30.7.2011 | 14:31
Fjör á dansleik, meiri brjóstsykur, ísbíll og allt!
Dagur þrjú ...þvílíkur dásemdardagur - afmælisveisla, dansleikur, meiri brjóstsykursgerð, ísbíllinn kom í heimsókn, það fór fram hárgreiðslukeppni - það var synt og hoppað og skoppað um allar grundir ... er hægt að biðja um skemmtilegri dag?
Eftir hið fjölbreytta og bragðgóða, samt valkvíðaaukandi en saðsama morgunverðarhlaðborð var sitt af hverju í gangi. Eins og íþróttahúsið sem býður upp á svo ótrúlega skemmtilega leiki, stórar og þykkar dýnur, stökktrampólín og fleira og fleira, sundið og heiti potturinn, Spilaborgin góða og svo var brjóstsykursgerð ... en það er löngu sannað að brjóstsykur sem maður býr til sjálfur smakkast betur en annar brjóstsykur. Svo var karaókíæfing fyrir Ævintýrabarkann.
Morgunninn leið hratt og áður en nokkur vissi af var kominn hádegisverður - kakósúpa og tvíbökur og fullt af ávöxtum.
Hádegisfundirnir gengu vel, svo og námskeiðin en undirbúningurinn fyrir lokakvöldvökuna er einmitt fólginn í þeim ... Íþróttaatriði eru búin til fyrir sýninguna - handrit kvikmyndagerðar komið á hreint, búningar valdir og æfingar hafnar, jafnvel einhverjar tökur! Alltaf hvílir mikil leynd yfir námskeiðunum þar sem allt á að opinberast síðasta kvöldið. Við reynum að skilja það ...
Heilt afmælispartí var haldið í kaffitímanum. Hún Alexandra Björg átti afmæli og blásið var til veislu af því tilefni. Súkkulaðikaka á línuna - skreytt sneið fyrir afmælisbarnið sem er hér fjórða árið sitt í röð, annan afmælisdaginn sinn í röð líka. Hún fékk eðallegghlífar frá sumarbúðunum, bláar og rosaflottar, einnig afmæliskort. Lívey Erika og Alexandra Diljá bjuggu að auki til afmæliskort handa henni sem allir krakkarnir skrifuðu nöfnin sín í ... og svo keypti Lívey handa henni ís þegar Ísbíllinn mætti á svæðið.
Já, við fáum sjálfan Ísbílinn alltaf í heimsókn á unglingatímabilinu og þegar bjölluhljóðið í honum heyrðist var sko hlaupið af stað. Hrattttt!
Haldin var hárgreiðslukeppni eftir kaffi og sú var skemmtileg. Bæði stelpur og strákar tóku þátt og mátti meðal annars sjá módel á gólfinu, hármeistara í sófanum að greiða því og ofan á sófabakinu sat annar hármeistari sem greiddi fyrri hármeistara. (Sjá mynd) Já, og tvær hárgreiðslur skiptu með sér fyrsta sætinu en hér koma úrslitin:
1. sæti: María Sif sem greiddi Stefaníu Veigu.
1. sæti: Stefanía Veiga og María Sif greiddu Írenu.
2. sæti: Alexandra Björg greiddi Alexöndru Diljá.
3. sæti: Bryndís Ósk sem greiddi Alex Þór.
Frumlegasta: Árný Birna greiddi Pétri William.
Speisaðasta: Daníela Rán greiddi Árnýju Birnu.
Flippaðasta: Lívey Erika og Birta Lind greiddu Ísak Árna.
Mest töff: Stefanía Veiga greiddi Hreiðari Henning.
Allir þátttakendur fengu viðurkenningu og sigurvegararnir smáverðlaun sem tengjast hári, eins og spennur, greiður, teygjur og þess háttar.
Einhverjir sprikluðu úti í íþróttahúsi eftir ísátið mikla og aðrir spiluðu í Spilaborg.
Svo kom kvöldmaturinn ... og vakti þvílíka lukku. Heimabakaðar pítsur í tugatali og gos með. Börnin borðuðu ekki vel - þau borðuðu MIKIÐ! Sem er allt annað. Brosið fór ekki af Sigurjónu matráðskonu sem hefur svo gaman af því að gefa lystugum börnum að borða!
Eftir mat var haldinn dansleikur ... ja, eða diskó, eins og allir kölluðu það. Til að krakkarnir hefðu nægt pláss var ballið haldið í íþróttahúsinu. Það var sko reykvél, diskóljós og allt, krakkarnir í sínu fínasta pússi og það var sko dansað og dansað. Einnig var hægt að fá tattú og bandfléttu í hárið.
Hann Unnar kenndi krökkunum að búa til ímyndaða samloku en þá voru allar hreyfingarnar með brjáluðu dans-"múvi", hver hefur ekki smurt sér samloku á þennan hátt ... Já, og kveikja á ímyndaðri sláttuvél og margt fleira sem sló heldur betur í gegn.
Eftir að hafa dansað um langa hríð var komið að kvöldkaffi, ávöxtum og svo var það bara bólið og spjall og síðan svefninn. Flestir voru dauðþreyttir eftir allan dansinn og sofnuðu eflaust fyrr en ella.
Hér eru fleiri myndir frá deginum:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/t8d3_2011.html
Við kveðjum í bili úr fjörinu á Kleppjárnsreykjum.
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.