20.7.2010 | 11:51
Tvöföld afmælisveisla og mögnuð lokakvöldvaka
Þá rann lokadagurinn upp - dagurinn mikili þar sem afrakstur vinnunnar alla vikuna skyldi sýndur og mikill spenningur ríkti.
Fyrst var borðaður morgunverður af hlaðborðinu, hafragrautur, súrmjólk, kornflakes, ristað brauð ... allt þetta eða bara eitt.
Námskeiðin voru haldin fyrir hádegi, enda þurfti að leggja lokahönd á ýmislegt, raða upp myndlistarsýningunni og klára að æfa leikrit og dans. Kvikmyndagerðin var búin með sitt og börnin fóru á útisvæðið eða í sund og hin slógust fljótlega í hópinn. Á veggjum mátti sjá auglýsingar um væntanlega kvikmyndasýningu og mikil stemmning var í gangi fyrir lokakvöldvökunni.
Eldhúsið bauð upp á skyr og smurt brauð í hádeginu.
Eftir matinn var farið í að pakka niður farangrinum og svo hófst loka-, lokaundirbúningur fyrir kvöldið hjá þeim sem áttu eftir að hnýta allra síðustu endana. Eftir pökkun var líka seinni hluti reiðnámskeiðs í gangi þannig að ekki var æft eftir hádegið.
Þegar börnin komu í kaffi var búið að breyta matsalnum, borðin sett saman og búið að skreyta. Tvöfalt afmæli var í dag en Ragnar (Höfrungur) og Rut (Gullfiskur) áttu bæði níu ára afmæli. Þau sátu við sérstakt afmælisborð þar sem blá terta spilaði fyrir þau afmælissönginn ... og svo sungu allir auðvitað líka, sumarbúðastjórinn kom með kort og gjafir fyrir afmælisbörnin sem fengu sérskreyttar afmæliskökusneiðar. Ekki amalegt að lenda í tvöföldu afmæli og fá afmælisköku á þessum mesta hátíðisdegi vikunnar, lokadeginum. Afmælisbörnin urðu hálffeimin í fyrstu en ekki leið á löngu þar til þau voru farin að brosa hringinn. Það er alltaf gaman að eiga afmæli í Ævintýralandi og ekki amalegt heldur að vera afmælisgestur.
Síðan hófst ruslatínslan og þau börn sem vilja taka þátt fá poka og fara svo umhverfis sumarbúðirnar og tína allt það rusl sem þau finna, ekki eitt einasta fölnað laufblað sleppur undan haukfránum sjónum þeirra. Sum sópuðu stéttina og innan skamms var umhverfið orðið hreint og fínt. Allir sem tóku þátt fengu smáglaðning. Sjá mynd hér ofar. Með því að setja bendilinn yfir myndirnar má sjá myndatexta.
Spilaborg var líka vinsæl þennan steikjandi hlýja eftirmiðdag þar sem börnunum þótti gott að sleppa smástund inn úr sólinni - en flestir léku sér þó á útisvæðinu.
Skömmu fyrir kvöldmat fóru allir inn í herbergin sín til að skipta um föt og vildu vera í sínu fínasta pússi fyrir kvöldið.
Sannkallaður hátíðarmatseðill var í boði ... eða hamborgarar, franskar og sósa og gos til að renna því niður. Mikil gleði yfir matseðlinum og mikið borðað.
Myndlistarsýningin var fyrst á lista kvöldsins og bar hún nafnið Geimævintýri. Þar voru sýnd mjög flott listaverk af öllum gerðum, listaverk sem sýndu mikla sköpunargleði, vonandi að ljósmyndirnar sýni, þó ekki væri nema lítið brot af því, hvað þetta var glæsilegt hjá þeim.
Grímugerð og leiklist sýndu Ævintýrasirkusinn, spennandi leikrit sem fjallar um stuld á tígrisdýri úr sirkusi og allt fer í steik. Löggan bjargar málunum og finnur dýrið. Í lokin dansa allir fagnaðardans og þar blandaðist danshópurinn inn í og varð úr þetta líka flotta dansatriði. Mjög skemmtilegt leikrit sem börnin sömdu sjálf handritið að, völdu sér búninga, bjuggu til grímur og sýndu svo. Bara stórkostlegt!!!
Þá var komið að Búkollu, leikriti starfsmannanna ... en þeir leika algjörlega óundirbúið, vita ekkert hvaða leikrit á að leika eða hvert hlutverk þeirra á að vera. María var hin lata og svefnsjúka Búkolla og fórst það vel úr hendi. Mikið var hlegið, enda var þetta frekar ólíkt Búkollu sem allir þekkja.
Síðasta atriði lokakvöldvökunnar var kvikmyndin Hvar ertu?. Hún fjallar um börn sem hverfa á dularfullan hátt og lítill tveggja ára gutti sem er í heimsókn í sumarbúðunum hverfur líka. Ólíklegasta manneskjan er sökudólgurinn, eða sjálfur sumarbúðastjórinn sem stjórnar þessum ránum. Henni finnst nú ekkert óeðlilegt (sko í myndinni) að stela börnum, sko sumir safna frímerkjum, hún börnum! Þegar henni er sagt að þetta sé ólöglegt gargar hún bara og hleypur í burtu en sleppur ekki, heldur fer í fangelsi ásamt glæpagengi sínu. Já, handritið var unnið upp úr hugmyndum allra barnanna í kvikmyndagerðinni og úr varð þessi líka rosalega fyndna og skemmtilega bíómynd!
Lokakvöldkaffið var ljúft en þá var ekki bara boðið upp á ávexti, heldur líka frostpinna.
Það voru ánægð börn sem lögðust á koddann sinn um kvöldið - þetta hafði verið skemmtilegt kvöld og fínasta vika full af ævintýrum.
Myndirnar frá síðasta deginum er að finna hér:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/t5d6.html
Bestu þakkir fyrir stórkostlega viku og saknaðarkveðjur!
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.