2.7.2011 | 18:04
Diskó, hárgreiðslukeppni ... og pítsa!
Veðrið lék við okkur í gær þrátt fyrir stöku regndropa. Margt var á seyði að vanda, eins og kertagerð, forvarnarleikrit, hárgreiðslukeppni, diskó, limbókeppni, bandfléttur og tattú ... og svo setti Sigurjóna stúlknamet í dásamlegheitum í kvöldmatnum!
Dagurinn hófst með morgunverði af hlaðborðinu góða og síðan var sitt af hverju í boði. Sund, útisvæði, Spilaborg, karaókíæfing og svo kertagerð.
Kertagerð er alltaf í hverri viku og ógurlega vinsæl. Byrjað er á því að setja bráðið vax í kúskel sem börn velja sér, síðan kveik og þá er hægt að fara að skreyta eftir öllum kúnstarinnar reglum. Með glimmeri, hrísgrjónum, baunum og hvaðeina. Svo taka þau kertið sitt með sér heim.
Í hádeginu var kakósúpa og hún var svoooo góð. Tvíbökur með að sjálfsögðu og svo ávextir líka.
Eftir hádegisfundina með umsjónar-mönnunum var haldið út í íþróttahúsi - nú ætlaði starfsfólkið að sýna leikrit - gaman, gaman.
Þetta er forvarnarleikrit, mjög skemmtilegt og bráðfyndið en alvarlegur undirtónn.
Tekið er á hlutum eins og einelti, vantrú á sjálfan sig, hættunum þarna úti, m.a. á Facebook MSN og allt í þeim dúr. Þetta leikrit vekur alltaf umræður og heilmiklar pælingar fara í gang, rætt er um það á næstu hádegisfundum.
Námskeiðin ganga ógurlega vel.
Dans- og leiklistarhópurinn er að æfa eitthvað magnað atriði fyrir lokakvöldvökuna. Íþróttahópurinn líka en það var líka mikið leikið í íþróttasalnum, frískir krakkar þar, listaverkagerðin skapaði sem mest hún mátti, og kvikmyndagerðarhópurinn var farinn að máta búninga, takk fyrir. Allt í gangi.
Í kaffinu var kaka og svo ógrynnin öll af melónum.
Síðan var blásið til hárgreiðslukeppni. Allir fengu viðurkenningar og veitt voru verðlaun í öllum flokkum. Hér koma úrslitin:
1. sæti: Rakel Sara og Thelma Kristín
2. sæti: Hólmfríður og Margrét Ólöf
3. sæti: Birgir Steinn og Ernir
4. sæti: Margrét Fríða og Rebekka Rut
Frumlegasta: Alma Asa, Heiða Rós og Anna María
Krúttlegasta: Emilía og Anna Lena
Ævintýralegasta: Ólöf Una og Ronja Rut
Flottasta: Hafrún Dóra, Bjartey Bríet og Elísa Sjöfn
Stílaðasta: Lísa Katrín og Daría
Vandaðasta: Hertha Kristín og Jóhanna Huld
Hin börnin skoppuðu úti eða í íþróttahúsinu. Skömmu fyrir mat var haldið í herbergin því ef einhvern tíma var þörf þá var aldeilis nauðsyn núna ... að skipta um föt. Fara í sítt fínasta því nú átti að halda á ball ... dansleik - eða diskó, eins og það er kallað í Ævintýralandi.
En fyrst var það maturinn. Grunsamlega góður matarilmur hafði leikið um hvern krók og kima í sumarbúðunum og hefði getað ært óstöðugan ...
Þegar börnin mættu prúðbúin í matsalinn var hvorki meira né minna en PÍTSA í matinn - öllu heldur margar, margar pítsur! Það var ýmist malað eða rumið af vellíðan - og svo var gos með sem vakti nú heldur betur lukku líka.
Diskóið var einstaklega fjörugt og flott. Að sjálfsögðu var þar diskókúla, fleiri en ein reyndar, ljós, reykvél og dúndrandi tónlist. Svo var hægt að fara út og kæla sig, eða fara fram og kæla sig og þá fá í leiðinni tattú og/eða bandfléttur í hárið. Svo var limbókeppni og bara fjör.
Ávextir voru í kvöldkaffinu og svo var bara farið í að hátta og bursta, hlusta á kvöldsögu og svo sofa ... eftir enn einn góða daginn.
Við sendum okkar allra bestu kveðjur frá Kleppjárnsreykjum.
Myndir frá deginum eru hér:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/t4d3_2011.html
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.