6.7.2010 | 00:43
Flótti Þyrnirósar og fleiri ævintýri
Að vanda hófst dagurinn á góðum morgunverði og þar sem þetta var öðruvísi dagur þá voru námskeiðin haldin fyrir hádegi.
Ævintýra- og íþróttahópurinn fór í skemmtilega gönguferð og fannst heldur betur gaman að vaða svolítið í ævintýravatninu. Hópurinn er ekki alveg kominn með á hreint hvað á að gera á lokakvöldvökunni en börnin æfa ýmis hopp og stökk undir styrkri stjórn Geirs.
Kvikmyndagerðin er að búa til myndina Flóttinn en hún fjallar um Þyrnirós sem vaknaði áður en prinsinn kom og flýtti sér að flýja þar sem hún vildi ekki giftast prinsinum, heldur einhverjum öðrum. Tökur eru hafnar og mátti sjá skrautlegan hóp barna í búningum um útisvæðið. Spiderman, geimveru og fleiri verur.
Grímugerðarleikritið mun fjalla um sjóræningja, kisu og svo kanínur - ekki enn komið nafn á það en án efa ekki langt í það.
Danshópurinn æfir sleitulaust og dansinn sem verður sýndur hefur heldur ekki enn hlotið nafn. Allt kemur í ljós innan tíðar.
Í hádeginu var grjónagrautur og melónur í eftirrétt. Mikið borðað.
Síðan hófst hádegisfundurinn og enn eitt dularfulla bréfið var lesið fyrir börnin. Ekki var bréfunum fleygt í hausinn á umsjónarmönnunum til að vekja þá að þessu sinni, heldur fengu þeir kort sem sýndi þeim hvar bréfin leyndust. Efni bréfanna er leyndarmál, við fáum ekkert að vita.
Eftir fundinn var húlluhædagurinn formlega settur. Starfsfólkið var í búningum og stemmningin ótrúlega skemmtileg.
Blásið var til fánaleiksins góða en þar keppa tvö lið um fána og klemmur, þvílík spenna og mikið var hlaupið um allar koppagrundir. Þau börn sem vildu vera með fengu stríðsmálningu í andlitið, liðsmenn Draums fengu rauða og liðsmenn Martraðar bláa. Martröð sigraði að þessu sinni en eftir þvílíka baráttu ...
Útisvæðið var opið og einnig Spilaborg og nóg við að vera þar að vanda.
Svo var haldið í matsalinn en eitthvað hafði lyktarskynið sagt börnunum að von væri á góðu og jú, heldur betur! Það voru heitar vöfflur með SÚKKULAÐIGLASSÚR og rjóma eða sultu og rjóma ... eða bara sykri, barnanna var valið. Vöfflur með súkkulaði voru vinsælastar, enda eru þær ótrúlega góðar.
Eftir kaffi ríkti mikið fjör og heilmargt var í boði. Það var hægt að fara í skartgripagerð og búa til eitthvað glæsilegt á borð við hring, hálsmen, armband og slíkt. Einnig var tattúsmiðja, keilukeppni (Wii), bandfléttur í hárið og andlitsmálning og á útisvæði var m.a. sápukúlusprengikeppni, ógurlega spennandi. Eygló Anna (Höfrungur) sprengdi flestar sápukúlurnar að mati gervihnattar NASA sem dældi út úr sér þeim upplýsingum um að hún hefði náð 108 kúlum á einni mínútu. Geri aðrir betur!
Já, og svo var heil spákona inni í diskó- og draugaherberginu og hún vakti heilmikla lukku, enda bæði fyndin og dularfull. Hún kemur frá Borgarnesi og lítur út eins og hún hafi hoppað út úr Harry Potter-mynd. Hún heitir líka Jósefína Potter sem gæti bent til skyldleika. Svo hvarf hún bara eins og jörðin hefði gleypt hana. Einhverjir sögðu að þetta hefði bara verið hún Snæfríður en aðrir giskuðu á Ellen þangað til þeir sáu hana í skartgripagerðinni.
Tíminn stóð sko ekki í stað, heldur leið hratt og allt í einu var komið að kvöldmat ... grilluðum pylsum með tómat, sinnep og steiktum og því öllu og þá var nú kátt í höllinni.
Hátíðin var sannarlega ekki búin, heldur var blásið til bíósýningar þar sem í hléinu var boðið upp á popp og safa.
Eftir lestur framhaldssögunnar var gott að sofna eftir viðburðaríkan og skemmtilegan dag.
Bestu húllumhækveðjur héðan frá Kleppjárnsreykjum!
Og hér eru nokkrar myndir frá deginum:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/t4d4.html
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (26.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.