5.8.2011 | 11:12
Leynigestur, sykurpúðar og hátíðarkvöldverður á lokadegi
Lokadagurinn, eða síðasti heili dagurinn, dagur númer 6, var viðburðaríkur, eins og við mátti búast, enda lokakvöldvakan um kvöldið og heilmargt um að vera fram að henni.
Dagurinn hófst eins og venjulega á morgunverðarhlaðborðinu og síðan voru ýmsar æfingar í gangi og fjölbreytt afþreying að vanda.
Í hádeginu bauð Sigurjóna upp á skyr og með því voru bollur og einnig pítsusneiðar, sem féll vel í kramið.
Síðan var farið í að pakka niður því allra helsta og það gekk ljómandi vel, röskir krakkar voru ekki lengi að drífa þetta af. Vissulega var fínu fötunum ekki pakkað niður, eða ferðafötum næsta dags, en öllu hinu.
Þá var farið í sund og í skemmtilega leiki. Kvikmyndagerðarhópurinn horfði á gamlar myndir sem hópar fyrr í sumar höfðu gert og skemmtu sér vel yfir þeim. Myndin Adda padda, sem unglingahópurinn í fyrra gerði, en það þótti nú ekki leiðinlegt þar sem fjölmargir hjá okkur núna voru einnig í fyrra og léku í þeirri mynd.
Óvænt voru börnin beðin um að koma inn í matsal. En leynigesturinn var mættur á svæðið. Enginn annar en Ólafur Darri leikari sem allir þekkja úr Fangavaktinni (Þröstur Hjörtur) og Roklandi. Ólafur Darri spjallaði við krakkana og svaraði spurningum þeirra um hlutverkin og einnig annað á borð við hvort hann ætti börn, ætti bíl, ætti konu, hvað hann væri gamall og annað í þeim dúr. Hann svaraði öllu skýrt og skilmerkilega og þegar hann var spurður um hlutverk sitt í Fangavaktinni var hann alvarlegur og sagði að fangelsi væru sorglegir staðir og maður ætti að gera allt sem hægt væri til að forðast slíka staði, eða halda sig réttum megin við lögin. Margar myndir voru teknar, allir vildu eiga mynd af sér með Þresti Hirti ... og svo tókum við þessa hópmynd.
Í kaffinu var boðið upp á skúffuköku og melónur.
Ellen útbjó handdekurhorn og bjó til maska úr hunangi, matarolíu, kaffikorgi og hrásykri og vildu bæði stelpur og strákar fá mjúkar hendur. Stelpurnar voru kannski öllu áhugasamari þegar kom að því að lakka neglurnar ...
Á síðasta deginum óskum við alltaf eftir dugnaðarforkum í ruslatínslu og stéttasópun. Meira en helmingur barnanna bauð sig fram og er það mál manna að umhverfi sumarbúðanna hafi sjaldan verið hreinna og fínna. Farið var með poka og rusl tínt upp í þá. Þau fengu að sjálfsögðu smá viðurkenningu fyrir dugnaðinn.
Skömmu fyrir mat fóru þau inn á herbergin til að skipta um föt og svo var haldið í matsalinn, í hátíðarkvöldverð að hætti ævintýraeldhússins. Það voru hamborgarar, franskar, sósa og gos og þvílík veisla!
Íþróttahópurinn sýndi miklar körfuboltalistir í íþróttahúsinu og gerðu einnig mjög stóran mennskan pýramída, ekkert smá flott hjá þeim.
Síðan var haldið út í góða veðrið þar sem starfsfólkið beið við grillin, og sykurpúðar og stjörnuljós biðu. Þetta var mjög skemmtilegt og mikil stemmning.
Ávextir voru síðan snæddir í kvöldkaffinu og á þessu síðasta kvöldi var eftirmatur, eða frostpinni!
Ekki var hægt að sýna bíómynd kvöldsins þar sem upp kom bilun í klippiforritinu ... en Davíð vann fram á nótt við að klippa bíómyndina um Sigmund Árnason skólastjóra og fjölskyldu. Eftir heilmiklar ógnir og skólahúsið í rúst var skólinn endurbyggður en alltaf var draugagangur þar. Áttundi bekkur fékk að gista í nýbyggða skólanum og þá varð nú allt vitlaust!
Myndin var sýnd að morgni brottfarardags, eftir morgunverðinn, og vakti mikla lukku, enda ógurlega spennandi. Svo kom rútan og sótti megnið af börnunum, hin voru sótt.
Við þökkum þessum frábæra og hugmyndaríka hópi kærlega fyrir samveruna, sem og öllum gestunum sem hafa komið til okkar í sumar. Megi veturinn verða frábær, sjáumst næsta sumar!
Myndir frá lokadeginum eru hér: http://sumarbudir.is/sumarbudir/t8d6_2011.html
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.