26.7.2010 | 17:30
Tíska, hestar, söngur og sund ... svo fátt eitt sé talið
Eftir morgunverð á degi 5 var mikið um að vera ... að vanda svo sem. Keppendur kvöldsins í Ævintýrabarkanum þurftu að æfa sig, aðrir fóru og nutu sólar á útisvæði, í íþróttahúsið eða sund og heita pottinn.
Þeir sem áttu eftir að gera kort og dagbækur gátu gert það. Spilaborgin opnaði þegar líða fór á morguninn og einnig kusu einhverjir að vera inni á herbergi. Verulega kósí og ljúfur morgunn hvort sem verið var í blíðinnu úti eða blíðunni inni.
Pasta og hvítlauksbrauð var í boði í hádeginu og svo var haldið á hádegisfundina með umsjónarmönnunum. Nú var hulunni flett ofan af dularfullu bréfunum sem höfðu borist til hvers hóps á morgnana og innihéldu mikilvæg skilaboð. Börnin fengu hvert og eitt gullpening (súkkulaði með gullbréfi utan um fyrir raunsæa blogglesendur)og skilaboð á litlum miða.
Námskeiðin voru að vanda (nema á húllumhædegi og lokadegi) haldin á milli kl. 14 og 16. Þemað í listaverkagerðinni verður náttúran og litir. Enn er leyndarmál hvað íþróttahópurinn ætlar að gera á lokakvöldvökunni og tökur eru hafnar hjá kvikmyndagerðinni - á myndinni Tímavélin!
Reiðnámskeiðsbörnin skemmtu sér konunglega í löngum og góðum reiðtúr á námskeiðinu hjá Guðrúnu Fjeldsted en þau tóku með sér gott nesti þegar þau lögðu af stað skömmu fyrir kaffi. Myndavélin var með í för eins og sjá má á heimasíðunni.
Eftir kaffi, þar sem boðið var upp á sumarbúðasandköku, afgangsvöfflur, tekex með marmelaði og svo melónur á eftir, var sitt af hverju í boði.
Íþróttahúsið sívinsæla, Spilaborg og útisvæði urðu fyrir valinu. Sólin var í smápásu en það var logn og bara yndislegt veður úti.
Einnig var haldin tískusýningaræfing, mjög skemmtileg. Börnin eru búin að velja sér búninga, hárkollur, höfuðföt og gleraugu. Fjögur börn sýna í alvörunni, mjög flott, hitt er í gríni og mjög fyndið.
Í kvöldmat var boðið upp á fisk og kartöflur ásamt smjöri og tómatsósu, algjört æði.
Svo var bara komið að sjálfum Ævintýrabarkanum. Átta þátttakendur stigu á svið, hver öðrum betri og var þetta hin besta skemmtun. Myndin hér til vinstri er af æfingunni um morguninn.
Úrslitin urðu þessi:
1. sæti: Harpa Óskarsdóttir sem söng lagið I am yours (Röddin) en Harpa er þátttakandi í Röddinni hjá Siggu Beinteins og Maríu Björk.
2. sæti: Hallgrímur Hrafn Guðnason sem söng Evróvisjónlagið Satellite.
3. sæti: Halldór Ívar Stefánsson sem söng lagið Draumur um Nínu. Halldór er hér í annað skipti í sumar og kom líka í fyrra ...
(Ef einhver veltir því fyrir sér að sigurvegararnir skuli allir bera nafn sem byrjar á H skal það tekið fram að það er einskær tilviljun.)
Aðrir frábærir þátttakendur voru: Alma Maureen Vinson sem söng lagið The Climb, Karítas Birna Eyþórsdóttir með lagið Hot´n Cold, Íris Míranda Bonilla söng lagið Love me tender, Signý Helga Guðbjartsdóttir söng lagið Hlið við hlið og Sigríður Eydís Gísladóttir söng lagið Stál og hnífur.
Allir þátttakendur fengu viðurkenningarskjöl og verðlaun voru veitt fyrir efstu þrjú sætin.
Eftir frábæra frammistöðu þessara söngvara fór tískusýningin fram og var hún alveg æðisleg, eins og æfingin gaf svo góð fyrirheit um.
Í kvöldkaffinu var brauð og safi á boðstólum og síðan tók draumalandið við eftir lestur.
Myndir frá deginum er að finna hér:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/t6d5.html
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.