Ævintýradagur númer tvö

Þrír GullfiskarGengið á vatniDagur 2 rann upp sólbjartur og sólfagur í glampandi sólskini ... já, það var sko sól í gær og er enn.

 

Umsjónarmenn vöktu börnin um níuleytið, sum voru nú reyndar farin að rumska sjálf, og eftir að hafa klætt sig og burstað tennur var haldið í morgunverð - eða til hlaðborðs! Þar var hægt að velja um sitt lítið af hverju:

Kornflakes, súrmjólk, hafragraut og ristað brauð með t.d. osti og heimalöguðu marmelaði Sigurjónu matráðskonu sem er ein vinsælasta manneskjan á svæðinu eins og mun koma í ljós næstu dagana ...

 

Fjör í íþróttahúsinuStórfiskaleikurSíðan voru opnaðar stöðvar, útisvæðið og sundlaugin og einnig fór fyrsta karaókíæfingin fram en þar æfa sig þeir þátttakendur sem hafa skráð sig í Söngvara- og hæfileikakeppnina Ævintýrabarkann. Sú keppni fer fram næstsíðasta kvöldið og er ótrúlega skemmtileg. Börnin velja sér lag til að syngja, eða þau dansa, breika, segja brandara og jafnvel teikna „í beinni“, eins og gerðist eitt tímabilið við mikla lukku. Skömmu fyrir hádegismat fóru börnin inn á herbergi til að bæta á sig sólarvörn, ekki veitti af.

 

Í hádeginu var núðlusúpa og smurt brauð, m.a. með kæfu og eggjum og síðan var haldið á hádegisfund.

Hressar stelpurStrákar í íþróttahúsinuUmsjónarmenn funda alltaf í hádeginu með börnum sínum og þeir höfðu sannarlega fréttir að færa. Þeir voru vaktir um morguninn með því að bréfi var fleygt í andlitið á þeim og svo ... hviss, bang, hvarf bréfberinn dularfulli. Þetta hefur gerst á öllum tímabilunum í sumar en okkur hefur ekki tekist að fá upp úr börnunum hvað er í gangi, eina sem við vitum er að einhver mikilvæg skilaboð eru í þeim og loforð um meira daginn eftir.  Skyldi okkur takast að veiða leyndarmálið upp úr þessum hópi?

Síðan var haldið á námskeiðin. Já, kvikmyndagerðin er fjölmennust og einnig grímugerð og leiklist sem eru saman. Mun dansnámskeiðið jafnvel tengjast þeim tveimur þar sem snillingurinn Snæfríður umsjónarmaður vinnur að gerð dans sem hæfir leikritinu. Listaverkagerðin rokkar hjá Heiðu en hún er einmitt myndlistarkennari og hefur unnið í mörg ár fyrir Ævintýraland, eins og flestir starfsmennirnir. Íþróttirnar verða tengdar við kvikmyndagerðina þannig að þegar tökur hefjast þurfi leikararnir ekki að sitja og bíða endalaust eftir að komi að þeim, heldur er farið á fullt í íþróttum, úti sem inni. Bara snilld.

Einbeittar í hárgreiðslukeppniTíminn leið hratt á námskeiðunum og allt í einu var komið kaffi og bauð eldhúsið upp á hina sívinsælu sumarbúða-sandköku, ásamt melónum í miklu magni.

Eftir kaffi hófst hárgreiðslu-keppnin og að þessu sinni tóku bara stelpur þátt í henni. Þátttakendur voru allir æðislegir og dómnefndin átti í mesta basli með að velja flottustu greiðslurnar. 

Í fyrsta sæti varð Margrét Júlía sem greiddi Ásdísi Birtu.

Í öðru sæti varð Fríða Lilja sem greiddi Iðunni Klöru.

Í þriðja sæti varð Elísabet Alla sem greiddi Önnu Díu.

Frumlegasta hárgreiðslan þótti vera greiðsla Heiðu Óskar en hún greiddi Sólbrá Birtu.

Frá hárgreiðslukeppniAðrir þátttakendur voru Heiðdís Dögg, Helena, Inga María, Jóhanna Katrín, Kolla, Mirjam Sif, Signý Helga og Tinna Björk.

Allar fengu þær viðurkenningarskjöl og smáverðlaun voru veitt fyrir efstu sætin og frumlegustu greiðsluna.

KörfuboltasnillingarÚtisvæðið var líka opið og íþróttahúsið svo börnin gætu kælt sig INNI, já, ég legg ekki meira á ykkur ... það er sko hægt að verða þreyttur á sólinni, líka á ÍSlandi. Sumarbúðastjórinn, hún Svanhildur Sif, tók sér pásu frá skrifstofuamstrinu og fór í körfubolta í smástund með nokkrum krökkum. Þar hitti hún átta ára körfuboltadrottningu, Hafrúnu, sem virtist vera á heimavelli þarna. Jafnaldra hennar, Sólrún Pauline, fylgdi fast á eftir og var kölluð körfuboltaprinsessan. Ekki háar í loftinu, svona miðað við 2,11 m körfuboltakappa, en hittu samt ótrúlega oft í körfuna þarna lengst, lengst uppi sem fullorðið fólk getur sumt varla.

Eftir að hafa borið á sig „eftirsól“ inni á herbergjum þusti hópurinn í matsalinn þar sem í boði var steiktur fiskur og hrísgrjón og svo val á milli karrísósu, súrsætrar sósu og tómatsósu. Sú síðastnefnda kom nokkuð sterk inn.

BrennókeppninSíðan hófst kvölddagskráin. Hún byrjaði úti í íþróttahúsi á æsispennandi brennókeppni á milli hópanna. Hafmeyjarnar sigruðu eftir harða og ótrúlega skemmtilega keppni.

Þá var það draugaleikurinn ... úúúú. Börnin vita fullvel að þetta er leikur og eru ekkert hrædd, bara spennt. Ef einhver börn vilja ekki taka þátt í leiknum er þeim boðið inn í Framtíðina (bláa herbergið) og þar geta þau lesið og spjallað, bara eins og þau vilja.

Tvö börn úr hverjum hópi eru valin af hinum börnunum til að vera fulltrúar síns hóps og þurfa að búa yfir miklum hraða ásamt auðvitað smádassi af hugrekki. Eitt barn í einu hleypur frá dyrunum í matsalnum eftir gangi og inn í draugalegt herbergi þar sem draugaleg tónlist hljómar og reykvél gerir sitt til að magna stemmninguna. Það er að sjálfsögðu frekar skuggsýnt inni í herberginu, bara kveikt á nokkrum seríum.

Hraðinn skipti ölluÍ enda herbergisins er að finna fötu með köldu vatni og steini á botninum. Barnið þarf að ná í steininn og rétta umsjónarmanninum, eða þeim starfsmanni sem fylgir, og hlaupa síðan á ofsahraða út og sömu leið. Aðaldraugurinn var leikinn af Davíð umsjónarmanni og þær Dagbjört og Erla starfsmannabörn léku litlu draugana (og fannst það ekki leiðinlegt). Það var mikið skríkt og hlegið og auðvitað gargað. Fyndnu draugarnirHinar hugumstóru Hafmeyjar lönduðu öðrum sigri sínum sama kvöldið, enda eru svo sem hafmeyjar hugrakkar í ævintýrunum. Allir fengu að kíkja inn í draugaherbergið í lokin og fannst það æðislegt. Draugamyndavélin okkar neitaði að nota flassið og því eru myndirnar nokkuð draugalegar. Að sjálfsögðu.

Í kvöldkaffinu var boðið upp á safa og smurt brauð en börnin völdu sér uppáhaldsáleggið sitt og -safategundina fyrsta daginn þegar kynning á námskeiðunum og starfsfólki fór fram. 

TrampólínSvo var bara komið að háttatíma og kvöldsögu eftir ævintýraríkan dag, já og sólríkan ... þar sem var farið í stórfiskaleik og allt!

 

Myndamálin eru komin í lag, jesssss. Kíkið endilega á myndirnar, sjá hlekk hér að neðan: Tímabil 5, dagur 1 og dagur 2:

http://sumarbudir.is/sumarbudir/Myndir.html


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sumarbúðirnar Ævintýraland

Höfundur

Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðir með sérstöðu

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.2.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 91039

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • ...3_sapukulur
  • Æðisleg reiðnámskeið
  • Vinsæl leiklist
  • Úr bíómyndinni
  • Sykurpúðar grillaðir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband