Meiriháttar húllumhæ!

Grímugerðin KvikmyndagerðHúllumhæ-dagurinn rann upp bjartur og fagur. Sumarið hélt innreið sína í tilefni dagsins.

 

Námskeiðin sem eru venjulega á dagskrá kl. 14-16 voru færð fyrir hádegi til að hægt væri að húllumhæ-ast samfleytt frá hádegi og langt fram á kvöld. Og eftir að hafa snætt dásamlegan morgunverð var haldið á námskeiðin. Allt gengur afar vel á þeim vígstöðvum. Við reyndum að forvitnast um nafnið á stuttmyndinni sem er í smíðum en ... þögn fram á mánudag, takk fyrir. Álíka dularfull voru börnin í leiklist/grímugerð. Kannski skiljanlegt, þetta á auðvitað að koma á óvart á lokakvöldvökunni og verður allt verður upplýst í lokabloggi tímabilsins.

 

Í hádeginu var grjónagrautur með kanil og mjólk og melónur í eftirmat. Grjónagrautur klikkar ekki og börnin voru sammála um það.

 

FánaleikurinnStarfsfólk í stuði á húllumhædeginumÞá var bara komið að því ...húllumhæ-dagurinn var settur formlega með pomp og prakt. Starfsfólkið var í skrautlegum búningum og lék á als oddi, svona aðeins meira en venjulega. 

 

Æsispennandi fánaleikur fór af stað og var börnunum skipt í liðin Draum og Martröð. Síðan var barist upp á klemmur og aftur klemmur og svo fór að harðskeyttara liðið, Martröð, sigraði. En það var mjótt á munum. 

 

Á útisvæðinu ríkti hátíðarstemning og meðal annars fór fram sápukúlusprengikeppni. Þau börn sem náðu að sprengja sem flestar sápukúlurnar fengu verðlaun og það var sko klappað hratt. Að vanda fengum við dómara frá NASA sem notaðist við gervitungl fyrir ofan Kleppjárnsreyki ... eða nánast. Haukfrán augu dómaranna skáru úr um sigurvegarann, eða sigurvegarana, þar sem þeir voru tveir ... Tinna Björk og Þorgerður Katrín. Þær náðu hvor um sig eitthvað um 1543 sápukúlum á einni mínútu. Við erum með tvær vélar sem spýta út sér sápukúlum á ljóshraða.

SápukúlusprengikeppniVöfflur og hamingjaHaldið var áfram með bandflétturnar í hár og svo var bara allt í einu komið kaffi. Ef þetta væru ekki svona vel uppalin börn í sumarbúðunum hefðu þau eflaust hlaupið með lekandi munnvatnið inn í matsal þar sem ilmurinn var svo góður - eða ilmur af nýbökuðum vöfflum. Við bjóðum auðvitað upp á hefðbundna sultu og svo þeyttan rjóma en sumarbúðavöfflurnar sjálfar eru, og hafa verið í gegnum öll árin, með súkkulaðiglassúr á, ásamt rjóma, en það er nánast óbærilega gott. Langflest börnin kusu slíkar vöfflur og sum sögðu að þetta væri nánast eins og bolludagur væri runninn upp (glassúr- og rjómatenging).

 

Húllumhædagurinn hélt áfram eftir kaffi og var sitt af hverju skemmtilegt í boði. Það var til dæmis skartgripagerð sem vakti mikla lukku og voru sýnd svo glæsileg tilþrif að þau hjá Cartier mega alveg fara að passa sig. Eitt hálsmenið, sérlega flott, var búið til handa kisu sem viðkomandi skartgripagerðarstúlka á og má kisan sú aldeilis hlakka til að fá þetta hálsmen.

 

SkartgripagerðJósefína PotterÞað var líka tattúgerð, líka æsispennandi wii-keppni (tölvuleikur), það voru bandfléttur og svo var útisvæðið góða opið en nóg er alltaf við að vera þar. Börnin fóru á milli og virtust skemmta sér konunglega. 

 

Svo mætti heil spákerling á svæðið. Og eins og það séu samantekin ráð þeirra þúsunda barna sem hafa komið til okkar í gegnum tíðina ... þá ríkir meiri spenningur fyrir því að vita hver af starfsfólkinu spákonan er, það er mikilvægara en það sem hún segir. Mikið var spekúlerað og flestir komust að því að þetta væri hún Apríl sem var hvergi sjáanleg en ætlaði víst í afmæli til ömmu sinnar í Borgarnesi. Við sögðum að þetta væri hún Jósefína Potter, virðuleg spákerla frá Borgarnesi sem sérhæfði sig í því að koma í Ævintýraland einu sinni í viku yfir sumartímann. Börnin fussuðu og hlógu, þetta væri sko hún Apríl ... en hver sem þetta var ... þetta var ljómandi góð spákona sem sagði sitt af hverju fallegt, að þeim ætti eftir að ganga svo vel í skólanum næsta vetur, að þau væru svo góð ... og allt í þeim dúr. Já, hún Apr Jósefína sló alveg í gegn.

Þessi dýrðardagur átti enn eftir að koma á óvart - enn og aftur var það elsku Sigurjóna og hinir snillingarnir í eldhúsinu sem höfðu tekið sig til og grillað pylsur á meðan börnin léku sér, ég legg ekki meira á ykkur ... og nú hófst mergjað pyslupartí með tómat, sinnepi og steiktum, svei mér ef var ekki remúlaði líka. Hvað er eiginlega með þessar sumarbúðir og uppáhaldsmat barna? Ja, við vitum svo sem fullvel að svöng börn skemmta sér ekki jafnvel í sumarbúðum og þau börn sem borða vel.

 

BandflétturPoppppppDagurinn endaði svo á bíósýningu og í hléinu var að sjálfsögðu boðið upp á popp og safa, það tilheyrir algjörlega tilefninu. Það fannst börnunum flott kvöldkaffi.

Þau voru sátt og alsæl eftir daginn þegar kom að háttatíma. Eftir að hafa háttað og burstað tennurnar var skriðið í koju og hlustað á kvöldsöguna þangað til augnlokin gátu hreinlega ekki meira. zzzZZZZZZZZZZZZZZZZ

Bestu húllumhækveðjur frá öllum á Kleppjárnsreykjum.

Nýjar myndir eru komnar á www.sumarbudir.is, tímabil 1, dagur 4, endalega kíkið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sumarbúðirnar Ævintýraland

Höfundur

Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðir með sérstöðu

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...3_sapukulur
  • Æðisleg reiðnámskeið
  • Vinsæl leiklist
  • Úr bíómyndinni
  • Sykurpúðar grillaðir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband