14.6.2010 | 20:37
Jón Gnarr og ísbjörninn sem hvarf ...
Námskeiðin voru haldin fyrir hádegi í gær vegna þess að það var HÚLLUMHÆDAGUR, snilldardagur frá upphafi til enda með frábærri 17. júní-stemmingu.
Allt gekk mjög vel um morguninn, börnin vinna og vinna á námskeiðunum og skapa og skapa flotta hluti, hvort sem er í grímugerð, listasmiðju, dansi eða íþróttum. Okkur tókst að njósna um hvað stuttmyndin fjallar um. Hún er um Jón Gnarr borgarstjóra sem kaupir ísbjörn af Fríðu og dýrinu en þau rífast stöðugt, Fríða og dýrið sko. Ísbirninum er rænt á leiðinni til borgarstjórans af draugum, geimverum eða skrímslum (það er ekki alveg komið á hreint). Jón Gnarr kemur með tilkynningu í sjónvarpinu þar sem hann býður þeim sem finnur ísbjörninn 50 milljónir króna ... og allir fara að leita bjarnarins, þar á meðal Súper Maríó, Diskóstrákurinn, api, sjóræningi og trúður. Þau börn úr hópnum sem ekki voru í upptökum í dag skruppu í íþróttahúsið og skemmtu sér konunglega. Það tekur á að þurfa að bíða, allar kvikmyndastjörnur kannast við það. Börnin komu öll með hugmyndir og handritið var unnið upp úr þeim. Við reynum svo að njósna betur um hin námskeiðin og hvað er í gangi þar.
Í hádeginu bauð lúxuskokkurinn upp á æðislega góðan grjónagraut og svo voru melónur í eftirrétt. Hádegisfundur var haldinn að vanda hjá hverjum hópi og enn eitt dularfulla bréfið með mikilvægum skilaboðum barst þangað. Börnin neita að gefa nokkuð upp um efni bréfanna og segja það vera algjört leyndarmál.
Húllumhædagurinn var síðan settur með pomp og prakt eftir hádegisfundina og fyrsta atriði dagsins var ... fánaleikurinn skemmtilegi. Börnunum var skipt í tvo hópa, Draum og Martröð, sem börðust um þvottaklemmur. Draumsliðið fékk rauða stríðsmálningu á kinnarnar en Martröð bláa. Svo var barist ... Sitthvað fleira var um að vera fyrir kaffi á útisvæði og í Spilaborg.
Í kaffinu fengu börnin nýbakaðar vöfflur og fannst þeim síður en svo amalegt að fá súkkulaðiglassúr undir rjómann, ja, eða sultu.
Eftir kaffið var ótalmargt í gangi og hægt að fara í andlitsmálun, keilukeppni (Wii), fá bandfléttur, gera vinabönd, vera á útisvæði þar sem m.a. æsispennandi sápukúlusprengikeppni fór fram.Á myndinni hér til hægri má sjá einn þátttakandann sprengja nokkrar.
Svana Björk Steinarsdóttir (úr Hafmeyjum) gerði sér lítið fyrir og sprengdi flestar sápukúlurnar. Sérstakir dómarar fylgdust með og töldu vandlega hverja sprengda sápukúlu ...
Skartgripagerðin sló í gegn, enda hver vill ekki búa til flottan hring handa mömmu eða hálsfesti handa pabba?
Jósefína Potter spákona úr Borgarnesi mætti á svæðið og svaraði einni spurningu frá hverju barni sem vildi fara til hennar. Hún var nú vinsæl, enda lítur hún út eins og töfrakonurnar í Harry Potter! Að vanda fylltust einhver börn grunsemdum og voru viss um að starfsmaður væri í gervi spákonunnar en ekkert var gefið upp um það. Eins og við færum í svona galdrabúning ...
Svo var það kvöldmaturinn og enn og aftur setti Sigurjóna skvísumet í að bjóða upp á góðan mat. Nú voru grillaðar pylsur í matinn, með tómatsósu, sinnepi, steiktum og bara öllu því sem maður býður upp á með góðum pylsum.
Eftir matinn var bíókvöld og í hléinu var að sjálfsögðu hægt að fá heimapoppað popp - hvað annað. Og safa til að skola því niður.
Þá var bara kvöldsagan/framhaldssagan hjá hverjum hópi og svo tók draumalandið við.
Bestu húllumhækveðjur frá Kleppjárnsreykjum!!!
P.s. Nýjar myndir eru komnar inn á vefsíðuna okkar, sumarbudir.is, hér er bein slóð: http://sumarbudir.is/sumarbudir/t1d4.html
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 91039
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Gaman að sjá hvað það er mikið að gera hjá krökkunum aldrei dauður tími.
Sniðugt að hafa svona blogg, þar sem hægt er að sjá myndir af barninu sínu skælbrosandi af ánægju.
Bið að heilsa Margréti Fríðu og hlakka til að hitta hana á morgun
Jóna Rut (IP-tala skráð) 15.6.2010 kl. 11:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.