16.6.2010 | 17:26
Frábær vika - takk fyrir okkur
Tíminn líður svo hratt og allt í einu var komið að lokadeginum, eða deginum sem lokakvöldvakan var, sem öll vinna námskeiðanna hafði snúist um frá byrjun.
Eftir morgunverðarhlaðborðið góða var farið á æfingar fyrir kvöldið.
Danshópurinn æfði á fullu í íþróttahúsinu og stelpurnar í honum höfðu gert sér mjög skemmtilega búninga ... úr ruslapokum, enda hét dansinn Rusladansinn. Bara snilld.
Síðustu tökur hjá kvikmyndagerðinni fóru fram og grímugerðar- og listasmiðjuhóparnir fíniseruðu sína sköpun.
Í hádeginu var boðið upp á skyr og brauð og það var sko vinsælt. Eftir matinn fóru börnin í það að pakka niður þar sem brottför var daginn eftir (í dag). Eftir að hafa raðað eins flott og mögulegt var í töskurnar var loka-, loka-, lokaundirbúningur námskeiðanna.
Í kaffinu var haldið upp á níu ára afmæli Þorvaldar Mána sem fékk sérskreytta kökusneið, afmælisgjöf og svo var afmælissöngurinn sunginn. Allir fengu að sjálfsögðu köku líka ... og melónur og tekex með heimalagaða marmelaðinu hennar Sigurjónu listakokks.
Á síðasta heila deginum í sumarbúðunum er óskað eftir sjálfboðaliðum í ruslatínslu. Þá fara börnin allt í kringum Ævintýraland og tína allt það rusl sem þau sjá, sópa stéttina og gera allt umhverfið fínt. Yfir 90% barnanna bauð sig fram, börnin þutu um allt með ruslapoka og tíndu og á örskotsstundu var orðið rosalega snyrtilegt í kringum okkur. Verðlaunakassinn fyrir ruslatínslu var tekinn fram og hvert og eitt barn mátti velja sér eitthvað úr honum fyrir dugnaðinn.
Þá var farið í leiki í íþróttahúsinu, Spilaborg og útisvæði, bara eftir vali hvers og eins. Í Spilaborg er heill hellingur af skemmtilegu dóti og bókum, borðtennis, pool og slíkt, leiktæki á útisvæðinu og fullt af spennandi hlutum í íþróttahúsinu.
Rétt fyrir kvöldmat skiptu börnin um föt og héldu í matsalinn þar sem sannkölluð veislumáltíð var; hamborgarar, franskar, sósa og salat og gos með.
Þegar allir voru orðnir pakksaddir og sælir var skoðuð glæsileg myndlistasýning þar sem sköpunarverk listasmiðju og grímugerðar lá frammi.
Íþróttahópurinn var með fjöruga og spennandi brennókeppni milli stelpna og stráka - og stelpurnar unnu.
Danshópurinn sýndi síðan Rusladansinn og það mætti halda að þær hefðu æft þetta í margar vikur, þetta var svo flott hjá þeim.
Sú venja hefur skapast á lokakvöldvökunni að starfsfólkið er pínt svolítið ... það þarf að leika leikrit fyrir börnin og fær ekkert að vita hvaða leikrit fyrr en á allra síðustu stundu. Það dregur miða úr hatti til að vita hvaða persónu það eigi að leika. Í þetta skiptið var leikritið Mjallhvít og dvergarnir sjö sýnt við mikla gleði barnanna. Starfsfólkið (og stálpuð starfsmannabörn) fóru svo sem létt með þetta en mikið var Davíð fyndin Mjallhvít og dvergarnir líka alveg dásamlegir. Ellen var í hlutverki talandi spegils vondu drottningarinnar og svo framvegis.
Í kvöldkaffinu var boðið upp á ávexti og frostpinna og svo var bara komið að lokalestri kvöldsögunnar. Þessi frábæri og góði hópur sofnaði vel og svaf vært eins og önnur kvöld og sömu rólegheitin ríktu hjá næturverðinum.
Við þökkum kærlega fyrir frábæra og stórskemmtilega viku, sendum okkar bestu kveðjur frá Kleppjárnsreykjum og búum okkur undir komu næsta káta hóps.
Myndir frá lokakvöldvökunni og fleira eru hér: http://sumarbudir.is/sumarbudir/t1d6.html
P.s. Myndirnar stækka ef klikkað er á þær og enn meira ef klikkað er aftur.
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 91039
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.