22.7.2010 | 19:14
Diskósund á fyrsta degi!
Um tvöleytið í gær fóru fyrstu börnin að tínast á Kleppjárnsreyki, enda tímabil 6 að hefjast og fljótlega birtist svo rútan með heilan helling af hressum og skemmtilegum börnum.
Umsjónarmennirnir fóru síðan hver með sinn hóp um svæðið eftir að farangurinn var settur inn á herbergin. Sýningarrúnturinn gekk vel en mjög margir af hópnum hafa þó verið áður í Ævintýralandi og könnuðust vel við sig. Tvær stelpur voru að koma í annað skiptið í sumar!
Í kaffinu var boðið upp á skúffuköku og svo var nóg af melónum líka.
Eftir kaffið hittust allir í íþróttahúsinu þar sem kynning á starfsfólki og námskeiðum fór fram. Íþróttanámskeiðið var langvinsælast að þessu sinni og kvikmyndagerðin og listaverkagerð fylgdu fast á eftir. Þannig að það verður mikið hoppað og skoppað þessa vikuna, bæði í íþróttahúsinu og utandyra. Veðrið í Ævintýralandi hefur verið ævintýralega gott sem af er sumri og við vonum auðvitað að það haldi áfram þótt einn og einn dagur komi þar sem lognið ferðast hratt um og dropar komi úr lofti. Það er a.m.k. nóg við að vera inni þá daga sem veðrið býður ekki upp á jafnmikla útiveru og vanalega.
Börnin völdu sér líka álegg á brauðið í kvöldkaffinu og safategund en til skiptis er boðið upp á ávexti og brauð fyrir svefninn.
Stöðvar voru opnar eftir kaffi; útisvæðið, Spilaborg og íþróttahúsið. Ýmis leiktæki, m.a. tvö trampólín eru á útisvæði, í Spilaborg eru spil í tugatali, leikföng, bækur og blöð, einnig borðtennisborð og pool. Í íþróttahúsinu eru fjöldinn allur af skemmtilegum leiktækjum, dýnur og bara allt sem gott íþróttahús hefur upp á að bjóða.
Veðrið var mjög gott, sól og hiti, og ekki amalegt að vera úti. Flestir fóru á milli stöðva og vildu prófa sem flest og það var mikið fjör á öllum stöðum. Nokkrir skruppu í gönguferð og fannst ekki leiðinlegt að geta fleytt kerlingar ...
Í kvöldmat var kjöt og spagettí sem féll vel í kramið hjá börnunum sem borðuðu ekki bara vel - heldur mikið!
Síðan var haldið í sund og ekkert venjulegt sund, heldur diskósund þar sem reykvélin fékk að blása og heilmikil stemmning ríkti. Það var dansað á bakkanum, hoppað út í laug og svamlað og svo slakað á í heita pottinum, bara eftir því hvað hvern langaði.
Tíminn leið hratt, eins og alltaf þegar það er gaman, og svo var allt í einu komið að kvöldkaffinu. Ávextir runnu vel niður og þegar allir voru háttaðir var boðið upp á kvöldsögu fyrir hvern hóp, framhaldssögu sem umsjónarmaðurinn les. Hóparnir ráða því hvort þeir vilja sögu, sumir vilja bara ná sér í bók á hinu fjölbreytta bókasafni Ævintýralands og lesa sjálfir.
Þetta var góður fyrsti dagur og hópurinn alveg frábær!
Myndir frá deginum er að finna hérna:http://sumarbudir.is/sumarbudir/t6d1.html
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.