Fyrsta karaókíæfingin og æsispennandi draugaleikur

Fjör í sundiKósí á útisvæðinuMikið var nú gott að vakna og vera í sumarbúðum! Það fannst börnunum þegar þau þustu klædd og komin á ról inn í matsal fyrsta morguninn sinn. Þeirra beið þetta fína hlaðborð með alls kyns góðmeti tengdu morgunverði, nánast allt nema egg og beikon. Þarna var hafragrautur, cheerios, kornfleks, súrmjólk & púðursykur, ristað brauð, ósristað brauð, ostur & heimalagað marmelaði. Það mátti fá sér eitthvað eitt, eða eitthvað tvennt ... eða bara smakka á öllu, bara eins og hver og einn vildi.

Síðan þustu börnin út á útisvæðið, sum fóru í sund, önnur í íþrótthúsið og svo fór leyndardómsfullur hluti barna á lokaða æfingu ... fyrir Ævintýrabarkann (vinnuheiti: karaókíæfing) en næstsíðasta kvöldið er haldin þessi stórskemmtilega söngvara- og hæfileikakeppni. Það þarf að velja sér lag sem á að syngja - eða eitthvað annað, stundum er sýndur dans og fyrir hefur komið að einhver hefur sagt brandara. Mjög gaman. Allt kemur þetta betur í ljós þegar nær dregur.

Gaman í íþróttahúsinuÚtisvæðiÍ hádeginu gæddu börnin sér á núðlusúpu, aldeilis hressandi og góðri, og einnig smurðu brauði með eggjum og kæfu. Strax eftir matinn fóru hóparnir á hádegisfund, hver með sínum umsjónarmanni. Þetta er góðir og skemmtilegir fundir. Umsjónarmaðurinn tekur stöðuna á hópnum, mikið er spjallað og svo er líka farið í leiki.

Þá var haldið á fyrstu námskeið tímabilsins. Rétt áður mætti ung dama í sumarbúðirnar, hún hafði farið í aðgerð hjá tannlækni daginn áður og mætti daginn eftir, algjör hetja. Henni var vel tekið af þessum frábæru börnum sem hér dvelja, og ekki var verra að hitta eina vinkonu sína sem hún á hér. Þessi unga dama valdi sér námskeið í einum grænum, ekki seinna vænna, og kaus að fara á kvikmyndagerðarnámskeiðið - sem er vinsælast.

Margar skemmtilegar hugmyndir komu fram á námskeiðunum. Semja þarf t.d. handrit í kvikmyndagerðinni, skipa í hlutverk, velja búninga og slíkt, og sama má segja um leiklistina sem sótti sér hugmyndir út í sólina og náttúruna, og það stefnir allt í söng- og dansleikrit en dansinn sameinaðist leiklistinni. Íþróttahópurinn er afar virkur og sama má segja um listaverkagerðina. Allt í gangi - í Ævintýralandi!

Reiðnámskeiðsbörnin voru sótt skömmu fyrir kaffi og tóku með sér gómsætt nesti. Skömmu seinna fylltist matsalurinn af hungruðum börnum sem fengu heimabakaða sandköku að borða, ásamt melónum.

VatnsrennibrautinSólin skein enn eftir kaffið og því var blásið til skemmtunar á vatnsrennibraut, eða slide ... brjálað fjör og mikil gleði. Þótt sólin hyrfi bak við ský var enn heitt í veðri og ekkert mál að halda áfram  um sinn. Svo var farið í íþróttahúsið og Spilaborgina frábæru. Svo var farið inn á herbergi þar sem hægt var að snyrta sig fyrir matinn, ekki kannski að fara í smóking og síðkjóla, en greiðu var rennt í gegnum hárið í einhverjum herbergjum.

Kvöldmaturinn var ekki af verri endanum, heldur hakk og spaghettí. Ágæt orka fyrir annasamt kvöldið ... obbossí!

DraugaleikurinnByrjað var á villtri brennókeppni sem hinu frænkna liði Krossfiskum tókst að sigra í og svo hófst ... uuuu, draugaleikurinn. Leikur sem þróaðist út úr Mörkum óttans-leiknum okkar sem var leikinn í nokkur ár við miklar vinsældir. Þessi þykir þó æsilegri ef eitthvað er. Enginn ógeðsdrykkur lengur, heldur skipar hver hópur tvo fulltrúa sem þurfa að fara í gegnum nánast almyrkvað „draugaherbergi“(þau yngri með huguðum umsjónarmanni) ... sækja sér stein ofan í vatnsfötu, skila steininum og hlaupa eins og fætur toguðu út. Yfirdraugurinn var Gummi, hann er rosalega fyndinn, og honum til aðstoðar voru Maggi og Apríl. Hlutverk þeirra þriggja var að trufla krakkana við að komast ofsahratt í gegn ... en ef eitthvað var, þá flýttu þau eiginlega fyrir. Fyrir yngri börnin var þetta kallað draugaleikrit, þá verða þau ekki hrædd. Svo var mikið hlegið og klappað þegar draugarnir komu fram, tóku af sér grímurnar og hneigðu sig. Allir voru fljótir í gegnum herbergið en Gullfiskarnir fljótastir. Til hamingju, Gullfiskar!

Í kvöldkaffinu voru ávextir á boðstólum. Börnin sofnuðu hratt og vel, enda þreytt eftir viðburðaríkan dag.

Nýjar myndir eru á www.sumarbudir.is. Tímabil 4, dagur 2.

Okkar allra bestu kveðjur frá Kleppjárnsreykjum!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sumarbúðirnar Ævintýraland

Höfundur

Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðir með sérstöðu

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 91091

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • ...3_sapukulur
  • Æðisleg reiðnámskeið
  • Vinsæl leiklist
  • Úr bíómyndinni
  • Sykurpúðar grillaðir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband