30.6.2011 | 22:37
Fjör á fyrsta degi
Ekki löngu eftir hádegi í gær ók í hlaðið á sumarbúðunum, rúta full af kátum krökkum. Þetta voru gestirnir góðu sem dvelja hjá okkur á fjórða tímabili sumarsins.
Eftir að farangri hafði verið skutlað inn í herbergin, gengið frá seinna, var haldið í skoðunarferð um svæðið, úti sem inni. Hver hópur fór með umsjónarmanninum sínum.
Fyrsti kaffitíminn var nú aldeilis góður en börnin fengu skúffuköku og ávexti. Síðan var haldið út í íþróttahús þar sem nánari kynning fór fram, meðal annars á starfsfólki og námskeiðunum góðu sem börnin eru á allt tímabilið (leiklist, dans, listaverkagerð, íþróttir og kvikmyndagerð).
Börnin sátu og hlustuðu vel á allt saman og svo völdu þau sér. Kvikmyndagerðin var vinsælust, eins og oft áður. Leiklistin og dansinn sameinast, mjög spennandi, og síðan eru listaverkagerð og íþróttahópur.
Svo völdu börnin sér hvaða álegg þau vilja á brauðið sitt í kvöldkaffinu, og einnig safann með. Til skiptis eru ávextir og brauð.
Það var frekar kalt hjá okkur en börnin létu það ekki á sig fá. Það var margt við að vera á útisvæðinu, í íþróttahúsinu og í Spilaborg (spil, púsl, bækur, leikföng, pool, fótboltaspil og fleira).
Einn gesturinn okkar, stelpa, talar bara ensku. Í ljós kom að ótrúlega mörg börn í sumarbúðunum tala ensku og tvær stelpur í hópnum hennar buðust strax til að vera túlkar ... og öll börnin ætla sko að hjálpa stelpunni að læra íslensku, hana langar svo til þess. Með svona góðri hjálp verður hún kannski orðin altalandi á íslensku á sunnudaginn, eða þar um bil.
Í kvöldmat bauð ævintýraeldhúsið upp á gómsætan grjónagraut sem rann hratt og vel niður.
Eftir matinn var síðan haldið út í sundlaug þar sem var heldur betur hoppað, synt og hamast. Inn á milli var svo slakað á í heita pottinum.
Börnin skiptast í fimm frábæra hópa; Krossfiska, Gullfiska, Sæljón, Höfrunga og Hafmeyjar. Þemalitur tímabilsins er blár og rauður, það verður litadagur á sunnudaginn og þá mæta allir í einverju rauðu eða bláu, jafnvel bláu og rauðu. Bara gaman.
Umsjónarmennirnir sögðu hver sínum hóp (þeim hópum sem vildu) kvöldsögu, fyrsta hluta, þegar allir voru komnir í koju og svo var sofnað rótt og vært ... óvenjusnemma svona miðað við fyrsta dag. Nýr og flottur dagur fram undan, fullur af ævintýrum. Allt um það í næsta bloggi!
Kærar kveðjur frá Kleppjárnsreykjum!
Myndir eru komnar inn á www.sumarbudir.is. Tímabil 4 - dagur 1 (og dagur 2 eftir smástund).
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.