19.6.2011 | 12:42
Fjör á fjórða degi - dansleikur og fleira
Fjórði dagur rann upp - fullur af ævintýrum eins og hinir. Það var haldin hárgreiðslukeppni, flutt leikrit, um kvöldið var dansleikur með limbóstuði og hvaðeina en ... best að byrja á byrjuninni.
Eftir að hafa vaknað, teygt, klætt og burstað var haldið í matsalinn þar sem hver hópur borðaði morgunverð með umsjónarmanni sínum. Allir virtust hafa sofið vel og voru kátir og hressir.
Hægt var að fara í sund, íþróttahús, á útisvæði og í kertagerð, og svo fóru nokkrir á æfingu ... eða þeir sem ætla að taka þátt í Ævintýrabarkanum. Eins gott að æfa vel, það styttist í stóru stundina.
Þrátt fyrir sól og hita nenntu fáir að vera úti (það var frekar miiiikið rok, sem er sjaldgæft). Kertagerðin er alltaf skemmtileg en þá hitar starfsmaður vax og því er hellt ofan í bláskel, kveikur settur og allt látið storkna svolítið. Síðan er hægt að hefjast handa við að skreyta kertið sitt eftir öllum kúnstarinnar reglum. Hugmyndaflugið á sér engin takmörk en vinsælast er glimmerið, einnig hrísgrjón (ósoðin auðvitað) og svo baunir.
Í hádeginu var kakósúpa með tvíbökum og síðan ávextir á eftir. Allir höfðu mjöööög góða lyst á súpunni.
Hádegisfundir voru stuttir að þessu sinni þar sem úrslitin í brennókeppninni brunnu á börnunum. Svo fór að Krossfiskar sigruðu. Síðan var hægt að setjast niður og slaka aðeins á í íþróttahúsinu þar sem starfsfólkið ætlaði að sýna leikrit! Og hvílíkt leikrit. Börnin klöppuðu mikið og fögnuðu vel.
Þetta er forvarnaleikrit í mjög skemmtilegum búningi. Tekið er á mörgu, eins og þeim hættum sem geta steðjað að. Börnin tóku virkan þátt og vöruðu til dæmis söguhetju leikritsins mjög við því að fara upp í bíl með ókunnugu fólki, jafnvel þótt það þættist vera með litla móðurlausa hvolpa.Börnin í salnum áttuðu sig alveg á því að þetta væri eitthvað rangt. Einelti kom fyrir í leikritinu og sýnd voru tvenns konar viðbrögð við sömu atburðum. Jákvæð og neikvæð. Þeir Ping og Pong - álfar voru rosalega ráðagóðir og fyndnir stjórnuðu góðuráða-vélinni og hjálpuðu söguhetjunni.
Svo voru það Sing og Song. Jákvæða röddin og neikvæða röddin í kollinum á Önnu. Sing peppaði hana upp þegar hún dró úr getu sinni í erfiðu stærðfræðiprófi, á meðan Song var viss um að hún gæti ekkert. Sing ráðlagði Önnu að samþykkja engan ókunnugan á MSN og feisbúkk á meðan Song hélt að það væri nú í lagi. Sem betur fer hlustaði Anna á Sing ... og börnin í salnum sem voru sko með hlutina á hreinu.
Á hádegisfundunum sem umsjónarmenn halda með hópunum sínum er líka komið inn á ýmis mál en það er án efa gott að geta horft á í skemmtilegu og líka fyndnu leikriti hvaða aðstæður geta skapast og hvernig best er að bregðast við. Áhrifaríkt að sjá hlutina.
Svo voru það bara elsku bestu námskeiðin sem ganga svoooo vel. Það er án efa æðislegt að horfa á sköpunaverk sitt/sín verða smám saman að veruleika - flotta leikritið þar sem dansað verður með grímur og hvaðeina ... og svo þessi líka spennandi bíómynd sem verið er að ljúka tökum á.
Í kaffinu var boðið upp á sandköku og melónur, einnig afgangsvöfflur og tekex með marmelaði.
Eftir kaffi var blásið til hárgreiðslukeppni. Sjö tveggja manna lið skráðu sig til leiks og dómnefndinni var heilmikill vandi á höndum þegar átti að velja sigurvegarana. Svo fór að allir lentu í verðlaunasæti sem var sannarlega ekki amalegt, fengu viðurkenningarskjal og verðlaun.
Í fyrsta sæti urðu: Eydís Emma módel og Elín Birta hármeistar. Í öðru sætinu lentu tvö lið: Auður Anna (módel) og Rut hámeistari, og Lilja Sól (módel) og Anna Día hármeistari. Í þriðja sætinu urðu Glóey módel og Lilja Rut hármeistari.
Frumlegustu greiðsluna átti Sara hármeistari sem greiddi Gyðu. Töffaðsta hárgreiðslan var á Antoni Frey en hármeistari hans var Alexander Þór. Ævintýralegasta greiðslan var á Lindu Regínu en Gunnhildur Fríða greiddi henni.
Einhverjir hoppuðu og skoppuðu úti í íþróttahúsi eða á útisvæði í góða (hvassa) veðrinu en um sexleytið var farið inn á herbergin til að punta sig þar sem diskó var fram undan ...
Ótrúlega góður og lokkandi ilmur barst úr eldhúsinu en Sigurjóna snillingur og allt hennar fólk hafði staðið í ströngu við að búa til milljón pítsur eða þar um bil - til að metta nú örugglega allan mannskapinn. Mikið voru allir glaðir að fá pítsuveislu og það var sko mikið borðað. Svo var gos með sem þótti nú heldur betur æðislegt.
Diskóið dunaði á fullu eftir matinn og það var mikið dansað! Svo var gott að komast fram annað slagið til að kæla sig og fá þá tattú eða bandfléttu í hárið inn á milli. Limbókeppni var slegið upp á miðju balli og þvílíkt fjör. Þær Gunnhildur Fríða og Eydís Emma voru limbódrottningar kvöldsins. Þvílíkt liðugar!
Kvöldið leið hratt og allt í einu var komið að háttatíma. Það var nú heldur betur notalegt að skríða undir sæng og slaka á á meðan umsjónarmaðurinn las kvöldsöguna góðu. Svo tóku Óli lokbrá og Elísa næturvörður við.
Við kveðjum í bili frá Kleppjárnsreykjum og minnum á myndirnar á www.sumarbudir.is. Þær nýjustu: Tímabil 2, dagur 4.
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.