Diskó-kertagerðar-pítsu-tattú-hárgreiðslu-og-fleira-stuð

Æfing fyrir karaókíkeppninaKertagerðDagur þrjú var alveg æðislegur frá upphafi til enda - það var m.a. kertagerð, forvarnaleikrit, hárgreiðslukeppni, dansleikur, tattúgerð og bandfléttur í hár ...

 

 

Að vanda hófst dagurinn á morgunverði. Í lýsingunum í gær á úrvalinu á hlaðborðingu gleymdist hreinlega að geta þess að hafragrautur er líka í boði á morgnana og hann hefur notið vinsælda hjá börnunum í gegnum tíðina, enda hollur og saðsamur.  Smile Það var notalegt að setjast við borðið hjá umsjónarmanninum sínum og hinum krökkunum í hópnum og spjalla svolítið á rólegu nótunum, góð byrjun á deginum.

 

ListaverkagerðDanshópurinnSitt af hverju var í boði fyrir börnin eftir morgunmatinn. Útisvæðið skemmtilega var vinsælt, enda margt við að vera þar. Trampólínin eru alltaf vinsæl en aðeins eitt barn hoppar þar í einu. Umsjónarmaðurinn á svæðinu tekur tímann á börnunum en til að allir sem vilja geti hoppað og skoppað upp í loftið.

 

Sumir fóru í sund og svo var líka kertagerð sem heil 40 börn vildu endilega taka þátt í. Kertavaxi er hellt ofan í bláskel og kveikur er settur. Síðan fá börnin kertið sitt í hendur og þá hefst skreytingin skjálf og sitt af hverju er notað til að gera kertin fín. Glimmer í nokkrum litum, hrísgrjón (ósoðin auðvitað) og baunir. Það var ekkert lát á hugmyndafluginu og mjög flott kerti urðu til. 

 

ÍþróttahópurinnGrímugerðinOkkur var hleypt inn á æfinguna fyrir Ævintýrabarkann, sem var frekar mikið leyndarmál deginum áður, en Gummi snillingur heldur utan um þá keppni sem gengur undir vinnuheitinu karaókíkeppni hjá okkur. Það er hægt að gera margt annað þar en að syngja, t.d. sýna dans eða fimleika, segja brandara og fleira en flestir kjósa þó að syngja. Þá þarf að velja sér lag og æfa vel á morgnana. Við smelltum af myndum og drifum okkur svo út svo hægt væri að æfa áfram. Það litla sem við heyrðum hljómaði ótrúlega vel. 

 

Í hádeginu gladdist hópurinn yfir ilmandi kakósúpu og tvíbökum en þetta er bara rétt að byrja hjá eldhúsinu góða, og svo voru ávextir í eftirmat.

 

 

Ping og PongEftir hádegisverðarfundinn var haldið út í íþróttahús þar sem leiksýning fór fram. Leikrit um góðu-ráða-vélina Ping og Pong ... og síðan samviskuvélina Sing og Song. Þetta er forvarnaleikrit sem starfsfólkið og stærri starfsmannabörnin leika í. Mjög fyndið leikrit en samt með alvarlegum undirtón. Tekið er á einelti, vantrú á sjálfan sig og hæfileika sína, grunsamlegt fólk sem reynir að lokka börn upp í bíl með lymskulegum ráðum, hættur MSN og Facebook og fleira. Börnin voru alveg með hætturnar á hreinu og þau yngstu vöruðu aðalleikarann við því að fara með manneskjunni sem vildi sýna honum sæta hvolpa sem var bara plat. Sterk dæmi voru tekin, og í sambandi við einelti, hvað það er auðvelt í raun að taka ekki þátt í því og hvað það breytir miklu fyrir alla aðila að gera hið gagnstæða. Góð skilaboð um að vera góð hvert við annað ... og það í ótrúlega skemmtilegum búningi.

 

Í kaffinu var sandkaka og svo auðvitað melónur í „tonnatali“.

 

Blásið var til hárgreiðslukeppni eftir kaffi. Sjö lið tóku þátt. Það vantaði ekkert upp á hugmyndaflugið þegar hármeistararnir greiddu módelunum sínum eftir öllum kúnstarinnar reglum og allir sjö hóparnir lentu í verðlaunasæti, svo flott var þetta. Hóparnir fengu viðurkenningarskjöl og smáverðlaun sem hægt var að velja sér upp úr verðlaunakassa keppninnar. Hér koma úrslitin:

Frá hárgreiðslukeppninniFlottttt hárgreiðsla1. sæti: Þórunn Birna, María Sól (módel)

2. sæti: Heiður Ósk, Katrín (módel)

3. sæti: Kolbrún Hulda og Lana Björk, Andrea Líf (módel)

Frumlegasta: Katrín Óla, Áslaug Gyða og Kristín, Telma Lind (módel)

Krúttlegasta: Agnes og Linda, Ásta Sigrún (módel)

Ævintýralegasta: Helga Dögg, Petra María (módel)

Nettasta: Lára Lind, Sigrún Dóra (módel)

Hin börnin skoppuðu um svæðin, bæði úti og í íþróttahúsin. Veðrið lék við okkur. Smáhitaskúr eftir kaffi en stóð ekki lengi. Skömmu fyrir kvöldmat var farið inn á herbergin þar sem börnin puntuðu sig á alla enda og kanta, enda dansleikur fram undan. Við köllum það reyndar diskó ... en þetta er alvörudansleikur með ... að vísu diskókúlu, plötusnúði, flottum skreytingum og hvaðeina.

 

Brjálað fjör á diskóinuSérlega góður matarilmur hafði truflað einbeitinguna rétt fyrir mat og þegar börnin komu prúðbúin inn í matsalinn kom í ljós að eldhúsið hafði staðið í ströngu við að búa til PÍTSUR!!! Og ekkert smá góðar pítsur. Borðað var gífurlegt magn af þessum góðu heimabökuðu flatbökum og ekki var amalegt að fá gos að eigin vali með. 

Svo var haldið á diskó, afsakið ... á dansleikinn. Þvílíkt fjör sem ríkti þar og mikið var nú dansað. Á miðjum dansleik var haldin limbókeppni og hún var ótrúlega skemmtileg. Svo var mikið gott að geta andað rólega þess á milli, farið fram til að kæla sig og fá tattú og bandfléttur í hárið fyrir þá sem vildu. Strákarnir eru flestir of stuttklipptir til að fá bandfléttur og mörgum finnst það líka stelpulegt ... svo þeir kusu tattúið fram yfir. Bæði stelpur og strákar létu húðflúra sig (með húðvænum litum að sjálfsögðu). Stóru starfsmannabörnin (snúningarnir okkar, aðstoða umsjónarmennina á námskeiðum og við gæslu á öllum svæðum) hafa náð mikilli leikni í því að teikna tattú og ekki veitir af því að hafa sem flesta húðflúrmeistara á svæðinu, svo vinsælt er þetta. Einhverjir fóru líka út til að viðra sig og var hoppað af miklum krafti á trampólíninu!

TramólínhoppKvöldið leið hratt og allt í einu var komið að kvöldkaffi. Ávextir voru snæddir með bestu lyst og síðan var farið í að bursta tennur, hátta og hlusta á kvöldsöguna fyrir svefninn. Frábær dagur búinn, næst húllumhædagurinn góði en alla laugardaga ríkir 17. júní-stemmning. Meira um það í næstu færslu.

Við kveðjum í bili frá Kleppjárnsreykjum og minnum á myndirnar á www.sumarbudir.is. Tímabil 3, dagur 3.

P.S. Myndirnar við færsluna eru í réttri tímaröð en eiga kannski ekki alltaf við textann næst þeim. Ef bendillinn er settur yfir þær sést myndatexti.  Wink

Villtar diskóstuðhárgreiðslutattúbandfléttukertagerðar-meðmeiru-kveðjur. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sumarbúðirnar Ævintýraland

Höfundur

Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðir með sérstöðu

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...3_sapukulur
  • Æðisleg reiðnámskeið
  • Vinsæl leiklist
  • Úr bíómyndinni
  • Sykurpúðar grillaðir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband