24.7.2010 | 12:51
Diskó á degi 3 ... og margt, margt fleira
Dagur 3 hófst með staðgóðum morgunverði og síðan var nóg við að vera. Íþróttahúsið var vinsælt, útisvæðið, sundlaugin og svo var boðið upp á kertagerð sem féll vel í kramið. Þau sem ætla að taka þátt í Ævintýrabarkanum fóru á karaókíæfingu.
Kertagerðin er alltaf mjög skemmtileg og vinsæl. Ellen hellti varlega vaxi í bláskel fyrir hvern og einn, settur var kveikur og síðan þegar vaxið kólnaði var hægt að skreyta það á allan máta. Það var hægt að nota glimmer, hrísgrjón eða baunir og kertin urðu ógurlega flott hjá krökkunum.
Kakósúpa með tvíbökum var í boði í hádeginu og þótti sérlega góð. Við höfum heyrt frá sumum börnum að þetta sé besta kakósúpa í heimi en seljum það svo sem ekki dýrara en við keyptum það, góð er hún þó. Ávextir í eftirmat settu síðan punktinn yfir i-ið.
Eftir matinn funduðu börnin með umsjónarmanni sínum að vanda og bar sitt af hverju á góma. Bréfin til umsjónarmanna voru rædd, eða mikilvægt innihald þeirra, og sitt af hverju sem lá börnunum á hjarta. Þessir fundir ýta hópnum vel saman, börnin fá að vita hvað er í boði þennan dag og margt, margt fleira. Það er komið inn á margt uppbyggjandi og gott á þessum fundum.
Síðan var haldið út í íþróttahús þar sem starfsmenn léku leikrit fyrir börnin. Leikritið hefur í sér sterkan forvarnaboðskap og kemur inn á svo margt hvernig hægt er að bregðast við ýmsum aðstæðum sem maður getur lent í. Viðbrögð við stríðni og hvað hópurinn getur verið sterkur þegar hann sameinast um að kæfa slíkt í fæðingu, að stela eða ekki stela og margt fleira. Það var komið inn á hættuna af því að adda hverjum sem er á MSN eða Facebook og fara upp í bíl hjá ókunnugum. Sama hversu oft brýnt er fyrir börnunum að t.d. fara aldrei upp í bíl hjá ókunnugum þá geta þau gleymt öllu um leið og þau heyra t.d. minnst á litla (upplogna) hvolpa sem þurfa á þeim að halda. Sterkara er talið að sjá atburðina og það varð kveikjan að þessu leikriti sem hefur verið sýnt árum saman í Ævintýralandi í ýmsum útgáfum. Þrátt fyrir alvarlegan undirtón er þetta bráðfyndið leikrit og svo sannarlega hægt að hlæja að ýmsu þar, eins og Song þegar hann fullyrti við Snæfríði að hún ætti sko að fara upp í bíl hjá öllum - alltaf. Þegar yngri börnin sjá þetta leikrit má alltaf greinilega heyra hneykslan þeirra yfir bullinu í honum Song sem hún Sing leiðréttir snarlega en Snæfríður hlustar sem betur fer alltaf á Sing.
Námskeiðin gengu mjög vel og okkur tókst að komast að því að stuttmyndin sem börnin í kvikmyndagerð eru að búa til heitir Tímavélin. Meira fengum við ekki að vita í bili en það hvílir alltaf heilmikil leynd yfir námskeiðunum þar sem allt á að koma á óvart á lokakvöldvökunni. Þótt við lofuðum að segja engum (nema blogginu) þá var lítið hægt að fá upp úr þeim en við reynum áfram. Hjá listaverkagerðinni er verið að vinna að því að ákveða þema sýningarinnar og það ætti að vera komið á hreint fyrir næstu færslu. Íþróttahópurinn hoppar svo mikið og skoppar að það er engin leið að komast að krökkunum og fá nokkuð upp úr þeim ... allt kemur í ljós síðasta kvöldið.
Hluti hópsins fór á reiðnámskeið og tók með sér nesti og nýja skó. Hinir fóru í kaffi og hesthúsuðu auðveldlega köku og tekexi með heimalöguðu marmelaði í miklu magni.
Íþróttahúsið varð fyrir valinu hjá mörgum eftir kaffið, aðrir slökuðu á í Spilaborg eða skemmtu sér á útisvæðinu. Einnig var haldin æfing fyrir leyni-tískusýninguna sem verður haldin strax á eftir hæfileikakeppninni næstsíðasta kvöldið. Mikill spenningur er í gangi hjá þeim hópi stráka og stelpna sem ætla að sjá um hana og hún á að koma á óvart - og vera meira grín en alvara.
Sérlega góðan matarilm lagði úr eldhúsinu þegar börnin fóru inn í matsalinn og í ljós kom að snilldarkokkarnir okkar (Sigga Hall og Gordonía Ramsay) höfðu bakað pítsur og ekkert smávegis góðar pítsur. Börnin höfðu skipt um föt fyrir matinn og farið í sitt fínasta púss, eins og konungsveisla væri fram undan. Þótt maturinn væri við hæfi flottustu prinsa og prinsessa var það þó ekki ástæðan, heldur það að fram undan var brjálað fjör ... eða DISKÓ!!!
Í danssalnum (ókei, diskóherberginu) var búið að skreyta allt með seríum og diskóljósi, flott danstónlist hljómaði og reykvélin lék stórt hlutverk að vanda. Mikið var dansað upp um alla veggi og loft, svona nánast, og svo var hægt að slaka á inn á milli og fá tattú og/eða bandfléttur í hárið hjá umsjónarmönnunum. Rosalega skemmtilegt kvöld.
Ávextir voru snæddir í kvöldkaffinu og svo var það bara hátt, burst og les. Ekki leið á löngu þar til ró færðist yfir allt á Kleppjárnsreykjum.
Myndir frá deginum er að finna hér:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/t6d3.html
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.