22.7.2011 | 01:33
Afmælisveisla, dekurhorn, brennó og spennandi draugaleikur ...
Dagur tvö var frábærlega skemmtilegur og mikið við að vera. Hann hófst auðvitað á því að börnin vöknuðu kát og hress - umsjónarmenn vöktu hópnana sína en sum börnin voru svo sem vöknuð eða farin að rumska.
Umsjónarmennirnir settust við morgunverðarborðið með hópunum sínum og þetta var glæsilegur morgunverður - heilt hlaðborð, takk. Hægt að velja um hafragraut, súrmjólk, kornfleks, cheerios, ristað brauð með osti og heimalöguðu marmelaði, óristað brauð með mysingi, súrmjólk með mysingi ... eða bara hvað sem hvern langaði í. Hægt að velja á milli eða prófa sitt lítið af hverju.
Eftir morgunmat voru nokkrar stöðvar opnar sem hægt var að velja á milli. Íþróttahúsið frábæra, sundlaugin, kertagerð og svo var fyrsta karaókíæfingin sem er vinnuheiti á æfingum fyrir Söngvara- og hæfileikakeppnina Ævintýrabarkann, sem haldin er næstsíðasta kvöldið. Margir keppendur taka þátt að þessu sinni og allt stefnir í flotta keppni.
Kertagerðin er alltaf ótrúlega skemmtileg en þá hellir starfsmaður vaxi í bláskel, kveikur er settur í og svo skreyta börnin kertin sín með glimmeri, hrísgrjónum, jafnvel baunum og útkoman verður mjög skemmtileg. Minjagripur til að taka með heim.
Í hádeginu var sérdeilis góð núðlusúpa, ásamt smurðu brauði með eggjum og kæfu.
Fyrsti hádegisfundurinn var haldinn, hver hópur með sínum umsjónarmanni en þessir fundir þjappa krökkunum vel saman, farið er í leiki, spjallað saman og mikil ánægja hefur ríkt með þá.
Forvarnarleikrit var síðan flutt í íþróttahúsinu. Mjög skemmtilegt leikrit en með alvarlegum undirtón. Það kemur inn á ýmsar hættur sem geta steðjað að börnum og unglingum, einnig hvað einelti getur verið lúmskt og ljótt og annað í þeim dúr. Leikritið verður síðan frekara umfjöllunarefni á hádegisfundum ásamt öðru.
Síðan voru það fyrstu námskeiðin haldin. Þá er byrjað á því að t.d. gera handrit að leikritinu og að stuttmyndinni, listaverkagerðin hefst handa við að búa til sína snilld, íþróttahópurinn byrjar að æfa sýningu sína og svo framvegis. Yfirleitt hvílir mikil leynd yfir námskeiðunum, lítið spyrst út þótt við spyrjum lymskulega. Við fengum það eina upp úr kvikmyndagerðinni að það ætti að gera eitthvað öðruvísi, hvað sem það nú þýðir. Dæs ...
Reiðnámskeiðsbörnin skelltu sér á hestbak hjá henni Guðrúnu Fjeldsteð og tóku með sér nesti. Myndavélin verður með þeim í för á sunnudaginn.
Í kaffinu var boðið upp á súkkulaðiköku eða skúffuköku ... eða skúffulaðiköku, eins og ónefndur starfsmaður orðaði það, og svo voru ávextir líka.
En þetta var enginn venjulegur kaffitími. Heil tvö afmælisbörn (12 ára), þær Bára Sif og Guðmunda Sjöfn, já, einn þriðji af tvíburunum okkar þessa vikuna, fengu kökuna sína skreytta og með kerti á, þær fengu afmælispakka og kort og svo sungu um 70 manns afmælissönginn fyrir þær. Bara æði!
Sitt af hverju var í boði eftir kaffi, eins og Spilaborg, útisvæðið, íþróttahúsið og ...
... svo var smá dekurhorn opnað sem stelpurnar voru hrifnari af ein strákarnir, einhverra hluta vegna ... Þar var kennt hvernig á að búa til kornmaska til að setja á hendurnar og skola svo vel af. Hendurnar dúnmjúkar á eftir og svo var hægt að naglalakka sig á eftir. Mjög gamanog gott að kunna.
Kvöldmaturinn var ekki af verri endanum, heldur hakk og spaghettí, nammi namm! Vel borðað af því, eða öllu heldur, mikið borðað.
Eftir matinn var haldið á útisvæðið þar sem brennókeppni var haldin. Jafntefli varð þannig að það verður að halda úrslitaleik fljótlega.
Síðan var það hinn æsispennandi draugaleikur sem er í rauninni keppni í hraða, þolgæði, hetjuskap, hugrekki og ... já, aðallega hraða og því að geta haldið niðri í sér hlátrinum á meðan léttar þrautir eru leystar undir hrikalegri tónlist, í myrku herbergi þar sem reykvél mallar og draugar virðast vera í hverju horni. Það þarf að hlaupa góðan spöl, einn í einu sko, og tveir úr hverjum hópi, að herberginu, inn í það og út í enda þar sem fata með viðbjóðslegu vatni (ókei, kalt vatn plús smávegis af mold) er á borði, kafa ofan í hryllinginn, sækja þangað stein og hlaupa með hann til baka og afhenda starfsmanni, síðan hlaupa að upphafsreit aftur þar sem annar úr hópnum bíður eftir að hlaupa líka.
Þetta þótti alveg ótrúlega skemmtilegt. Aðaldraugurinn var Davíð umsjónarmaður og honum til aðstoðar voru Maggi, Apríl og Sissa. Fljótasti hópurinn reyndist vera Sæljónin snjöllu. En hin voru líka alveg rosalega fljót.
Ávextir voru snæddir með bestu lyst í kvöldkaffinu og svo var haldið til rekkju. Börnin sofnuðu hratt og vel, enda þreytt eftir viðburðaríkan og skemmtilegan dag.
Hér fyrir neðan er hlekkur í myndir frá degi 2 en við kveðjum í bili úr öllu stuðinu hér á Kleppjárnsreykjum.
http://sumarbudir.is/sumarbudir/t7d2_2011.html
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.