25.7.2011 | 23:48
Velheppnaður Ævintýrabarki!
Dagur fimm hófst með staðgóðum og fjölbreyttum morgunverði að vanda.
Svo fóru langflestir í sund, þeir sem ekki höfðu tíma fóru í sturtu (eða örsnöggt sund) og drifu sig svo á karaókíæfingu hjá Ósk ... stóra kvöldið fram undan. Æfingin skapar meistarann og það átti heldur betur eftir að reynast rétt.
Veðrið var bara ágætt, en flestir vildu skoppa í íþróttahúsinu eftir sundið, og um tíma, og fóru svo á útisvæði eða í Spilaborg.
Eldhúsið hafði staðið í bakstri allan morguninn, eða frábæra starfsfólkið þar, og ilmurinn var lokkandi. Í hádeginu kom svo í ljós að stórar risahvítlauksbollur höfðu verið í ofninum og voru sérdeilis góðar með pastaréttinum.
Eftir hádegisfundina með umsjónarmönnunum var haldið á námskeiðin og þvílíkt sem var gaman. Þrotlausar æfingar hjá íþróttahópnum sem skemmti sér svo vel, tökur í kvikmyndagerðinni gengu vel, æfingar í leiklistinni og fjölmörg listaverk voru sköpuð í myndlistinni. Mikið á lokakvöldvakan eftir að verða æðisleg. Hefst á myndlistarsýningu, síðan er farið í íþróttahúsið og leikritið flutt og íþróttasýningin fer fram og endað er á bíómyndinni.
Reiðnámskeiðsbörnin fóru á hestbak og allt gekk vel. Farið var um fallegar slóðir, sest niður og nestið borðað, síðan hittu börnin heimalning sem var ekki síður hrifin af þeim en þau af honum. Ást við fyrstu sýn.
Í kaffinu var sitt af hverju í boði, eins og sandkaka, vöffluafgangar og ávextir. Eftir kaffi voru útisvæðið, íþróttahúsið og Spilaborg heitustu staðirnir.
Í íþróttahúsinu fór fram tískusýningaræfing nokkurra stelpna, en þær hættu því miður við að halda sýninguna þegar upp var staðið. Í hinum enda íþróttasalarins fór fram þolfimi sem breyttist í keppni. Þar sigruðu: Erla Svanlaug (1. sæti), Andri Freyr (2. sæti) og Bjarni Þór (3. sæti). Þau fá viðurkenningarskjöl og smáverðlaun.
Skömmu fyrir kvöldverð fóru börnin inn í herbergin sín og skiptu um föt, nú var heldur betur ástæða til, enda stórt kvöld fram undan.
Eldhúsið bauð upp á fisk, hrísgrjón og karrísósu (Ævintýrasósu), einnig tómatsósu og smjör til að auka fjölbreytnin. Það rann vel niður.
Svo var það bara Ævintýrabarkinn, söngvara- og hæfileikakeppnin:
Inga Bjarney, Signy Helga, Gunnhildur Sædís Ósk og Birta Rún sem sungu Lazy Song.
Andrei Freyr dansaði undir laginu Reykjavíkurnætur
Viktoría Líf söng lagið Jar of Hearts
Kharl Anton og Ingi Þór dönsuðu undir laginu Pinball
Samar fór í brú og var lengi ... og teiknaði fallega mynd á meðan!
Halldór Ívar söng Time Wrap
Inga Bjarney söng Tomorrow
Keppnin var í einu orði sagt STÓRKOSTLEG. Mjög jöfn og helst hefðum við viljað að allir hefðu lent í verðlaunasæti.
Þegar dómnefndin var búin að telja saman stigin lágu úrslitin fyrir:
Í þriðja sæti var Inga Bjarney. Hún söng æðislega vel.
Í öðru sæti voru Kharl Anton og Ingi Þór sem dönsuðu eins og atvinnumenn.
Í fyrsta sætinu var Halldór Ívar, afar hæfileikaríkur söngvari með sviðsframkomuna á hreinu!
Börnin voru öll sigurvegarar, höfðu lagt sig mikið fram sem sýndi sig heldur betur þarna. Allir fengu viðurkenningarskjal og smáglaðning með.
Í kvöldkaffinu var smurt brauð og safi og síðan var haldið í háttinn, bæði keppendur og áhorfendur alsælir með kvöldið og frábæra skemmtun.
Myndir frá deginum eru hér: http://sumarbudir.is/sumarbudir/t7d5_2011.html
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.