15.6.2010 | 20:49
Dagur hinna miklu hæfileika ... og sturtuferða
Nú verður sagt frá degi hinna miklu hæfileika ... og sturtuferða og fleiri atburða auðvitað.
Dagurinn hófst á hlaðborðinu góða, val um kornflakes, hafragraut, súrmjólk, ristað brauð og fullt af áleggi, m.a. osti, mysingi og heimalöguðu marmelaði sem er brjálæðislega gott. Sumir fá sér nú bara sitt lítið af hverju og líkar fjölbreytnin vel, enda getur maður bara fengið sér allt ef erfitt er að velja á milli! Ekki málið.
Þau börn sem höfðu ekki verið á trilljón í sundlauginni skelltu sér í sturtu því stórt kvöld var fram undan, sjálf Söng- og hæfileikakeppnin Ævintýrabarkinn sem þó einskorðast ekki bara við söng ... þótt við köllum æfingaferlið alltaf karaókíæfingar, það er síðan í eldgamla daga þegar þetta var bara söngvarakeppni.
Okkur hafði borist njósn af því að nokkur stórkostleg atriði væru í fæðingu, m.a. dans og svo auðvitað söngurinn. En ... allir vildu vera hreinir og fínir fyrir stóra kvöldið. Hinir ögn hreinni höfðu skellt sér út í íþróttahús til að ærslast en engan langaði verulega mikið til að vera úti þar sem lognið ferðaðist hratt um og með smárigningu líka.
Spilaborg var opin og einnig herbergin og útisvæðið þótt fáir notfærðu sér að leika sér þar.
Svo kom hádegismaturinn, mjög góður pastaréttur með hvítlauksbrauði, nammi, namm!
Á hádegisfundinum kom síðasta bréfið og sum börnin sýndu okkur gullpening sem þau höfðu fengið, sum sögðu þetta vera alvörugull en önnur töldu þetta vera súkkulaðipening með gullpappír utan um. En hvað þetta þýddi allt saman fáum við eflaust ekki að vita fyrr en í sumarlok en skemmtilegt leyndarmál var þetta.
Frá kl. 14-16 voru námskeiðin, alltaf sama leyndarmálið hvað er í bígerð hjá hverjum hópi og sama hvað við reyndum að grafast fyrir um handrit grímugerðar, myndlistasýninguna, dansinn og það allt fengum við bara bros og ... grafarþögn. Hmmm. Við verðum víst að bíða fram að lokakvöldvökunni þar sem allt verður opinberað.
Eftir kaffitímann, sandköku, smáafgang af vöfflum, tekex með marmelaðinu guðdómlega og melónur á eftir, var sitt af hverju í boði, börnin dunduðu sér í borðtennis, pool-i, púsluðu, spiluðu og hvaðeina, já, og sprelluðu í íþróttahúsinu í smástund. Þá var gott að geta dottið ofan í góða bók á eftir en nokkur komu lafmóð þaðan og skelltu sér í lesturinn. Veðrið var enn ekkert til að hrópa húrra yfir og engan langaði út að þessu sinni. Dagurinn á undan hafði verið flottur útivistardagur, í húllumhæinu.
Reiðnámskeiðsbörnin nutu sín heldur betur í dag og riðu um fögur héruð á flottu fákunum hennar Guðrúnar Fjeldsted reiðkennara. Sjá myndir hér ofar. Þau komu heim á lúxushótelrétt fyrir kvöldmat, alsæl og náðu með naumindum að skipta um föt áður en kvöldmaturinn skall á í allri sinni dýrð. Fiskur, kartöflur, smjör og tómatsósa, slurrrp, bara dásamlegt!
Svo hófst sjálfur Ævintýrabarkinn - söng- og hæfileikakeppnin sem haldin er í hverri viku og er alltaf jafnspennandi og skemmtileg. Ekkert smá sem til er af vel syngjandi og dansandi börnum hér á landi ...
Þær Álfheiður Inga, Helena Líf og Svana Björk sýndu frumsaminn dans, Kjartan Freyr sýndi breikdans, Margrét Fríða söng Nylon-lagið Sumarylur (held að það heiti það), Þorvaldur Máni dansaði, Unnur Lilja söng Casada-bad boy og Fannar Óli söng Láttu mig vera, Naglbítalagið sjálft.
Þetta voru einstaklega flott atriði og fagnaðarlátunum ætlaði aldrei að linna. Dómnefndar beið heldur erfitt verk, eða að velja þrjú bestu atriðin sem fengju verðlaun. Það munaði bara örfáum stigum á þessum frábæru keppendum.
Allir þátttakendur fengu viðurkenningarskjöl og svo var talið niður með trommuslætti ...
Þriðja sætið (tromm ... ): Álfheiður Inga, Helena Líf og Svana Björk - HÚRRRRA!
Annað sætið (tromm ...): Breikarinn ógurlegi, Kjartan Freyr - HÚRRRRA!
Fyrsta sætið (brjálað tromm ...): Unnur Lilja - HÚRRRA!
Eftir þennan velheppnaða Ævintýrabarka var haldið í kvöldkaffi, brauð og safa, og svo var farið í að hátta, bursta og hlusta á kvöldsöguna sem umsjónarmaðurinn las, hver umsjónarmaður fyrir sinn hóp.
Þetta var FRÁBÆR dagur!
Okkar allra, allra bestu stuðkveðjur frá Kleppjárnsreykjum!!!
P.s. Nýjar myndir eru komnar hér:http://sumarbudir.is/sumarbudir/t1d5.html
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 91039
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.