3.8.2010 | 01:13
Stórskemmtilegur lokadagur - Takk fyrir okkur!
Allt í einu var bara komið að lokadeginum, við bjuggumst varla við því, ekki svona fljótt. Góðir hlutir gerast hratt, segja sumir og við segjum að góðar vikur líði alllllllt of hratt.
Þessi sjötti og síðasti (heili) dagur hófst að vanda með því að börnin fengu sér morgunverð. Þegar allir voru orðnir saddir var haldið á námskeiðin. Það þýddi ekkert annað ef allt átti að vera tilbúið um kvöldið fyrir sjálfa lokakvöldvökuna sem allt hafði miðast við.
Við komumst að því að íþrótta- og ævintýrahópurinn hefur æft leikrit á laun en ekki var viðlit að komast að efni þess - það varð að bíða til kvöldsins. Við sem héldum að þau hefðu bara verið að leika sér ... huh, aldeilis ekki.
Grímugerðar- og leiklistarhópurinn hafði ekki bara gert glæsilegar grímur, heldur einnig samið handrit og æft leikrit sem lítið var hægt að fá fregnir af. Þessi börn eru frekar mikið leyndardómsfull en skiljanlega, það er langskemmtilegast að koma á óvart og biðin svo sem ekki löng til kvölds. Sjá myndir ofar.
Kvikmyndagerðin var búin með allt sitt, öllum tökum lokið og Matti búinn að klippa og beita meistaratöktum sínum á ræmuna Öddu Pöddu. Hópurinn átti að fá að sjá myndina í forsýningu fyrir kaffi og fannst það hreint ekki leiðinlegt.
Í hádeginu var grjónagrautur og líka skyr. Fyrir svona eðalkrakka dugir ekkert minna en tveir aðalréttir á lokadegi.
Síðan var haldið til herbergja þar sem farangrinum var pakkað niður. Þá kom sér nú vel að hafa tekið til í ferðatöskunum deginum áður. Fínu fötunum fyrir kvöldið og heimfararfatnaði var þó haldið til hliðar en passað upp á að sundfötin væru þurr og færu ofan í tösku, skór og sitt af hverju fleira sem ekki mátti gleymast. Krakkarnir undu sér vel í herbergjunum við þetta en svo var haldið æsileg kraftakeppni sem Ægir sigraði.
Víða voru annir og verið var að klára að leggja síðustu hendur og fætur á þetta allt saman. Kvikmyndagerðarhópurinn sá myndina sína og einnig nokkrar eldri myndir sem hafa verið gerðar í gegnum tíðina í Ævintýralandi. Þær myndir eru síðan sýndar á 7. degi, þegar börnin bíða eftir rútunni eða foreldrunum að sækja sig.
Reiðnámskeiðsbörnin fóru á seinna námskeiðið um miðjan dag og höfðu gaman af. Þeir eru alveg frábærir hestarnir hennar Guðrúnar Fjeldsted reiðkennara og alveg greinilegt að unglingarnir nutu þess í botn að fara í útreiðatúr á þeim.
Þar sem Katla átti afmæli á degi 7 og yrði þá komin heim í kaffitímanum var tekið á það ráð að halda upp á það deginum fyrr og ríkti mikil ánægja með að fá afmælisköku. Afmælisbarnið fékk sérskreytta köku og afmælispakka frá sumarbúðunum. Aldrei leiðinlegt að eiga afmæli í Ævintýralandi.
Eftir kaffi var Spilaborg opin og einnig voru krakkarnir inni á herbergjum, það þurfti nægan tíma til að taka sig til og gera klár fyrir kvöldið. Þau fóru í sparigallann, svona langflest, og það þurfti líka að sjá til þess að það yrði frábært hár. Einhverjir bjuggu til vinabönd á meðan beðið var eftir kvöldverðinum.
Konunglega eldhúsið bauð upp á frábæran mat fyrir prinsessurnar og prinsana ... eða hamborgara, franskar og sósu, ásamt gosi fyrir þá sem vildu. Þeir sem drekka ekki gos fengu safa að eigin vali.
Íþrótta- og ævintýrahópurinn var með fyrsta atriði kvöldsins - leikrit um íþróttakrakka sem leiðast út í rugl, verða feitir og vitlausir, eiginlega hálfgerðir uppvakningar. Kapteinn Ofurbrók kom og hjálpaði órugluðu íþróttakrökkunum við að endurheimta vinina og með hjálp vélarinnar Pálínu 4000 gátu þau snúið þeim á rétta braut og fengið þau aftur í íþróttirnar. Handritið samið af börnunum sjálfum frá A-Ö. Sýningin endaði svo á hressum súperman-dansi sem áhorfendur voru dregnir út í. Æðislegt leikrit og frábær skemmtun.
Grímugerðar- og leiklistarhópurinn sýndi látbragðsleikritið Skinkuvandræði. Það var mjög ævintýraríkt og skemmtilegt þar sem við sögu komu skinkur, emo-krakkar, hippar og bronskötturinn Kitty. Þema leikritsins var að vera vinir og leyfa gleðinni að ráða. Mjög vel heppnað og grímurnar sérlega flottar.
Síðan var komið að "martröð" starfsmannanna (smáýkt, við elskum þetta) en á hverju tímabili þurfa þeir að leika leikrit algjörlega óundirbúnir og fá ekki nema nokkrar mínútur til að gera sig klára ... Öskubuska var það heillin og lék Geir Öskubusku og María prinsinn. Þetta var góð skemmtun og mikið hlegið, enda ekkert venjuleg Öskubuska.
Eftir kvöldkaffið, ávexti og Svala, var boðið til bíósýningar þar sem frumsýna átti hina ógurlegu, hroðalegu og svakalega spennandi hryllingsmynd Öddu Pöddu. Með henni var snæddur frostpinni. Hún segir frá krökkum í heimavistarskóla og draugnum Öddu Pöddu sem dó á sorglegan hátt (vegna eineltis) fyrir mörgum árum og ásækir krakkana eftir að þau laumast til að fara í andaglas. Myndin var sérlega vel gerð og spennandi og leikararnir fóru á kostum í henni. Þau Marteinn Þórsson kvikmyndagerðarmaður og Guðrún Eva Mínervudóttir rithöfundur (sem hjálpaði til við að koma handritum barnanna saman í eitt) eiga mikið hrós skilið fyrir.
Þegar þetta er skrifað eru flestir, ef ekki allir, steinsofnaðir því stór dagur er á morgun líka, eða heimfarardagurinn. Eftir morgunmatinn verður horft aftur á stuttmyndina og einnig fleiri myndir, gamlar og góðar. Svo er það bara rútan og heim. Gaman, gaman. Sakn, sakn.
Okkur langar að þakka kærlega fyrir frábæra viku með afar skemmtilegum og góðum krökkum sem við vonum að hafi notið dvalarinnar hjá okkur jafnvel og við nutum þess að hafa þau hjá okkur.
BLESSSSS OG TAKKKKKKKK!
Myndir dagsins eru hér:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/t7d6.html
ATH. Þar sem þetta er síðasti dagurinn á síðasta tímabilinu viljum við nota tækifærið og þakka fyrir samveruna öllum þeim fjölda barna sem hafa komið til okkar í sumar. Þetta hafa verið frábærar vikur sem hafa verið allt of fljótar að líða! Sjáumst öll hress og kát næsta sumar.
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.