26.6.2011 | 00:05
Velheppnað húllumhæ!
Húllumhædagurinn var haldinn með pomp og prakt eins og venjulega á laugardögum. Leikir, keppnir, skemmtun og fjör, frábær matur, bíósýning.
Það var vaknað, klætt, burstað og haldið í morgunverðinn þar sem heldur betur var tekið til matar síns. Þar sem þetta var húllumhædagur voru námskeiðin færð fyrir hádegi til að hátíðin væri samfleytt fram á kvöldið.
Leiklistin spókaði sig úti, teknar voru góðar æfingar í sólinni en í undirbúningi er leikrit fyrir lokakvöldvökuna. Dansinn var æfður af mikilli einbeitingu, sáum við þegar við kíktum við. Á öðrum vígstöðvum var sko meira en allt í sómanum. Þetta verður flott lokakvöldvaka, ekki spurning. Málað, æft, handritin fínpússuð, búningar mátaðir, upptökur og hvaðeina sem tilheyrir undirbúningnum. Nafnið á stuttmyndinni verður gefið upp síðar, enn á leyndardómsstiginu ... eins og fleira sem tengist námskeiðunum, enda á þetta allt saman að koma sem mest á óvart þótt við séum ekki kannski nógu þagmælsk á blogginu.
Í hádeginu var gómsætur grjónagrautur með kanil og melónur í eftirmat. Nammi namm.
Hádegisfundir voru haldnir en síðan var hátíðin sett. Byrjað var á fánaleiknum góða. Þeir sem vildu taka þátt söfnuðust saman, en það voru nú flestir, og skipt var í tvö lið; Draum og Martröð. Draumshópurinn fékk rauðbleik strik máluð í andlitið en Martröðin blá. Svo var bara vaðið í bardagann upp á líf og klemmur. Á endanum hafði Draumur betur eftir æsispennandi keppni!
Heilmikið var við að vera á eftir, eins og sippkeppni og sápukúlusprengikeppni ... og sigurvegari þeirra beggja var hún Kolbrún Hulda. Henni tókst að sprengja 1.254 sápukúlur á einni mínútu, eða eitthvað slíkt og klappaði svo hratt saman lófunum að annað eins hafði vart sést, einnig sippaði hún ótrúlega hratt og vel.
Bandfléttur voru settar í nokkra kolla, Spilaborg opnaði í smástund á meðan smárigning gerði vart við sig en svo var haldið áfram að leika og kríta og hafa það skemmtilegt.
Í kaffinu var boðið upp á hátíðarvöfflur, eins og alltaf á húllumhædegi, heitar vöfflur með súkkulaðiglassúr og rjóma eða sultu og rjóma, bara eins og hver og einn vildi. Flestir kusu nú súkkulaðivöfflurnar, enda minna þær á góðar bollur á bolludegi, eru alveg ótrúlega góðar!
Eftir kaffi var nú aldeilis haldið áfram með bandfléttur, svo var tenniskeppni (Wii) í einum salnum, útisvæðið var vinsælt og svo ... rúsínan í pylsuendanum ... spákonan ógurlega frá Borgarnesi, Jósefína Potter mætti á staðinn í furðulegum búningi, svo vægt sé til orða tekið, svona eins og beint út úr bíómynd um Harry Potter. Að vanda var spennan meiri fyrir því að vita "hver starfsmannanna" þetta væri en nákvæmlega það sem kerla sagði, og bárust böndin helst að Gumma sem ... uuu ... var í verslunarferð í Borgarnesi ... Spákonan var rosalega lík honum í málróm og fasi. Hún sagði nú margt skemmtilegt og fyndið ... og líka uppbyggjandi og gott. Sumir voru hálfsmeykir og fengu starfsmann með sér - vildu samt ómögulega sleppa því að fara.
Já, og ekki má gleyma skartgripagerðinni. Hún er alltaf ótrúlega vinsæl. Börnin búa til skartgrip sem þau eiga sjálf, gefa mömmu eða pabba, jafnvel kisunni sinni, eins og nýlega, við vitum að til er hamingjusöm kisa í Reykjavík með mjög flotta hálsfesti ...
Svo var bara komið að kvöldmat og bauð ævintýraeldhúsið upp á grillaðar pylsur með öllu!!!
Bíókvöld var haldið eftir matinn og í hléinu fengu börnin kvöldkaffið sitt ... popp og svala!
Þetta var frábær húllumhædagur og fleiri myndir frá honum er að finna á www.sumarbudir.is. Tímabil 3, dagur 4.
Þangað til næst - okkar allra bestu kveðjur úr stuðinu á Kleppjárnsreykjum!
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.