31.7.2011 | 11:41
Hasar og fjör á húllumhæ
Fjórði dagur rann upp nokkuð bjartur en mjög fagur, enda fallegt hér í Borgarfirðinum í öllum tegundum veðus. Við áttum alveg eftir að sjá bæði rigningu og sól - og sólin birtist sannarlega á réttum tíma ...
Eftir hinn staðgóða og fjölbreytta morgunverð var haldið á námskeiðin sem eru þó vanalega haldin eftir hádegið. Ástæðan: Húllumhædagurinn sem hófst á hádegi og stóð samfleytt langt fram á kvöld, þetta orð samfleytt olli breytingunni.
Námskeiðin gengu glimrandi vel - tökur eru farnar á fullt í kvikmyndagerðinni og sýndist okkur að eitthvað atriði eigi að gerast í skóla. En allt kemur í ljós þegar bíómyndin verður frumsýnd á lokakvöldvökunni.
Börnin fengu grjónagraut og melónur í hádeginu og í kjölfarið var haldið út í sjoppu þar sem keypt var snakk og sælgæti fyrir kvöldið en hátíðin, húllumhæið, endar á bíókvöldi. Í sjoppunni hittum við hana Kötlu sem var hjá okkur á síðasta tímabili en hún var þarna á ferð með mömmu sinni, einum cavalier-hundi og tveimur stórum St. Bernharðshundum sem fengu mikla athygli enda ótrúlega stórir og flottir.
Þegar búið var að birgja sig upp fyrir kvöldið var farið í fánaleikinn skemmtilega. Úti var grenjandi rigning en þessar hetjur létu það nú ekkert á sig fá. Viti menn, eftir smátíma kom sól og blíða sem nægði til að þurrka blautu fötin og gefa aukakraft í leikinn sem gengur út á að ná klemmu af andstæðingnum.
En það sem mestu máli skiptir er að ná fána andstæðingsins og koma honum yfir á sinn vallarhelming. Tvö lið kepptu, Draumur og Martröð og sigraði fyrrnefnda liðið. Þetta var mikill hasar og alveg ótrúlega gaman!
Síðan héldu börnin inn í matsal þar sem fram fór kókosbolluboðhlaup.
Það var mjög spennandi, enda þarf að hesthúsa heilli kókosbollu hratt og vel ... með hendur fyrir aftan bak!
Í kaffinu voru heitar vöfflur með súkkulaðiglassúr og rjóma, eða sultu og rjóma, og sló það alveg í gegn, enda dásamlega gott.
Eftir kaffi var sitt af hverju í boði, eins og skartgripagerð þar sem leir var notaður, hitaður og límdur á festingar eftir að búið var að móta eitthvað flott úr honum. Gripirnir urðu ógurlega flottir. Hægt var að gera einn hring og sett af eyrnalokkum og þetta urðu ekkert smáflott skartgripasett.
Þeir sem áttu eftir að gera brjóstsykur komust á námskeið í því og nú hafa öll sumarbúðabörnin gert stóran poka af alls kyns brjóstsykri. Það var hægt að gera hinar og þessar ávaxtategundir og líka sterka mola.
Í diskóherberginu (nema þegar þarf að flytja diskóið út í íþróttahús) var Wii-tenniskeppni (tölvuleikur og skellt á sýningartjald). Svo var einnig hægt að fá bandfléttur í hár, gera vinabönd og fá tattú.
Nokkrir kusu að fara til spákonunnar dularfullu, Stefaníu Potter, systur hinnar enn dularfyllri Jósefínu Potter sem hefur komið alla húllumhædaga í sumar. Frú Stefanía leyfði börnunum að draga eitt spil og sagði þeim svo eitthvað fallegt um framtíðina. Að vanda voru heilmiklar pælingar í gangi HVER af starfsfólkinu þessi spákerling gæti verið, margir voru vissir um að þetta væri Sæbjörg í eldhúsinu en svo sást hún á vappinu svo leyndarmálið upplýstist ekki.
Íþróttahúsið og útisvæðið buðu líka upp á skemmtilegheit og meira en nóg var við að vera þennan skemmtilega dag.
Eldhús dásemdanna bauð upp á enn einn frábæra kvöldverðinn en að þessu sinni voru grillaðar pylsur með öllu. Það vakti nú aldeilis lukku.
Eftir kvöldmat var síðan bíókvöld og þar sem börnin voru birg af snakki lágu þau eins og sætar skötur og möluðu værðarlega.
Þannig endaði nú góður húllumhædagur hér að Kleppjárnsreykjum - að vísu háttuðu þau, burstuðu og fóru að sofa eftir bíókvöldið, og næturvörðurinn var svo sem ekkert mikið á þönum, enda frekar rólegt hjá henni.
Myndir, myndir og aftur myndir eru á heimasíðunni okkar, sumarbúðir.is. En hér er hlekkur á beinustu leið á dag 4: http://sumarbudir.is/sumarbudir/t8d4_2011.html
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.