30.6.2010 | 12:04
Gullpeningar og glæstir „barkar“
Dagur fimm rann upp ... bara ótrúlegt hvað tíminn hefur verið fljótur að líða. Bæði börn og starfsfólk skilja ekkert í þessu.
Eftir morgunverð af hlaðborðinu góða var farið í íþróttahúsið, útisvæðið, á karaókíæfingu (hæfileikakeppnin að skella á) og svo drifu sig margir út í sundlaug til að fara í sturtu. Spilaborgin var opnuð og einhverjir voru líka inni í herbergjum að leika og spjalla.
Í hádeginu var boðið upp á pasta og hvítlauksbrauð og mikið borðað að vanda. Strax á eftir voru hádegisfundirnir með umsjónarmönnunum. Leyndinni var létt af furðubréfunum sem umsjónarmennirnir höfðu fengið undanfarna morgna. Börnin fengu gullpening, ég legg ekki meira á ykkur. Við heyrðum því reyndar fleygt að þetta hefði verið súkkulaðipeningur með gullpappír utan um en það var a.m.k. mikil ánægja með gullið ...
Námskeiðin voru í gangi milli kl. 14 og 16 og allt í sómanum þar að vanda, mikill undirbúningur fyrir stóra kvöldið, sjálfa lokakvöldvökuna.
Í kaffinu var sumarbúðasandkaka, tekex með marmelaði, melónur og restin af vöfflunum.
Reiðnámskeiðsbörnin fóru til hestanna sinna skömmu fyrir kaffi með nesti og nýja skó og þegar þau komu til baka rétt fyrir kvöldmat skiptu þau um föt, eins og hin börnin þar sem Ævintýrabarkinn var fram undan.
Spilaborg var opin seinnipartinn og útisvæðið, einnig voru börnin inni á herbergjum, þau sem vildu, það er alltaf voða sport líka.
Í kvöldmat var ofboðslega góður fiskur með kartöflum, smjöri og tómatsósu og ótrúlega gaman að stappa í flott listaverk sem brögðuðust svoooo vel.
Svo var það bara Ævintýrabarkinn sjálfur, fyrstu myndirnar þaðan hér fyrir ofan:
Mikil stemmning ríkti í íþróttahúsinu, áhorfendur voru spenntir og keppendur líklega enn spenntari. Atriðin voru hvert öðru glæsilegra og mikið lagt í þau. Miklar stjörnur hér á ferð, bæði söngvarar, dansarar, hoppaígegnumgjörð-, boltahaldararmeðnefinu- og klappasamanmeðannarri-snillingar.
Kharl Anton sem sýndi trylltan Michel Jackson-dans með miklum tilþrifum og við mikinn fögnuð áhorfenda. Hann dansaði sig í fyrsta sætið.
Erla Svanlaug söng og dansaði frumsaminn dans, ásamt Önnu Helgu, Katrínu og Sólbrá Birtu sem einnig sungu bakraddir. Hún tók lagið Tip Top skinka og annað sætið varð þeirra.
Elísa Líf söng lagið Apricot Stone og dansarar með henni voru Fanndís og Ragnheiður Helga en þær tóku þriðja sætið.
Aðrir keppendur sýndu líka mikla snilld:
Davíð Þór hélt á bolta með nefinu og Guðmundur Jökull klappaði með annarri hönd.
Kristbjörn Elías og Pétur Lárus sýndu stórkostlegt sirkusatriði, hoppuðu í gegnum húllahring á mörgum hæðarstigum.
Hugrún Ósk söng lagið Satelite og dansarar með henni voru Ásdís María og Helga Dögg.
Ragnheiður Dóra söng Playing with fire og dansarar voru Kristín Sesselja og Harpa.
Öll börnin fengu viðurkenningarskjöl fyrir þátttökuna og fyrir efstu þrjú sætin voru veitt verðlaun.
Þá var það bara hjartans besta kvöldkaffið, brauð og safi, framhaldssagan góða og síðan draumalandið.
Síðasti heili dagurinn fram undan, lokakvöldvakan, hátíðarkvöldverður, stutt í heimferð ... bara allur pakkinn.
Við sendum okkar allra bestu Ævintýrabarkakveðjur frá Kleppjárnsreykjum.
P.s. Myndir frá degi 5: http://sumarbudir.is/sumarbudir/t3d5.html
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 91039
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Gaman að sjá að það er mikið fjör og mikið gaman! :o) Bið að heilsa Ragnheiði Helgu og Fanndísi :)
Kv. Aldís mamma Ragnheiðar Helgu
Aldís (IP-tala skráð) 30.6.2010 kl. 18:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.