5.7.2010 | 00:12
Óvæntar lummur og diskóstuð
Dagurinn var viðburðaríkur og fullur af ævintýrum á meðan rigningin skemmti sér alein úti. Það var kertagerð og það var leikrit og diskótek, óvæntar lummur og fleira og fleira ... en tökum þetta í réttri röð.
Eftir morgunverðinn voru í boði: íþróttahúsið, Spilaborg, sund og kertagerð og einnig var karaókíæfing fyrir þátttakendur þar. Kertagerðin var algjört æði, heitt vax sem umsjónarmaður setti í bláskel, eina fyrir hvert barn sem setti síðan kveik í það og skreytti á ýmsan máta. Mjög flott kerti urðu til og svo að þau geti staðið sem flott skraut þegar heim verður komið voru límdir steinar neðan á þau.
Í hádegismatinn var kakósúpa með tvíbökum og ávextir í eftirmat. Ótrúlega gott og það var ekki vel borðað ... heldur MIKIÐ! Það er nú ekkert nýtt.
Á hádegisfundunum kom enn eitt dularfulla bréfið frá Jóni Sigurði, ég misritaði það óvart sem Jóni Sigurðar í annarri færslu.
Síðan var þotið á milli rigningardropanna beint í íþróttahúsið þar sem leiksýning fór fram og að þessu sinni voru börnin áhorfendur. Þau Ping og Pong gáfu góð ráð með hjálp vélarinnar Góðráð en Snæfríður var í vandræðum og þurfti hjálp. Hana vantaði ráð um það hvernig hún gæti tekist á við einelti sem hún varð fyrir. Hún fékk þessi líka fínu ráð. (myndir úr leikritinu hér að ofan)
Svo tóku Sing og Song við en þau eru vægast mjög ólík og tókust virkilega mikið á varðandi aðstæður sem Snæfríður lenti í. Song ráðlagði henni t.d. að adda öllum á Facebook eða MSN en Sing var ekki sammála. Þegar ókunnur maður reyndi að lokka Snæfríði upp í bílinn sinn með því að þykjast þurfa hjálp með nýfædda, móðurlausa hvolpa sagði Sing að hún ætti að ráðleggja manninum að leita til einhvers í eigin fjölskyldu, ekki ókunnrar stelpu. Song var mjög hneykslaður og sagði að krakkar ættu alltaf að fara upp í bíl með ókunnugum. Þá sprakk salurinn úr hlátri og allir voru algjörlega ósammála Song. Davíð lék hinn ruglaða Song og María Sing, Snæfríður lék Snæfríði.
Eftir leiksýninguna var spjall og nokkur börn sögðust hafa lent í einelti og ætluðu að prófa góðu ráðin frá vélinni, t.d. láta sem maður sjái ekki krakkana sem stríða og tala bara við hina. Börnunum fannst rétt að skipta sér af því ef þau yrðu vör við að einhver yrði fyrir einelti til að reyna að stoppa það og bjóða barninu sem lendir í þessu að vera með í leik. Börnin ákváðu að galdurinn væri að standa betur saman!
Reiðnámskeiðs-börnin fóru eftir hin námskeiðin til Guðrúnar Fjeldsted reiðkennara og fóru á hestbak. Þau fengu gott nesti með, samloku, ávexti og safa.
Útisvæðið (já, það var hætt að rigna) var opið og einnig Spilaborg.
Í kaffinu bauð dásamlega eldhúsliðið upp á heitar lummur með sykri, ásamt sumarbúða-sandkökunni og ávöxtum. Ef þessi börn væru kettlingar hefðu þau sennilega malað af ánægju.
Skömmu fyrir kvöldmat fóru börnin inn á herbergin og skiptu um föt fyrir dansiballið, eða diskóið, sem átti að vera eftir mat.
Í matinn voru pítsur og alveg svakalega góðar. Nú heyrðist malið greinilega ... hahaha
Svo hófst fjörugt diskóið en Davíð sat við græjurnar og spilaði hvert flotta lagið á fætur öðru.
Reykvélin hafði nóg að gera við að auka á stemminguna og diskóljósin líka.
Fleira var í boði þannig að það var gaman að fara á milli. Þannig að þegar búið var að dansa af sér skóna var frekar snjallt að bregða sér fram og fá tattú eða bandfléttur í hár ... eða bæði.
Ávextir voru í boði í kvöldkaffinu og síðan var það bara draumalandið eftir framhaldssöguna góðu. Þau eru alltaf flest sofnuð áður en umsjónarmaðurinn fer af vaktinni og þau sem enn vaka lesa bók þangað til þreytan segir til sín eftir smástund.
Allra bestu stuð- og diskókveðjur frá Kleppjárnsreykum.
P.s. Myndir dagsins:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/t4d3.html
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 91039
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.