Mikið hlegið á frábæru lokakvöldi

ÆvintýralandFlottar grímurLokadagurinn rann upp bjartur og fagur og allir hlökkuðu brjálæðislega til kvöldsins en að vanda var byrjað á því að vakna, bursta tennur, hlæja, klæða sig, fara í morgunmat og borða vel af hlaðborðinu.

 

Námskeiðin voru haldin fyrir hádegi þar sem þetta var dagur hinna miklu æfinga og næstsíðasta höndin lögð á sitt af hverju og sú síðasta á sumt. Danshópurinn flotti æfði í íþróttahúsinu þar sem sýningin átti að fara fram, enda dugði ekkert minna en heilt risastórt íþróttahús fyrir skvísurnar. Í hverju skoti voru spenntir krakkar við undirbúning.

 

Í hádegismat var skyr og einnig smurt brauð og svo var farið í að pakka niður, enda heimferðin næsta dag.

 

GönguferðHjálparhellan GeirÞá voru það bara námskeiðin aftur, svona loka-, loka-, lokaundirbúningur sem gekk frábærlega vel. Allra síðustu breytingar voru gerðar og allt fínpússað.

 

 

Hluti barnanna fór síðan í góða gönguferð og hafði mikla ánægju af því að fá að vaða, þvílík sæla. Sumir vildu ekki vökna í fæturna (sjá mynd til hægri) á meðan aðrir fóru hreinlega á bólakaf (sjá fleiri myndir á heimasíðu). Svo var hægt að liggja í vatninu og sóla sig. Veðrið lék alveg við okkur.

 

AfmælisbarniðÍ kaffitímanum var haldið upp á 11 ára afmæli Stefáns Inga. Allir fengu afmælistertusneið, afmælisbarnið fékk skreytta sneið með kerti á, afmælispakka og afmæliskort og svo sungu allir afmælissönginn. Alltaf rosagaman að eiga afmæli í sumarbúðunum. Svo voru líka melónur á boðstólum og tekex með appelsínumarmelaðinu góða a la Sigurjóna.

Eftir kaffi fór hluti hópsins í ruslatínslu - þátttakan var góð og á eftir sást varla laufblað sem ekki var fast við tré allt í kringum sumarbúðirnar svo fínt varð allt og vel sópað. Allir sem höfðu tekið þátt fengu að velja sér litla gjöf, smá þakklætisvott frá sumarbúðunum úr sérstökum ruslatínslu-verðlaunakassa.

Útisvæðið var mjög vinsælt, enda veðrið til að hrópa ferfalt húrra yfir og einhver hluti hópsins fór í íþróttahúsið.

Skömmu fyrir kvöldmat héldu börnin til salarkynna (herbergja) sinna og skiptu um föt fyrir kvöldið, allir vildu vera í sínu fínasta pússi þegar hátíðarkvöldverðurinn var snæddur ... fyrir hátíðarkvöldvökuna sem hafði verið stefnt að frá degi eitt ...

HátíðarkvöldverðurinnÁnægjan yfir kvöldverðinum var mikil, enda ekki amalegt að fá hamborgara, franskar, sósu og gos til að skola dýrðinni niður.

Kvölddagskráin hófst með skotbolta íþróttahópsins sem kom blóðinu aldeilis á hreyfingu hjá börnunum.

DanssýninginSíðan sýndi danshópurinn flottan dans. Stelpurnar máttu sannarlega vera hreyknar af frammistöðunni. Þær voru svo yndislegar að endurtaka dansinn fyrir starfsfólk eldhússins sem missti af atriðinu þeirra vegna yfirgengilegs dugnaðar við að gera allt hreint og fínt eftir veislumatinn.

 

ÆvintýrasirkusinnHið sameinaða námskeið grímugerð og leiklist flutti  leikrit sem heitir Ævintýrasirkusinn. Það fjallar um fjórar stelpur sem þrá heitast af öllu að verða frægar dansstjörnur. Þær sjá auglýsingu þar sem auglýst er eftir dönsurum í sirkus og sækja um. Allt er í uppnámi í sirkusinum því einu ljóninu hafði verið rænt þaðan. Sirkusstjórinn segir að það verði enginn sirkus meira nema ljónið finnist. Stelpurnar eru svo klárar að þær finna ljónið að lokum og fá vinnuna! Leikritið uppskar mikið lófatak og fagnaðarlæti, enda stórskemmtilegt.

Öskubuska og prinsinnStarfsfólkið sýndi síðan eitt af sínum „skrítnu“ leikritum. Það fær ekki að vita hvaða leikrit verður á dagskrá fyrr en á síðustu stundu og dregur miða úr hatti til að fá að vita hvaða hlutverk það eigi að leika. Það finnst börnunum alltaf ótrúlega fyndið. Núna var það Öskubuska. María lék prinsinn og Geir Öskubusku, Ellen vondu stjúpuna og Davíð og Heiða dætur hennar. Svo voru fuglar, mýs, kisa, grasker, hirðsveinn ... Þetta var hrikalega fyndið og tárin í augum sumra barnanna (og matráðskonunnar) stöfuðu af hlátri, ekki vonbrigðum með  leiklistarhæfileika starfsmannanna. Hahaha.

KvikmyndagerðarsýninginLokaatriðið var sýning stuttmyndarinnar Þú getur skráð þig inn en þú getur ekki skráð þig út! Hún fjallar um dularfullt hvarf hótelgesta sem hafa skráð sig á hættulegt hótel. Mjög spennandi og skemmtileg mynd. Börnin sömdu handritið, skipuðu í hlutverk, fundu búninga og léku svo eins og þau hefðu ekki gert neitt annað. Sama má segja um leiklistar- og grímugerðarhópinn.

Ævintýrasirkusinn auglýsingÁvextir voru borðaðir í síðasta kvöldkaffitíma þessa tímabils og einnig frostpinni. Svo var bara farið í háttinn og allir hlökkuðu til að koma heim eftir skemmtilegan tíma í sumarbúðunum.

Við þökkum kærlega fyrir skemmtilega viku og sendum okkar allra bestu kveðjur frá Kleppjárnsreykjum!

Myndir frá lokakvöldvökunni og öðrum atburðum dagsins eru hérna: http://sumarbudir.is/sumarbudir/t2d6.html

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sumarbúðirnar Ævintýraland

Höfundur

Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðir með sérstöðu

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.2.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 91039

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • ...3_sapukulur
  • Æðisleg reiðnámskeið
  • Vinsæl leiklist
  • Úr bíómyndinni
  • Sykurpúðar grillaðir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband