13.6.2010 | 14:06
Enn eitt dularfulla bréfið ...
Eftir vakn á þriðja degi, burst og snyrt var haldið í matsalinn þar sem hlaðborðið beið með góðri næringaráfyllingu fyrir morguninn. Síðan var heilmargt um að vera og hægt að velja um að fara í íþróttahúsið, sundlaugina, vera á útisvæði, í Spilaborg eða fara í kertagerð. Svo fóru þau börn sem taka þátt í karaókí, eða Ævintýrabarkanum, á æfingu. Það styttist óðum í hæfileikakeppna góðu.
Kertagerðin er alltaf mjög vinsæl þegar boðið er upp á hana en þá bræðir hún Heiða vax sem varlega er sett ofan í skel. Þegar vaxið fer að kólna, sem gerir nú frekar hratt, þá er hægt að skreyta með ýmsu, m.a. glimmeri. Börnin eru afar skapandi og nutu sín heldur betur vel í að gera flott kerti.
Í hádegismat var núðlusúpa og smurt brauð með m.a. eggjum og kæfu. Börnin tóku vel til matar síns að vanda.
Eftir matinn var það hádegisfundurinn með umsjónarmanninum. Annað dularfullt bréf barst með loforði um meira á morgun ... Hvað ætli sé í gangi?
Þá var komið að leiksýningunni um Sing og Song. Heiða og Dagbjört léku börn sem lentu í hinum ýmsu aðstæðum og sögðu Sing og Song álit sitt á því. Sing var þessi uppbyggjandi og bjartsýni en Song með eilífar úrtölur. Þegar t.d. Heiða var viss um að hún gæti ekkert tók Song algjörlega undir það ... ormurinn.
Tekið var á mörgum málum, eins og því að stela eða ekki stela, adda öllum á MSN eða feisbúkk eða bara þeim sem maður þekkir. Hafa trú á sér, ekki hugsa að maður geti ekki hlutina og ekki fara upp í bíl með ókunnugum. Davíð lék Song og Apríl lék Sing. Leikritið vakti mikla lukku, enda bráðfyndið þótt undirtónninn sé alvarlegur.
Reiðnámskeið var í dag og tóku reiðnámskeiðsbörnin með sér gott nesti; samloku, skúffuköku, ávexti og safa.
Námskeiðin gengu vel og það er að koma góð mynd á það sem verður í boði á lokakvöldvökunni. Í kvikmyndagerðinni búa börnin til handrit, skipa í hlutverk, velja búninga og svo hefjast tökur.
Grímurnar í grímugerðinni eru í vinnslu en börnin mála hvert sína grímu og flytja svo látbragðsleikrit síðasta kvöldið.
Listasmiðjuhópurinn skapar flotta hluti sem verða sýndir á sýningunni og danshópurinn semur dans/dansa, æfir og sýnir og íþróttahópurinn æfir líka og sýnir svo snilldina.
Lokakvöldvakan er alltaf svoooo æðisleg og gaman að sjá afrakstur af vinnu námskeiðanna og sum börnin uppgötva leynda hæfileika hjá sér, það hefur aldeilis oft komið fyrir.
Í kaffitímanum var boðið upp á afmælisköku og melónur. Afmælisbarnið fékk vitanlega afmælissönginn, gjafir frá sumarbúðunum og flott skreytta afmæliskökusneið.
Margt var um að vera eftir kaffið, m.a. vinabandagerð sem sló heldur betur í gegn, og tíminn leið hratt fram að kvöldmat en þar var boðið upp á steiktan fisk, hrísgrjón með karrísósu eða súrsætri sósu. Namm.
Börnin voru prúðbúin, enda stórviðburður fram undan, eða sjálft diskóið sem er alltaf ótrúlega skemmtilegt; flott tónlist, reykvél sem spúði reyk og skapaði enn meiri stemmningu.
Dansinn dunaði og þegar þurfti að anda aðeins á milli var bara farið fram þar sem hægt að fá bandfléttur í hárið og tattú.
Þegar búið var að dansa og dansa, fá bandfléttur og tattú, hlæja og spjalla var það bara háttatíminn en fyrst smáhressing, brauð og safi.
Kvöldsaga er alltaf lesin fyrir börnin undir svefninn, a.m.k. þá hópa sem vilja, og á þessu tímabili völdu allir hóparnir, líka elstu börnin (börnin eru í aldursskiptum hópum), að láta lesa fyrir sig.
Umsjónarmaður hópsins les í u.þ.b. hálftíma góða framhaldssögu og það er ótrúlega kósí. Í gærkvöldi voru börnin sofnuð fyrir kl. 11 og sváfu vært til næstum því níu í morgun.Stór dagur fram undan í dag, húllumhædagurinn sjálfur, með 17. júní-stemmningu. Leikir, vöfflur með súkkulaði og rjóma, bíó ... en allt um það á morgun.
Bestu kveðjur frá Kleppjárnsreykjum þar sem fjörið eitt ríkir!
Myndir frá degi 3 eru komnar inn, hér er bein leið:
http://sumarbudir.is/sumarbudir/t1d3.html
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 91039
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.