17.7.2011 | 00:36
Enginn venjulegur dagur!
Dagur 4 var enginn venjulegur dagur - heldur húllumhædagur. Þá daga breytist dagskráin svolítið - og það er engu líkara en að kominn sé 17. júní þótt nú sé miður júlí!
Stelpurnar vöknuðu eldhressar og kátar eins og venjulega, burstuðu tennur, klæddu sig og hvaðeina, eins og væri venjulegur dagur, borðuðu líka morgunmat eins og venjulega, hafragraut eða cheerios, ristað brauð eða súrmjólk með kornfleksi og púðursykri ... bara allt eins og venjulega.
Svo hófust námskeiðin ... FYRIR hádegi. Það var bara fjör og gengu æfingar mjög vel. Við hittum kvikmyndagerðarhópinn á förnum vegi í húsakynnum Ævintýralands og mynduðum, flott að ná af þeim myndum, svo mikil leynd hefur hvílt yfir bíómyndinni þeirra en við vitum þó að þetta verður ævintýramynd af betra taginu.
Alveg sérlega góður grjónagrautur var síðan í hádeginu og var mikið borðað af honum. Einnig af melónunum sem voru í eftirmat. Sigurjóna matráðskona ljómaði, alltaf gaman að gefa lystugum börnum að borða. Hún á nú eftir að ljóma enn meira ... ef við þekkjum hana rétt og matinn hennar.
Hádegisfundirnir voru voða skemmtilegir en síðan ...
... var húllumhædagurinn settur með pomp og prakt! Starfsfólkið fór í búninga og lét svolítið kjánalega en það var bara gaman. Eiginlega alveg rosalega fyndið.
Fánaleikurinn var fyrstur á þéttskipaðri dagskrá dagsins og hann var svoooo skemmtilegur. Liðin Martröð og Draumur börðust upp á líf og ... klemmur og hafði fyrrnefnda liðið sigurinn að þessu sinni.
Eftir leikinn var góð afslöppun að fara í vinabandagerð - fá bandfléttu í hárið eða jafnvel tattú!
Kaffitíminn var á réttum tíma en þetta var heldur ekkert venjulegur kaffitími. Hún Krista átti afmæli í dag, varð níu ára, og haldið var upp á það með heitum veisluvöfflum með súkkulaðiglassúr og rjóma (það er ofboðslega gott). Hún fékk afmælissöng, kort og gjöf, og einnig að velja sér fyrstu vöffluna. Einnig var kveikt á möffinskerti fyrir hana svo að hún gæti óskað sér þegar hún blés á það. Afmælisgestirnir voru sælir með að fá nýbakaðar vöfflurnar og líka starfsfólkið. Vöfflur eru algjör dýrð.
Nú, skemmtilegheitin héldu áfram eftir kaffi. Það var blásið til skartgripagerðar, meiri tattúgerðar, tenniskeppni (wii), bandfléttur voru fléttaðar eins og enginn væri morgundagurinn og í Spilaborg voru það borðtennis og Latabæjarspilið sem nutu mestra vinsælda.
Eins og á góðum 17. júní-legum hátíðum þarf eitt atriði alltaf að vera fyrir hendi, eins og sumarbúðabörnin fyrir tíu árum sögðu í skoðanakönnun um hvernig skemmtilegastu húllumhædagarnir ættu að vera. og það er spákonutjaldið! Við fundum konu úr Borgarnesi, Jósefínu Potter, sem tók að sér það verkefni að manna tjaldið. Hún mætti í dag og var hrikalega fyndin.
Stelpunum var sagt að þær mættu bara spyrja einnar spurningar ... en það gæti fokið í kellu ef þær yrðu fleiri. Það gaf nokkrum nokkrum stelpum þá frábæru hugmynd að stríða spákonunni svolítið og það gerði t.d. hún Eydís Emma og spurði tveggja spurninga, alveg viðbúin að hlaupa í burtu, sem hún gerði skrækjandi. Önnur stelpa sagðist aldeilis ætla að tilkynna spákonunni að svona stress, að leyfa ekki tvær spurningar, gæti bara valdið of háum blóðþrýstingi. Annars var þetta flott spákona, sagði eitthvað jákvætt og sniðugt við stelpurnar ... sem sögðu svo að þessi spákona væri nú svolítið lík honum Gumma umsjónarmanni. Það gat eiginlega ekki passað, sagði starfsfólkið, því hann fór til Borgarness til að kaupa ... uh, klósettpappír. Þá var nú hlegið.
Eldhús snilldarinnar hafði haft í nógu að snúast á meðan stelpurnar skemmtu sér og starfsfólk hafði kveikt upp í grillinu þar sem pylsur voru grillaðar af mikilli list ... og síðan borðaðar af mikilli lyst skömmu síðar. Pylsurnar voru borðaðar í brauði og með tómat, sinnep og lauk, eða bara því sem hverjum og einum fannst best.
Eftir mat var síðan bíókvöld og mauluðu hamingjusamar stelpurnar popp með myndinni og renndu því niður með svala. Það tókst að ljúka við bandflétturnar á meðan horft var á bíóið og það var nú aldeilis gott.
Frábær dagur og gott að komast upp í eftir öll skemmtilegheitin og hvíla sig fyrir ævintýri næsta dags.
Við kveðjum í bili frá Kleppjárnsreykjum úr góða veðrinu.
Myndir frá húllumhædeginum eru hérna fyrir neðan, bein lína:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/t6d4_2011.html
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.