandi en Formúlan ...

Hárgreiðslukeppnin er alltaf sívinsæl. Hér koma úrslitin:

1. sæti: Rakel Sandra greiddi og Sigríður Berglind var módel

2. sæti: Ynja Mörk greiddi og Adela og Birgitta var módel

3. sæti: Karen Ósk greiddi og Alda Ósk var módel

3. sæti: Ólavía Guðrún greiddi og Eva Huld var módel

Krúttlegasta greiðslan
: Linda og Karen Arna greiddu og Birna var módel

Sniðugasta greiðslan: Askja Ísabel greiddi og Hrafntinna Máney var módel

Í kvöldmatnum var boðið upp á grjónagraut sem börnin elska og með honum sporðrenndu börnin ábyggilega hátt í tonni af ávöxtum.

Kósí í heita pottinumKvölddagskráin reyndi vel á börnin en hún byrjaði með brennókeppni í íþróttahúsinu, hópar gegn hópum, allir mjög jafnir og allir unnu alla.

Síðan var boðið upp á sund fyrir þá sem það vildu og á eftir var í boði enn ein máltíðin, eða kvöldkaffið, enda þarf maður eldsneyti til að halda sér gangandi. Yfirleitt eru ávextir í kvöldkaffinu en líka stundum brauð og safi eins og var nú í kvöld.

Þreytt, uppgefin, útkeyrð en alsæl börn yfirgáfu matsalinn og héldu til koju. Á meðan augnlokin þyngdust hlustuðu þau á sögu sem umsjónarmaðurinn þeirra las fyrir þau. 

Þetta var bráðskemmtilegur dagur og börnin eru alveg frábær, mjög skemmtilegur og góður hópur, ljúf og kurteis börn.

Á morgun kemur nýr dagur, fullur af ævintýrum og leikjum og að sjálfsögðu verður allt um það hér - og fleiri myndir. Hérna fyrir neðan er slóð að nokkrum myndum sem voru teknar við sundlaugina í kvöld, myndunum fjölgar ... um leið og týnda myndavélin finnst:  

http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T1D1.html#8


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sumarbúðirnar Ævintýraland

Höfundur

Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðir með sérstöðu

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...3_sapukulur
  • Æðisleg reiðnámskeið
  • Vinsæl leiklist
  • Úr bíómyndinni
  • Sykurpúðar grillaðir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband