18.7.2011 | 18:50
Frábær Ævintýrabarki og fleiri skemmtilegheit
Dagur fimm hófst með hinu frábæra morgunverðarhlaðborði eftir að umsjónarmenn höfðu vakið hópa sína - allir burstað tennur og farið í fötin.
Síðan varð stemningin rennandi blaut ... eða nánast allar stelpurnar skelltu sér í sund, heita pottinn eða bara sturtu. Sérstaklega vildu þátttakendur í Ævintýrabarkanum vera fljótir þar sem æfing var fyrir hádegi.
Eftir sturtu, sund og afslappelsi í pottinum varð útisvæðið fyrir valinu, veðrið var dásamlegt og mikið krítað og leikið.
Haldin var sippukeppni þar sem Sunna Björk sippaði sig til sigurs og þar sem keppni var hafin vildi stelpurnar fá húllakeppni og þar var það Alexandra sem bar sigur úr býtum.
Þær voru ögn dasaðar eftir sund og sól og þótti gott að kæla sig inni á herbergjunum í smástund fyrir matinn. After sun, hárburstun og slíkt er alveg nauðsynlegt!
Í hádeginu bauð eldhúsið upp á pastarétt og hvítlauksbollur, heimabakaðar að sjálfsögðu og alveg rosalega góðar.
Á hádegisfundunum var rætt um sjálfstraust og mikilvægi þess að hafa trú á sjálfum sér - að þótt aðrir séu jafnvel illgjarnir og segi eitthvað ljótt þá þurfi ekki að taka það til sín. Galdurinn sé að trúa ekki slíku, reyna að láta það ekki hafa áhrif á sig, bara hunsa það. Stelpurnar voru innilega sammála þessu, stundum erfitt að hunsa ósanngirni frá öðrum krökkum en þær ætluðu sannarlega að reyna það í framtíðinni.
Leyndin yfir námskeiðunum er að verða óbærileg, okkur gengur illa að njósna um atriðin sem hóparnir ætla að sýna á lokakvöldvökunni, bíómyndina, dansinn, íþróttirnar ... en þeim mun skemmtilegra verður svo sem að sjá atriðin þegar að því kemur!
Svo fóru reiðnámskeiðsstelpurnar með nestið sitt, í ógurlega góðu veðri og riðu um fallega staði á mögulega bestu hestum í öllum heiminum. Guðrún reiðkennari leiðbeindi þeim en hún hefur áratuga reynslu og hefur kennt börnunum okkar í mörg, mörg ár.
Eftir kaffi (sandkaka, vöffluafgangar og ávextir) skelltu stelpurnar sér á útisvæði, Spilaborg og í íþróttahúsið. Það síðastnefnda togar fast og allar stelpurnar voru þar um tíma við hopp og skopp.
Síðan var skroppið inn á herbergi til að snyrta sig fyrir kvöldið en heilmikil spenna ríkti þar sem Ævintýrabarkinn var fram undan.
Í kvöldmat bar eldhúsið fram fisk, hrísgrjón, karrísósu (sem er eiginlega ævintýrasósa a la Sigurjóna), einnig gátu stelpurnar fengið tómatsósu og smjör með.
Þá var það Ævintýrabarkinn ...söngvara- og hæfileikakeppnin, frábær skemmtun þar sem stelpurnar sýndu frábæra takta og voru hver annarri betri.
Alexandra Hafþórsdóttir söng lagið See you again (Miley Cyrus) Dagný Freyja söng lagið Jar of hearts (Christina Perri)
Kolbrún Matthíasdóttir söng lagið Grenade (Bruno Mars)
Oddný Þóra söng lagið Hot n´ cold (Katy Perry)
Sólveig Þóra söng lagið Á Sprengisandi
Valný Lára söng lagið The Climb (Miley Cyrus)
Vigdís Elva söng lagið Last Friday Night (Katy Perry)
Íris söng lagið Fireworks (Katy Perry)
Hafrún Arna söng lagið Suðurnesjamenn
Dómnefnd gaf hverjum keppenda stig og síðan var farið að reikna þau saman. Þetta reyndist hafa verið mjög jöfn keppni en ... flest stigin fékk Valný Lára sem tók sigurlagið fyrir áhorfendur sem klöppuðu vel fyrir henni.
Eftir þessa góðu keppni var sest inn í matsal og smurt brauð og safi var í boði í kvöldkaffinu.
Síðan var það bara bólið.
Frábær dagur - æðislegt kvöld!
Myndir frá degi 5 má finna hér:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/t6d5_2011.html#grid
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Frábært að sjá loksins sunnudagsblogg, við Syrpa biðum alveg eftir því. Syrpa hefur þó áhyggjur af þessum hundi sem Oddný Þóra er augljóslega að spjalla við í reiðtúrnum. Og ekki leist Syrpu heldur á að sjá alla þessa hesta.
Frábært að sjá hvað allir eru glaðir. Bestu kveðjur til Oddnýjar Þóru, við Syrpa komum að sækja hana á morgun.
Kv. Vala mamma og Syrpa (hundur).
Vala og Syrpa (IP-tala skráð) 18.7.2011 kl. 19:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.