27.7.2010 | 02:12
Líflegur lokadagur í Ævintýralandi
Eiginlega var ótrúlegt að hugsa til þess að lokadagurinn væri runninn upp en svo var nú aldeilis raunin þegar börnin vöknuðu á degi 6. Staðgóður morgunverðurinn beið og hægt að fá sér smávegis af kornflexi, seríosi og súrmjólk, slettu af hafragraut og svo ristað brauð eða bara eitt af þessu. Til þess eru hlaðborðin að velja það besta af þeim. Ekki sást nokkurt barn blanda þessu öllu saman. Kannski hafa þau hlustað á æskuminningar afa og ömmu um hræring, ég segi ekki meira.
Námskeiðin fóru á fullt eftir morgunverðinn enda komið að lokaundirbúningi þeirra. Íþróttakrakkarnir sáust í flottum búninum úr búningasafni Ævintýralands og það vakti heilmikla forvitni hinna. Hvaða undarlegu íþróttir átti að sýna í fullum búningum? Allt átti það eftir að koma í ljós.
Plaköt fyrir bíómyndina Tímavélina birtust upp um alla veggi sumarbúðanna og jók það heldur betur á spenninginn, enda átti greinilega að frumsýna bestu bíómynd í heimi um kvöldið, Tímavélina. Lokatökur stóðu yfir úti í garði og mátti sjá ýmsar furðuverur á stjái milli trjánna.
Listaverkagerðin var líka í miklum önnum, enda heilmikil listsýning fram undan og allt þurfti að vera orðið þurrt og tilbúið fyrir stóru stundina. Það þurfti að raða upp, merkja og fínisera allt í kring. Þvílík listaverk sem börnin höfðu búið til og mikil tilhlökkun ríkti fyrir sýningunni.
Í hádeginu var boðið upp á skyr og smurt brauð og tóku börnin vel til matar síns. Mikið fjör ríkti í matsalnum og spenningurinn var í hámarki.
Eftir mat var pakkað niður í töskur og svo var haldið áfram með loka-, lokaundirbúninginn á námskeiðunum. Hlutirnir fóru að taka á sig góða mynd og hægt að segja á ýmsum vígstöðvum að nú væri allt tilbúið.
Í kaffinu voru skúffukaka, melónur og tekex með marmelaði. Stefán Ingi átti 11 ára afmæli og fékk sérskreytta skúffukökusneið, kort og gjöf ... og söng auðvitað.
Úti var byrjað að rigna - í fyrsta sinn í manna minnum - svona nánast, en þetta var ekki mikil rigning, ekki meiri en það að nokkrir krakkar buðu sig fram í ruslatínslu á útisvæði. Ruslatínsla fer alltaf fram á lokadegi og fá þátttakendur glaðning fyrir hjálpina. Vel var hreinsað til og slapp ekki eitt einasta gamalt, uppþornað laufblað undan haukfránum sjónum barnanna. Svo var sópað og á endanum hefði mátt borða upp úr stéttunum ef einhver hefði kært sig um að prófa ...
Spilaborg var vinsæl enda kósí að sitja þar og lesa blöð og bækur. Mikið er til af skemmtilegum bókum í Ævintýralandi og úr nægu að velja. Útisvæðið þótti of blautt fyrir prinsa og prinsessur sem kusu að kúra inni, enda gott að slaka á fyrir átök (skemmtun) kvöldsins. Sumir kusu þó að sprella í íþróttahúsinu og þótti það ekki leiðinlegt.
Mikil gleði braust út þegar kom að kvöldverðinum, enda hátíðarmatseðill í boði ... hamborgarar, franskar og sósa. Gos með til að skola því niður. Börnin voru búin að skipta um föt og mátti sjá glitta í pell og purpura um allan matsal.
Fyrsta atriði kvöldsins var sýning á þeim fjölda listaverka sem höfðu orðið til alla vikuna. Börnin gengu um og skoðuðu og dáðust að verkunum. Þetta var mjög velheppnuð sýning í alla staði og fékk fimm stjörnur af fimm mögulegum.
Íþróttahópurinn dreif síðan alla út í íþróttahús eftir listaverkasýninguna og bauð upp á þrjú atriði, hvorki meira né minna. Fyrsta atriðið var limbókeppni þar sem sigurvegarinn varð Halldór Ívar en hann segist hafa gúmmí í stað beina ... Síðan var haldin æsispennandi spurningakeppni á milli hópa þar sem tvö börn frá hverjum hópi kepptu í íþróttaspurningum. Í undanúrslit komust Hafmeyjar og Höfrungar en síðarnefndi hópurinn hafði sigur í lokin. Síðasta atriði íþróttahópsins var bráðfyndið og skemmtilegt en þá stukku börnin, sum í búningum, á trampólín og þaðan á dýnu. Í lokin hoppuðu þau í gegnum húlahring - mjög flott.
Þá var komið að leikriti starfsmanna, algjörlega óundirbúnu af þeirra hálfu. Þeir áttu að leika leikritið Þyrnirós og það var heldur betur öðruvísi en í ævintýrabókunum. Rómeó var þarna í leit að Júlíu sinni og féll svona líka kylliflatur fyrir Þyrnirós. Tveir drekar komu við sögu og þeir ákváðu að gifta sig um leið og Rómeó og Þyrnirós. Mikið fjör og bráðfyndið leikrit.
Kvöldkaffið var ... uuuu borðað, eða ávextir í kílóatali, og svo var haldið á kvikmyndasýningu.
Kvikmyndagerðin sýndi myndina Tímavélina en hún fjallar um hóp barna sem finnur óvænt tímavél sem sendir þau til ársins 1950 þar sem allt var í svarthvítu. Þar berjast þau við hin og þessi skrímsli, þar á meðal skinkuvampíru (já, þið lásuð rétt) en á endanum komust þau heilu og höldnu aftur heim til ársins 2010. Á meðan myndin var sýnd gæddu börnin sér á frostpinna, svona á milli hláturskastanna.
Þá var ekkert annað en að fara að sofa síðasta kvöldið, það var ekkert auðvelt að sofna eftir spennandi dag og svo var náttúrlega mikil tilhlökkun að koma heim.
Við þökkum þessum frábæra og samrýmda hópi kærlega fyrir dásamlega viku!
Myndir frá lokadeginum er að finna hér: http://sumarbudir.is/sumarbudir/t6d6.html
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.