21.7.2011 | 19:28
Tvíburatímabilið mikla!
Stór hópur af kátum krökkum mætti í Ævintýraland á sjöunda tímabil sumarsins.
Nokkur börn komu með einkabílum en flest með rútunni okkar sem leggur alltaf upp frá Perlunni.
Umsjónarmennirnir biðu spenntir eftir börnunum sínum en hóparnir verða fimm þetta tímabilið: Krossfiskar, Gullfiskar, Sæljón, Höfrungar og Hafmeyjar. Flest börnin eru á aldrinum 10-13 ára.
Að vanda byrjuðu börnin á því að koma farangrinum inn í herbergi og síðan var farið í skoðunarferð um svæðið. Mörg börnin hafa vissulega komið áður en þeim fannst bara gaman að skoða allt og rifja upp síðan í fyrra og hittiðfyrra og ... í sumum tilfellum nánast í fornöld hreinlega. Umsjónarmennirnir fóru með hópana sína í þessa skoðunarferð.
Eftir köku og melónur í kaffitímanum var haldin kynning úti í íþróttahúsi. Þá voru kynnt þau námskeið sem eru í boði þessa vikuna, börnin velja sér námskeið sem þau verða á í tvo tíma á dag og svo er afraksturinn sýndur á magnaðri lokakvöldvöku síðasta kvöldið.
Langvinsælasta námskeiðið að þessu sinni er íþróttanámskeiðið. Þá eru það listaverkagerð, leiklist og kvikmyndagerð. Þau þrjú börn sem völdu grímugerð fá að gera sínar grímur þótt þau kjósi að fara í leiklist eða kvikmyndagerð sem þau völdu sér til vara.
Núna er sannkallað tvíburatímabil hjá okkur en það komu hvorki meira né minna en þrennir tvíburar ... Ingi Þór og Magnús Anton, Alvin Hugi og Bjartur Elí, og Bára Sif og Guðmunda Sjöfn en þær eiga afmæli á morgun (fimmtudag), verða 12 ára. Allt um afmælisveisluna í næsta bloggi. Kaka fyrir alla, söngur, gjafir og kerti á kökuna fyrir afmælisbörnin. Það er alltaf gaman að eiga afmæli í Ævintýralandi! Og líka að vera afmælisgestur.
Útisvæðið var vinsælt eftir kynninguna og einnig Spilaborg sem er stútfull af skemmtilegu dóti, spilum, púslum, bókum og leikföngum, einnig er þar borðtennisborð, fótboltaspil og margt fleira. Sumum þótti notalegt að vera í smástund inni á herbergi og koma sér betur fyrir, spjalla og kynnast. Úti var ágætisveður og rigningin þorði ekki að láta sjá sig nema rétt á meðan börnin voru inni í kaffitímanum og svo í kvöldmatnum.
Grjónagrautur var í boði í kvöldmatnum og mikið óskaplega þótti börnunum hann góður. Mikið var borðað af honum og börnin fóru södd og sæl úr matsalnum. Mikið sem þau eiga eftir að verða sæl með þetta eldhús dýrðarinnar næstu dagana ... segi nú ekki annað.
Síðan fóru flest börnin í sund en á Kleppjárnsreykjum er alveg dásamleg sundlaug. Og ekki eru heitu pottarnir síðri ... Íþróttahúsið var líka opið og Spilaborgin seinna um kvöldið.
Í kvöldkaffinu var boðið upp á ávexti og þeir runnu nú vel niður. Alltaf gott að fara ekki að sofa með tóman maga en börnin hreyfa sig svo mikið að það veitir sannarlega ekki af því að vera alltaf með kvöldhressingu.
Svo var bara háttað, burstað og farið í koju. Alltaf er boðið upp á kvöldsögu sem hver umsjónarmaður les fyrir hópinn sinn en hóparnir ráða því sjálfir og sumir vilja bara ná sér í góða bók í bókasafnið okkar, og lesa sjálfir undir svefninn. Við eigum fullt af góðum bókum fyrir alla aldurshópa, blöð, Syrpur og Tinnabækur.
Þemalitur/-litir þessa tímabils eru blár/og fjólublár og á sunnudaginn verða þeir litir mest áberandi.
Við kveðjum í bili frá Kleppjárnsreykjum. Myndir frá degi 1 er að finna hér að neðan:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/t7d1_2011.html
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.