16.7.2011 | 13:24
Kertagerð, dekurhorn og diskótek
Þriðji dagurinn var ekkert annað en frábær og margt við að vera. Stöðvar sem hægt var að velja um eftir morgunverðinn voru sund, útisvæði, Spilaborg, kertagerð og svo var haldin karaókíæfing fyrir þær sem ætla að taka þátt í Söngvara- og hæfileikakeppninni Ævintýrabarkanum.
Kertagerðin er alltaf ofurvinsæl og urðu til ógurlega fallega skreytt kerti, eins og sést vonandi á myndunum frá degi 3. Bráðið vax, ásamt kveik er sett í bláskel (fullorðinn gerir það) og síðan fær barnið kertið sitt í hendur til að skreyta eftir því sem hugmyndaflugið býður.
Íþróttahúsið varð fyrir valinu hjá langflestum eftir kertagerðina og þar fór fram algjört ofursprell. Enda mikið hægt að gera skemmtilegt þar.
Í hádeginu bauð eldhúsið upp á gómsæta kakósúpu og tvíbökur, einnig ávexti á eftir. Ávextir eru mjög vinsælir í Ævintýralandi og mikið borðað af þeim.
Eftir hádegisfundinn með umsjónarmönnunum var haldið í leikhús ... en forvarnarleiksýning fór fram úti í íþróttahúsi og var mjög skemmtileg. Ping og Pong fóru á kostum og starfsfólkið sem lék stóð sig vel. Í stuttu máli þá fjallar sýningin um þær aðstæður sem geta komið upp hjá börnum, erfiðar, jafnvel hættulegar, og þeir Ping og Pong, síðar Sing og Song, gefa góð ráð (ja, nema Song, honum finnst í lagi að gera sitt af hverju en stelpurnar voru nú ekki sammála honum, heldur hinum varkára og skynsama Sing).
Ýmsar aðstæður voru leiknar og sýnt hvernig hægt er að t.d. taka ekki þátt í einelti, fara ekki upp í bíl með ókunnugum, sama hversu sætir upplognu hvolparnir í bílnum eru ... og svo framvegis. Flott sýning sem situr lengi í börnunum og er rædd fram og tilbaka á hádegisfundum á eftir.
Námskeiðin fóru síðan á fullt og gengur allt mjög vel.
Dansinn æfir og æfir og lítur allt út fyrir ægiflotta danssýningu hjá þeim á lokakvöldvökunni.
Kvikmyndagerðin skellti sér í búninga- og leikmunadeild Ævintýralands og valdi sér sitt af hverju fyrir bíómyndina sem er í smíðum hjá þeim.
Íþróttahópurinn er samansettur af liprum og liðugum snillingum og ganga æfingar (og leikir) mjög vel hjá honum líka.
Í kaffinu var boðið upp á köku, og melónur á eftir. Síðan var blásið til hárgreiðslukeppni sem langflestar stelpurnar tóku þátt í. Aðrar fóru í borðtennis og annað skemmtilegt.
Hárgreiðslurnar voru hver annarri flottari og dómnefnd reif í hár sitt af örvæntingu yfir því að þurfa að velja á milli ... en þar sem þetta er keppni þá verður víst að velja ... en auðvelt var það ekki.
Í fyrsta sæti lentu Aníta Ýr og Erla Svanlaug sem greiddu Ernu Kristínu.
Í öðru sæti lentu þær Rakel Sandra (hármeistarinn) og Vigdís Elva (módel)
Í þriðja sæti lentu tvö lið: Elva Sól sem greiddi Eydísi Emmu og Sunna Björk sem greiddi Hafrúnu Örnu.
Frumlegasta: Alexandra og Eygló Anna (módel)
Ævintýralegasta: Sonja Heiða og Valný, Dagný Freyja var módel.
Allar fengu viðurkenningu og sigurvegarnir fengu lítil verðlaun á borð við spennur, teygjur og slíkt.
Síðan, já, haldið ykkur, var dekurhorn fyrir allar skvísurnar okkar. Ellen bjó til maska úr kaffikorgi, olíu, hunangi og hrásykri. Stelpurnar mökuðu þessu á hendurnar, höfðu á í smástund og skoluðu svo vel og vandlega á eftir. Hendurnar urðu svoooo mjúkar og fallegar. Eftir þetta var boðið upp á naglalökkun sem mikil ánægja ríkti með - enda dansleikur fram undan.
Skömmu fyrir kvöldmat skiptu stelpurnar um föt og svo var haldið í matsalinn. Ilmurinn úr eldhúsinu hafði verið meira en lokkandi ... eiginlega óbærilegur, og þegar inn í salinn var komið blasti dýrðin við ... fullt af girnilegum pítsum! Svo var gos með sem vakti heldur betur lukku.
Eftir pítsuveisluna hófst svo dansleikurinn, eða diskóið, eins og við köllum það nú. Diskókúla, flott tónlist, reykvél, hressar stelpur - flott blanda að góðri kvöldstund.
Stelpurnar fóru reglulega fram til að kæla sig eftir allan dansinn og gátu þá fengið tattú og bandfléttu í hárið, að ógleymdu vatnsglasi ... og svo aftur inn að dansa. Haldin var stórskemmtileg limbókeppni sem Aþena sigraði í.
Þetta var skemmtilegur dagur og stelpurnar voru örþreyttar en sælar þegar þær borðuðu ávexti í kvöldkaffinu og fóru síðan í bólið eftir að hafa burstað tennurnar vel og vandlega.
Við kveðjum í bili frá Kleppjárnsreykjum - úr öllu stuðinu þar!
MYNDIR: Smelltu á hlekkinn fyrir neðan og þú kemst beinustu leið á myndirnar frá degi 3:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/t6d3_2011.html
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.