4.7.2010 | 13:59
Dularfullu bréfin, flott hár og skríkt yfir „draugum“
Dagur tvö hófst með morgunverði af hlaðborði þar sem boðið var upp á súrmjólk, kornflakes, ristað brauð með osti og marmelaði og hafragraut. Sumir völdu sér eitthvað eitt uppáhalds og aðrir vildu smakka allt en allir urðu vel saddir, sem var eins gott því heilmargt var fram undan. Eins gott að hafa næga orku til að takast á við ævintýri dagsins.
Steikjandi sól og hiti var úti og þær stöðvar sem voru opnar voru útisvæðið, sundlaugin og íþróttahúsið. Fyrsta karaókíæfingin fór líka fram en næstsíðasta kvöldið er haldin hæfileikakeppni sem kallast Ævintýrabarkinn og er sungið, dansað, sagðir brandarar og hvaðeina. Þau börn sem skráðu sig völdu sér lag til að syngja eða annað og svo var ráðist í fyrstu æfinguna.
Hluti barnanna var á útisvæði, aðrir þustu í sund og heita pottinn og einnig í íþróttahúsið ... nánast til að kæla sig frá hitamollunni úti.
Í hádeginu var núðlusúpa og smurt brauð með eggjum og kæfu.
Strax á eftir hófst hádegisfundur hvers hóps með umsjónarmanninum sínum. Sitt af hverju er tekið fyrir á þessum fundum, tekinn púlsinn á líðaninni, sagt frá dagskrá dagsins og farið í leiki. Fundirnir þjappa hópunum mjög vel saman. Umsjónarmennirnir höfðu undarlegar fréttir að færa. Þeir höfðu verið vaktir á mjög svo undarlegan máta um morguninn, bréfi var fleygt í andlitið á þeim og þegar þeir opnuðu augun var bréfberinn horfinn. Í bréfunum voru mikilvæg skilaboð til barnanna og að framhald kæmi næsta dag. Fram að þessu hefur verið mjög erfitt að fá að vita nokkuð um innihald bréfanna sem voru skrifuð af einhverjum Jóni Sigurðar sem sagði að skilaboðin skiptu máli fyrir alla ... allt lífið. Börnin vildu lítið segja okkur þannig að þetta helst líklega sem leyndardómur sumarsins fyrir alla aðra en börnin og umsjónarmennina, já og bréfritarann. Hmmm! Og þá var haldið á námskeiðin.
Kvikmyndagerðarhópurinn semur nú handrit á fullu fyrir stuttmyndina og svo þarf að finna búninga í búningasafninu. Tökur hefjast fljótlega. Stuttmyndin verður svo sýnd á lokakvöldvökunni síðasta kvöldið.
Danshópurinn æfði í dansherberginu en hann mun sýna einhverja frábæra snilld á sömu sýningu. Þessi hópur er alltaf mjög vinsæll af stelpunum sem finnst greinilega þónokkuð miklu skemmtilegra að dansa en strákunum.
Leiklistar- og grímugerðarnámskeiðin voru sameinuð en það hefur sannarlega slegið í gegn hjá okkur í sumar. Þá gera börnin grímur og ýmis listaverk og sýna svo kannski látbragðsleikrit eftir eigin handriti. Grímurnar eru þá gerðar eftir efni leikritsins. Það kemur fljótlega í ljós hvað þau kjósa að gera.
Íþróttaævintýri-hópurinn var svo á fullu við að gera skemmtilega og ævintýraríka hluti!
Í kaffinu var boðið upp á skúffuköku og melónur.
Síðan voru stöðvar opnar. Útisvæði, íþróttahús og innan dyra fór fram hárgreiðslukeppni. Hárgreiðslukeppnin er alltaf mjög vinsæl og þykir vera stór hluti af samkvæmislífi Ævintýralands! Að vanda voru stelpurnar hrifnari af henni en tveir strákar tóku þó þátt.
Allir þátttakendur fá viðurkenningarskjöl en dómnefndar beið erfitt hlutverk ... að velja þrjár bestu hárgreiðslurnar og þá frumlegustu en smá verðlaun eru veitt fyrir. Það tókst loksins, sjúkkitt! Myndir frá keppninni og af öllum flottu greiðslunum eru á heimasíðunni, sumarbudir.is, sjá neðar.
Í fyrsta sæti varð Magdalena og módel hennar var Þórunn Birna.
Í öðru sæti varð Erla Svanlaug með módelið Hrafnkötlu Líf.
Í þriðja sæti varð Elín Birta og módel hennar var Katrín.
Frumlegasta greiðslan var eftir Söru Sif en módel hennar var Snæfríður Ebba.
Þetta var afar skemmtilegt síðdegi og mikið verið úti þrátt fyrir eina og eina hárgreiðslukeppni í smástund ... og mikið fór af sólaráburði, eftirsól (after sun) og slíku.
Í kvöldmat var steiktur fiskur með hrísgrjónum og hægt að velja á milli súrsætrar sósu og karrísósu. Þeir sem gátu ekki valið á milli fengu sér bara smávegis af hvorri.
Síðan hófst kvölddagskráin ... á æsispennandi brennókeppni milli hópa sem var haldin í íþróttahúsinu og lauk með sigri Höfrunga.
Þá var það draugaleikurinn ... úúúú ... og ríkti mikill spenningur. Búið var að velja tvo úr hverjum hópi til að takast á við eldraunina og hljóp einn í einu inn í sérlega dularfullt og hrollvekjandi herbergi þar sem hávær og draugaleg tónlist hljómaði. Ekki gerði reykvélin þetta neitt auðveldara og hvað þá draugarnirsem reyndu að tefja börnin frá ætlunarverkinu sem var að hlaupa inn í enda herbergisins, fara með aðra höndina ofan í kalt og draugalegt vatn í fötu og sækja þangað stein til að rétta umsjónarmanninum (sem fylgdi með til verndar) Svo þurfti að hlaupa á einum spretti út aftur. Tíminn skipti öllu máli.
Höfrungahópurinn, sem er skipaður bæði stelpum og strákum, sigraði aftur en átti í mjög harðri keppni við hina hópana. Síðan máttu öll börnin prófa að fara inn í þetta sannkallaða hryllingsherbergi og mikið var skríkt. Það kom svo í ljós að aðaldraugurinn var hann Geir umsjónarmaður og hún Dagbjört, dóttir hennar Sigurjónu matráðskonu, var aðstoðardraugurinn. Þetta var frábær leikur!
Í kvöldkaffinu var boðið upp á brauð og safa. Síðan var háttað, burstað og hlustað á framhaldssöguna fyrir svefninn. Hvað skyldi nú bíða barnanna næsta dag? Það kemur í ljós í næstu bloggfærslu.
Bestu drauga-, hárgreiðslu- og sólarkveðjur frá Kleppjárnsreykjum.
P.s. Nýjustu myndirnar eru hérna:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/t4d2.html
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 91039
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.