14.7.2011 | 22:57
Námskeiðin og fyrsta karaókíæfingin, brennó og draugaleikur
Allar vöknuðu stelpurnar kátar og hressar að morgni annars dagsins eftir rólega nótt, að sögn Hönnu næturvarðar, og haldið var beint í hlaðborðið, já, hlaðborðið - sem stenst mögulega samanburð við hlaðborð sumra flottustu hótela heims! Á morgunverðarhlaðborði Ævintýralands er boðið upp á hafragraut, kornfleks, súrmjólk, cheerios, ristað brauð með osti og heimalöguðu marmelaði, eða óristað brauð með mysingi. Hægt að velja úr ... eða smakka á öllu.
Íþróttahúsið lokkaði og laðaði eftir morgunverðinn, einnig útisvæðið og sundlaugin. Síðan var fyrsta karaókíæfingin haldin. Þetta er reyndar vinnuheiti á æfingaferli sem hefst fyrsta morguninn og stendur til næstsíðasta kvölds þegar Söngvara- og hæfileikakeppnin Ævintýrabarkinn er haldin. Gummi heldur utan um þetta af alkunnri snilld og spilar líka undir á gítar þegar hann er beðinn um það. Þessi keppni er alltaf ótrúlega flott og skemmtileg og þvílíkir hæfileikar sem koma þarna fram.
Í íþróttahúsinu fór fram hástökkskeppni sem Erla Svanlaug sigraði í. Einnig bandíkeppni þar sem stelpunum var skipt í tvö lið, rauða liðið og gula liðið. Það síðarnefnda bar sigur úr býtum.
Þrátt fyrir algjört blíðuveður fóru stelpurnar, að viðbættum þeim sem voru að koma úr sundi, í Tarsanleik í íþróttahúsinu en svo var haldið út í góða veðrið. Fyrst var sólvörnin sótt.
Það var krítað, sippað, hoppað á trampólíninu og legið í sólbaði í blíðunni og margar fóru í snú snú.
Í hádeginu var boðið upp á núðlusúpu ásamt smurðu brauði með eggjum og kæfu. Það þótti ljómandi góður hádegisverður.
Síðan var fyrsti hádegisfundurinn haldinn, hver hópur var með sínum umsjónarmanni. Á fundunum er spjallað heilmikið og einnig farið í skemmtilega leiki.
Námskeiðin gengu mjög vel, allir voru virkir og mjög hugmyndaríkir.
Flestar stelpurnar völdu að fara í kvikmyndagerð og nú er allt farið á fullt við að semja handrit, velja búninga og byrja að taka upp atriðin. Á lokakvöldvökunni sýnir hópurinn síðan stuttmynd og það er alltaf mikið tilhlökkunarefni.
Íþróttanámskeiðið er alltaf mjög ævintýralegt, mikið er hamast og leikið - en það hefst líka laumulegur undirbúningur fyrir sýninguna á lokakvöldinu. Allt er leyndarmál varðandi atriðin. Við reynum samt að njósna smávegis til að geta sett í bloggið þótt allt upplýsist nú fyrir rest.
Stelpurnar á dansnámskeiðinu semja ekki bara dans á fullu, heldur líka leikrit sem mun innihalda dansinn. Mikil gróska í gangi, ekki bara hjá dansleiklistarhópnnum, heldur þeim öllum.
Hluti stelpnanna fór á reiðnámskeið skömmu fyrir kaffi og þær tóku með sér nesti. Myndavélin okkar fer með hópnum á sunnudaginn og um kvöldið birtum við myndirnar á heimasíðunni, og hér á blogginu líka.
Í kaffinu bauð eldhúsið upp á sandköku og ávexti. Síðan héldu flestar stelpurnar út í íþróttahús og léku sér þar í villtu fjöri. Skömmu fyrir mat fóru þær inn á herbergin sín og notuðu tækifærið til að greiða sér og flétta hárið til að það flæktist ekki fyrir um kvöldið ... í brennókeppninni ógurlegu!
Kvöldmaturinn sló í gegn, en Sigurjóna og snilldarliðið hennar, bauð upp á hakk og spagettí!
Eftir æsispennandi brennókeppni (jafntefli) var ... úúúú, draugaleikrit sem hluti barnanna tók þátt í. Sem sagt: Hver hópur valdi sérlega hugrakkar stelpur til að taka þátt og svo þurftu þær hugrökku að ganga í gegnum þvílíkar kvenraunir ... hlaupa á ofsahraða inn í dimmt og draugalegt herbergi, reykvél og tónlist juku heldur betur stemmninguna, sækja stein ofan í fötu í fjarlægari enda herbergisins, fötu sem var full af viðbjóðslegu vatni (kalt vatn og smámold, usss), rétta umsjónarmanni steininn og um leið þurfa að hlaupa undan ógurlegum draugi (Gumma), hlæja ógurlega og skríkja og komast svo út við mikil fagnaðarlæti hópsins.
Við köllum þetta draugaleikrit til að yngstu börnin verði ekki hrædd. En svo skemmtilega vildi til að einmitt hópur yngstu barnanna, Gullfiskarnir, sýndi mesta hetjuskapinn og stelpurnar hlupu nánast á ljóshraða inn og út úr herberginu eftir að hafa leyst þrautina. Húrra fyrir Gullfiskum, eða Brynju og Kristu sem hlupu fyrir hönd hópsins! Hinir hóparnir voru líka eldfljótir en það er alltaf einhver fljótastur. (mynd af Gullfiskum hér fyrir neðan)
Svo kom Gummi yfirdraugur (hann var svo fyndinn) fram og hneigði sig, og einnig litlu aðstoðardraugarnir tveir, börn starfsmanna, orðin nokkuð roskin reyndar, eða á unglingsaldri.
Eftir leikinn voru ávextir snæddir af bestu lyst í kvöldkaffinu og eftir það var kominn háttatími. Viðburðaríkur dagur á enda runninn - ekki leið á löngu þar til ró var komin á mannskapinn, eða öllu heldur kvenskapinn, Heldur betur flottar stelpur!
Við kveðjum í bili frá Kleppjárnsreykjum og bendum á myndir frá deginum hérna:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/t6d2_2011.html
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.