30.7.2010 | 19:59
Hvílíkur dagur - Haffi Haff og allt!
Dagur tvö var ekki bara skemmtilegur, heldur líka ótrúlega viðburðaríkur. Umsjónarmenn vöktu hver sinn hóp og eftir klæð, burst og greið hittust allir í matsalnum þar sem morgunverðarhlaðborðið beið.
Nóg var við að vera eftir morgunverðinn, útisvæðið opið í góða veðrinu, einhverjir drifu sig íþróttahúsið (miklir íþróttagarpar þetta tímabilið) eða sund, aðrir fóru í korta- og dagbókargerð og fyrsta karaókíæfingin var líka haldin en næstsíðasta kvöldið er Ævintýrabarkinn á dagskrá, söngvara- og hæfileikakeppnin sjálf.
Í hádeginu var kakósúpa með tvíbökum og svo ávextir í eftirrétt. Börnin kunnu vel að meta kakósúpu sem er, í sumra huga, ekkert annað en fljótandi súkkulaði ... svona nánast.
Eftir mat héldu umsjónarmennirnir hádegisfund með hópunum sínum og fór þar fram mikið spjall um lífið og tilveruna, dagskrá dagsins (svona það sem átti ekki að koma á óvart) og fleira.
Þá var haldið á námskeiðin. Mikið er um að vera á kvikmyndagerðarnámskeiðinu. Handritsgerð er lokið og aðstoðaði rithöfundurinn Guðrún Eva Mínervudóttir börnin við að skella saman handritinu upp úr hugmyndunum sem þau höfðu skrifað niður. (www.minervudottir.com) Okkur tókst að grafa upp að myndin á að heita Adda Padda og er ... hryllingsmynd! Sá sem heldur utan um námskeiðin er Marteinn Þórsson, eins og áður hefur komið fram, ( www.tenderlee.com) en hann (til að við montum okkur enn meira) er að gera Rokland, var einn af klippurum Hamarsins og fleira og fleira.
Íþróttahópurinn notaði tímann til að sprella sem er náttúrlega bara skemmtilegt og grímugerðar- og leiklistarhópurinn skapaði grímur af mikilli snilld. Leikrit verður sýnt á lokakvöldvökunni og stendur undirbúningur yfir.
Skömmu áður en námskeiðunum lauk mátti heyra undurljúfa tóna (að margra mati) en sjálfur ÍSBÍLLINN renndi í hlað á Kleppjárnsreykjum hringjandi og syngjandi - að sjálfsögðu með vitund og vilja sumarbúðastjórans. Mikið urðu börnin glöð og starfsfólkið líka.
Allir fengu afmælisköku í kaffinu en Selfossmærin Alexandra Björg átti 13 ára afmæli og fékk auðvitað veislu og afmælispakka frá sumarbúðunum. Kakan hennar var líka flott skreytt, enda var hún afmælisbarnið! Þrátt fyrir ísátið borðuðu flestir tvær sneiðar af afmælistertu og sumir vildu líka tekex með heimalöguðu appelsínumarmelaði.
Eftir kaffi fór hópur barna út í íþróttahús en aðrir urðu eftir í Framtíðinni - bláa herberginu þar sem heil hárgreiðslukeppni fór fram. Bæði strákar og stelpur tóku þátt en strákarnir treystu sér frekar til að vera módel en hárgreiðslumeistarar. Greiðslurnar voru ótrúlega frumlegar og flottar og án efa mjög erfitt fyrir dómnefndina að velja. Sjá má greiðslurnar á heimasíðunni (sjá neðst hér).
1. sæti: Alexzandra sem greiddi Halldóru Veru.
2. sæti: Bryndís Ósk sem greiddi Hreiðari Henning.
3. sæti: Hulda og Sissa sem greiddu Söndru.
Frumlegasta greiðslan: Alexandra Björg sem greiddi Grétu.
Einnig tóku þátt Björg og Hugrún Elfa sem greiddu Hörpu Lilju, Alexandra Diljá sem greiddi Elfu Maríu og Sylvía Hall sem greiddi Eyjólfi Júlíusi.
Allir fengu viðurkenningarskjöl og efstu sætin fengu verðlaun.
Krakkarnir fóru flestir inn á herbergin sín um sexleytið, enda alltaf gaman að hanga þar og spjalla en þau voru ekki búin að vera þar lengi þegar þau voru kölluð í einu ofboði út í íþróttahús. Ekki grunaði þau hvað væri í gangi en það kom fljótlega í ljós. Landsþekkti leynigesturinn var mættur á svæðið. Það var ein heitasta stórstjarna okkar Íslendinga, sjálfur Haffi Haff.
Haffi söng nokkur lög, dansaði og fékk krakkana til að dansa og syngja með. Allir fengu eiginhandaráritun og margir létu mynda sig með honum. Þvílík gleði.
Hefðarkokkarnir í Ævintýralandi settu enn eitt metið í vinsældum þegar börnin komu í kvöldmat, enda var pítsa í matinn, öllu heldur pítsur! Þá var nú aldeilis kátt í höllinni.
Ekki var lagst á meltuna á eftir, onei, aldeilis ekki - fljótlega eftir mat var haldið út í íþróttahús þar sem æsispennandi brennókeppni fór fram og ótrúlegt hvað krakkarnir gátu hreyft sig eftir allt átið. Hópur 1 sigraði og var Geir umsjónarmaður mjög montinn, enda voru þetta börnin hans.
Kvöldið var rétt að byrja þarna því sjálfur draugaleikurinn var eftir. Þar sem þetta eru eldri börn en hafa verið í sumar var leikurinn gerður mun erfiðari (múahaha) og þurftu þau að skríða í gegnum draugaleg göng og hvaðeina áður en þau náði í enda herbergisins þar sem þau þurftu að leysa þraut í einum, grænum hvelli. Hraðinn og það að láta draugana ekki trufla sig var það sem allt snerist um. (Mynd af draugaherberginu hér t.h.)
Hópur 3 fór nánast á ljóshraða í gegnum þetta og voru stelpurnar tvær, fulltrúar síns hóps, eins og eldibrandar og létu ekkert trufla sig. Nú var komið að Snæfríði umsjónarmanni að finna fyrir monti þar sem þetta var hópurinn hennar.
Vissulega var mikið skrækt, enda ótrúlega spennandi að taka þátt í þessu. Öll börnin fengu svo í lokin að kíkja inn í þetta myrka herbergi þar sem hávær og mjög draugaleg tónlist hljómaði, reykvél jók á stemmninguna og draugarnir settu punktinn yfir i-ið. Þau Gísli og María léku draugana og gerðu það eins og þau hefðu ekkert annað gert, algjörir snillingar.
Ávextir voru á boðstólum í kvöldkaffinu og svo var bara tími kominn til að hátta, lesa og sofna.
Frábær dagur að baki, eiginlega bara stórkostlegur!
Myndir frá deginum er að finna hér:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/t7d2.html
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Frábært að sjá hvað er gaman hjá ykkur. Kveðja Sólveig ( mamma Silju Sjafnar)
Sólveig Hólm (IP-tala skráð) 30.7.2010 kl. 23:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.