13.7.2011 | 22:33
Stelputímabilið hafið - afmælisveisla og fjör
Nýr og frábær hópur kom til okkar í dag í Ævintýraland, og að þessu sinni eingöngu stelpur.
Að vanda var byrjað á að skella farangrinum með hraði inn á herbergin og síðan var farið í skoðunarferð um svæðið. Margar stelpnanna höfðu verið áður en það er alltaf gaman að fara í hressilega gönguferð og heilsa upp á húsakynnin, útisvæðið, Spilaborg, sundlaugina og bara allt!
Tíminn leið hratt fram að kaffi ... og þetta var enginn venjulegur kaffitími - heldur heil afmælisveisla! Elva Sól varð 10 ára í dag og hún fékk afmælisköku, afmælissöng, afmæliskort, afmælisgjöf og já, svo spilaði blá terta afmælissönginn fyrir hana líka. Gummi spilaði undir á gítarinn þegar allir sungu og vel var tekið undir. Allir í afmælinu fengu að sjálfsögðu afmælisköku líka og svo voru ávextir á boðstólum. Elva Sól fékk táslusokka og snyrtiveski frá sumarbúðunum í afmælisgjöf og virtist harla sátt við það.
Eftir kaffi var haldin kynning, eins og alltaf á fyrsta degi, og kynnt voru námskeiðin sem verða í boði fyrir stelpurnar að velja úr, og starfsfólkið kynnti sig líka. Sumarbúðastjórinn byrjaði auðvitað á því að bjóða stelpurnar hjartanlega velkomnar.
Þær voru ekki lengi að hugsa sig um ... langvinsælust voru námskeið í dansi, íþróttum og kvikmyndagerð. Á morgun hefst strax vinnan við námskeiðin (í tvo tíma á dag) og afraksturinn verður sýndur á lokakvöldvökunni - það verður sko bloggað um þetta allt saman næstu vikuna.Veðrið var ljómandi gott, hlýtt og milt en rétt fyrir kvöldmat fór að rigna. Stelpurnar léku sér á útisvæði, úti í íþróttahúsi og svo inni í elsku Spilaborg sem er svo skemmtileg. Þar er mikið af spilum, púslum, bókum fyrir alla aldurshópa og leikföngum. Einnig er fótboltaspil, pool-borð, borðtennis ... ég legg ekki meira á ykkur.
Skyr var í boði í kvöldmatnum og það rann hratt og vel niður í svanga maga, saðsamt og gott.
Á fyrsta degi er alltaf farið í sund eftir kvöldmat, og það ríkti mikið fjör í lauginni, ögn rólegra var yfir afslöppuðum stelpununum í heita pottinum, enda hver nennir að hoppa og skoppa ofan í heitum potti? Þær sem ekki fóru í sund skemmtu sér í íþróttahúsinu.
Hóparnir eru þrír þessa vikuna. Krossfiskar, Gullfiskar og Hafmeyjar. Aldursskipt er í þá, stóru stelpurnar saman, millialdurinn saman og svo yngstu stelpurnar í einum hópi. Hver hópur er með sinn dásamlega umsjónarmann sem vekur á morgnana og borðar með þeim morgunverðinn, fundar með þeim í hádeginu og endar á að segja þeim kvöldsöguna fyrir svefninn, eða þeim sem það kjósa. Þótt hægt sé að leita til allra starfsmanna þá er samt voða gott að eiga eitt stykki góðan umsjónarmann.
Við erum alltaf með þemalit á hverju tímabili og ... jú, hann verður bleikur þessa vikuna!
Eftir að hafa borðað heilan helling af ávöxtum í kvöldkaffinu var haldið til koju, valin var í sameiningu kvöldsaga fyrir þá hópa sem vildu, og umsjónarmaðurinn las fyrsta hlutann fyrir hópinn sinn. Þegar ró var komin yfir tók næturvörðurinn við.
Á morgun hefjast svo ævintýrin fyrir alvöru - og það er svooo margt fram undan.
Myndir frá deginum er að finna hér:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/t6d1_2011.html
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.