1.8.2010 | 01:07
Mikil stemming og húllumhæ
og fagran hafð´ann blæ.
Hamagangur og hasar sko mar´
og komið að húllumhæ.
Þetta tímamóta-snilldarljóð var ort í tilefni þess að fjórði dagurinn í sumarbúðunum var svokallaður húllumhædagur og ríkti mikið fjör alveg frá hádegi og til háttatíma. Morgunninn var nú ekkert slæmur heldur.
Dagurinn hófst þó eins og venjulega á góðum morgunverði eftir að búið var að nudda stírur úr augum, bursta tennur, klæða sig og greiða hárið.
Námskeiðin voru haldin fyrir hádegi og þar sem líður á vikuna er undirbúningurinn alveg á milljón. Íþróttahópurinn var áfram leyndardómsfullur um atriði sitt á lokakvöldvökunni og lék sér áhyggjulaus í hinum skemmtilega og hraða leik bandí.
María fór með grímugerðar- og leiklistarhópinn sinn á útisvæðið í leiklistaræfingar og náði papparatsí-ljósmyndarinn okkar nokkrum myndum þar. Annars er undirbúningur vel á veg kominn hjá hópnum að sögn Maríu þegar okkur tókst að króa hana af.
Tökur stuttmyndarinnar Öddu Pöddu fóru fram í svefnsölum leikaranna og svo reyndar aftur eftir kvöldmat á útisvæði. Við erum viss um að hún verður algjört meistarastykki, eins og fleiri kvikmyndir sem hafa verið gerðar í Ævintýralandi í gegnum árin.
Í hádeginu bauð gúrmei-eldhúsið upp á himneskan grjónagraut og melónur voru á boðstólum líka.
Fljótlega eftir hádegisverð var sjoppuferð og þvílík sæla að fá nammi á sjálfan nammidaginn.
Síðan var haldinn hádegisfundur, hver umsjónarmaður með hópnum sínum, þar sem púlsinn var tekinn á hlutunum og farið yfir dagskrá dagsins. Húllumhædagsins!
Veðrið lék við okkur, logn og hiti, algjört draumaveður fyrir það sem koma skyldi - eða fánaleikinn. Börnunum var skiptí tvo hópa, Martröð og Draum. Draumsliðar fengu rauða málningu í andlitið en Martraðarliðar bláa. Síðan var hlaupið og hlaupið, barist um klemmur og fána út í eitt. Eftir æsispennandi keppni sigraði lið Martraðar.
Þá hófst kókosbolluboðhlaup (sjá mynd ofar) þar sem tvö lið kepptu í hlauphraða og áti kókosbolla á mettíma. Ekki mátti nota hendurnar, heldur varð að beygja sig niður að borðinu sem kókosbollan var á og borða hana. Það var nokkuð flóknara en sumir héldu. Síðan klára bolluna og hlaupa til baka aftur þar sem næsti endurtók leikinn. Þetta er ekkert verri leið en hver önnur til að fá nammi ... enda tóku allir sannir kókosbolluunnendur þátt.
Rétt fyrir kaffi voru allir á útisvæðinu í góðu yfirlæti og m.a. hægt að fá bandfléttur í hárið. Það er mjög vinsælt hjá stelpunum og verður fléttað þangað til allar sem vilja eru búnar að fá.
Vöffluilmurinn sem barst úr eldhúsinu var alla að æra þrátt fyrir nýliðið kókosbolluát og því var hlaupið hratt inn í matsal þegar komið var að kaffi. Þetta voru sérlega góðar vöfflur sem versnuðu ekkert við að fá súkkulaðiglassúr og rjóma ofan á. Einn vildi þó rabarbarasultu frekar en súkkulaði og annar vildi sykur. Reynt er að uppfylla allar óskir, maður á jú að skemmta sér í sumarbúðum. Kannski eins gott að enginn sérvitringur var á svæðinu sem hefði viljað kavíar eða sojasósu á vöfflurnar sínar. Já, vöfflurnar - flestir fengu sér tvær, þær voru svoooo góðar. Ekki var amalegt að fá kókómalt með.
Heilmargt var í boði eftir kaffi, m.a. kom systir Jósefínu Potter (sem brá sér til Eyja), hún Gvendólína Potter, ávallt kölluð GPotter af aðdáendum - opnaði heilt spátjald (enda 17. júní-stemmning) og sagði krökkunum hvað þau væru hæfileikarík og gáfuð og gætu allt sem þau vildu. Hún hafði að orði eftir spádómana að sjaldan hefði hún hitt annan eins hóp af klárum krökkum og þarna. Börnin vissu auðvitað alveg að þetta væri meiri leikur en nokkurn tíma alvara og höfðu mjög gaman af. Að minnsta kosti myndaðist löng biðröð fyrir framan tjaldið hennar en hún var snögg að þessu, ein spurning var borin upp og henni var svarað. Hviss, bang, búið, enda svo margt annað skemmtilegt á boðstólum.
Það var hægt að fá tattú og bandfléttur og nóg að gera þar, einnig inni í Framtíðinni þar sem keilukeppni fór fram, eða Wii, einnig Wii-tennis.
Á útisvæði fór fram sápukúlusprengikeppni og var hún verulega spennandi. Þar er keppt í því að vera sem fljótastur að klappa saman lófunum þannig að maður sprengdi sem flestar sápukúlur. Færustu vísindamenn okkar lágu yfir ljósmyndum, upptökum og gerðu líkön og slíkt áður en kom í ljós að sá klappsneggsti var Ísleifur Kristberg sem náði að sprengja rosalega margar sápukúlur á einni mínútu. Mikið varð hann Geir umsjónarmaður hreykinn af sínum manni!
Í matsalnum fór fram skartgripagerð, ásamt tattúsmiðjunni, en við eigum einstaklega mikið af alls kyns hráefni til að búa til hina fjölbreyttustu og flottustu skartgripi.
Dásemdareldhúsið var sko ekkert hætt þennan dag, heldur höfðu þær Sigurjóna og Fernanda staðið í ströngu við að grilla pylsur ofan í mannskapinn og upp á þær var boðið í kvöldmatnum með tómatsósu, sinnepi, steiktum og remúlaði - og auðvitað í pylsubrauði. Svo var gos með. Sumir vildu þó vatn.
Eftir matinn voru aukatökur hjá kvikmyndagerðinni, eins og áður hefur komið fram, og einnig aukaæfing fyrir Ævintýrabarkann, söngvara- og hæfileikakeppnina sem fer alveg að bresta á. Flest hin börnin léku á als oddi á útisvæðinu í góða veðrinu.
Loksins hófst svo bíókvöldið. Það setur alltaf punktinn yfir i-ið á húllumhædeginum. Nammið úr sjoppuferðinni fyrr um daginn var maulað með en þau börn sem eru lítið fyrir sælgæti fengu ávexti og Svala.
Svo var það bara draumalandið á eftir og ljúft að sofna eftir vægast sagt annasaman og alveg stórskemmtilegan dag.
Myndir frá húllumhædeginum eru hérna:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/t7d4.html
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.