20.6.2011 | 18:41
Ævintýrabarkinn - allir slógu í gegn
Fimmti dagurinn var gjörsamlega æðislegur - en við bjuggumst svo sem ekki við öðru! Guli liturinn var litur dagsins (sjá mynd) og allir skörtuðu einhverju gulu.
Eftir staðgóðan morgunverð drifu mörg börnin sig í sund og öðrum lá svo á að þau fóru bara í sturtu. Allir skyldu vera tandurhreinir fyrir stóra kvöldið - eða hæfileikakeppnina Ævintýrabarkann. Keppendur leyfðu sér að vera í sundi í smástund en drifu sig svo á æfingu hjá Gumma sem heldur utan um keppnina.
Eftir sund og/eða sturtu var gott að vera á útisvæðinu, enda gott veður, það var krítað, rólað og rennt, hoppað á trampólínunum sívinsælu og svo var líka hægt að hamast í íþróttahúsinu - eða jafnvel slaka á inni í herbergi skömmu fyrir mat.
Í hádeginu bauð Sigurjóna upp á pasta og hvítlauksbrauð - eða raunar risastórar hvítlauksbollur sem börnin kunnu sannarlega að meta. Hún veit hvað þessar elskur vilja, fimm barna móðirin ...
Hádegisverðarfundir voru haldnir að vanda, frekar stuttir í annan endann þar sem kvikmyndagerðarhópurinn var virkilega önnum kafinn og þurfti sinn tíma til að ljúka við myndina. Námskeiðin hafa gengið mjög vel og sumarbúðastjórinn getur varla hætt að dásama þennan góða barnahóp. Nokkur börn fóru á reiðnámskeið (sjá mynd) með nesti og nóg var að gera hjá öllum hinum líka.
Skúffukaka var í boði í kaffinu og einnig melónur sem eru sérlega vinsælar, enda mjög góðar!
Eftir kaffi var útisvæðið vinsælast enda hafði heilt logn fokið til okkar, loksins. Sitt af hverju var við að vera á útisvæði og íþróttahúsi en skömmu fyrir mat var haldið inn á herbergin til að skipta um föt.
Í kvöldmat var fiskur, hrísgrjón og karrísósa (sem er ævintýrasósa a la Sigurjóna), einnig smjör og tómatsósa, bara eins og hver og einn vildi.
Svo hófst dýrðin sjálf - eða Ævintýrabarkinn, hæfileika- og söngvarakeppnin.
Frænkurnar Gunnhildur Fríða og Linda Regína hófu kvöldið og sungu (án undirleiks) lagið Sofandi hér liggur hann. Þær lentu í 3. sæti - sungu eins og englar. Þær sungu þetta lag þegar bróðir Gunnhildar var skírður, sögðu þær okkur.
Elín Birta og Eydís Emma sýndu næst fimleikaatriði og þær eru sko liðugar!
Anna Día og Rut sungu næst lagið Ást (með Ragnheiði Gröndal) og lentu í 2. sæti. Þær sungu afar fallega.
Glóey söng frumsamið lag um ömmu sína sem lést þegar Glóey var þriggja ára. Lagið heitir Til baka í minn heim. Miklir hæfileikar hér á ferð og hún lenti í 1. sæti. Gummi lék undir á gítar.
Gyða söng síðan lagið Hvem kan sigla, sænskt lag. Mjög flott hjá henni.
Kristófer og Tómas Jökull slógu í gegn með breikdansi (Kristófer) og Parkour (fimleikar) (Tómas).
Þorvaldur Daði söng lagið Lífið er yndislegt og hann söng það yndislega!
Lilja Rut sýndi fimleika og var atriðið hennar einstaklega flott!
Þar sem öll atriðin voru einstök var ákveðið að með viðurkenningunum sem allir fá alltaf fyrir þátttöku í Ævintýrabarkanum, að gefa öllum smáverðlaun. Keppnin var svo jöfn og mjótt á munum, eins og maður segir. Það vakti mikla ánægju, enda voru þau öll sigurvegarar.
Í kvöldkaffinu var smurt brauð og safi - svo var það bara draumalandið. Fram undan stóri, stóri dagurinn ... hátíðarkvöldverður og svo lokakvöldvakan.
Myndir frá deginum eru á www.sumarbudir.is. Tímabil 2 - dagur 5.
Okkar allra, allra bestu kveðjur frá Kleppjárnsreykjum!
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.