12.6.2010 | 02:03
Allt komið á fullt í Ævintýralandi
Kátur hópur barna kom í gær í sumarbúðirnar ... og það hefur verið svo brjálað að gera að það hefur ekki verið tími til að blogga fyrr en núna. En þá koma líka tveir dagar, takk fyrir!
Þessi annars frábæri hópur kom með rútunni eftir hádegi í gær og börnin byrjuðu á því að koma farangrinum fyrir inni í herbergi. Næst var sýningarrúntur um svæðið og svo komu allir sér vel og kósí fyrir.
Fyrsti kaffitíminn var ekki amalegur, aldeilis ekki. Sigurjóna snilldarkokkur hafði bakað þessa líka æðislegu skúffuköku (nokkrar reyndar, ein hefði nú dugað skammt) og svo voru líka melónur sem runnu ljúflega niður á augabragði eins og skúffukakan.
Svo var farið út í íþróttahús og þar fór fram kynning á starfsfólki og námskeiðum. Börnin völdu sér það námskeið (kvikmyndagerð, íþróttir, listasmiðja, leiklist, dans, grímugerð o.s.frv.) sem þau höfðu mestan áhuga á.
Á lokakvöldvökunni síðasta kvöldið sýna þau svo afraksturinn, kvikmyndagerðin sýnir frumsamda stuttmynd, listasmiðjan heldur myndlistarsýningu og svo framvegis. Einnig völdu börnin sér það sem þau langaði að fá í kvöldkaffinu, eins og áleggstegund og safategund.
Svo var farið á stöðvar, eins og við köllum það, börnin gátu valið um að vera á útisvæðinu, í spilaborg (milljón trilljón spil, bækur, púsl, borðtennis og slíkt) og íþróttahúsið.
Kvöldmaturinn var gómsætur, kjöt og spagettí. Bara æði.
Sundlaugin var opin eftir kvöldmat og það voru þreyttir og sælir krakkar sem lögðust til svefns fyrsta kvöldið sitt en ekki fyrr en eftir að hafa hesthúsað nokkrum kílóum (ekki á mann þó) af ávöxtum.
Þetta er sérlega góður hópur, börnin voru svooo góð að fara að sofa þrátt fyrir spenninginn, flest sofnuðu þau strax og restin ekki svo löngu síðar.
Umsjónarmennirnir vöktu hver sinn hóp í morgun og svo var haldið í morgunverð. Hlaðborðið góða, ristað brauð, hafragrautur, súrmjólk og fleira sem hægt var að velja um (Hótel Ævintýraland hf) ... en börnin voru sannarlega ekki svöng þegar þau fóru út í íþróttahús, á útisvæðið, í Spilaborg, sund eða á fyrstu karaókíæfinguna. Þeim finnst svo æðislegt að geta valið sjálf hvað þau vilja gera og upplifa mikið frelsi þrátt fyrir þann góða ramma sem er utan um allt, eða mikil gæsla.
Eftir hádegismat, kakósúpu með tvíbökum (nammmm) og ávexti á eftir var haldinn hádegisfundur, hver hópur hittist með umsjónarmanninum sínum ... en mjög skrýtinn hlutur gerðist í morgun hjá umsjónarmönnunum ... þeir fengu allir bréf og vöknuðu við bréfakomuna án þess að sjá hver kom með það, mjög dularfullt. Bréfin innihéldu mikilvæg skilaboð til barnanna og þeim var sagt að annað bréf kæmi á morgun með framhaldi af þessum mikilvægu skilaboðum ... ef þetta er ekki dularfullt þá er ekkert dularfullt ...Svo var komið að námskeiðunum. Kvikmyndagerðin var vinsælust þetta tímabilið, þar á eftir dansinn en hin námskeiðin voru líka vinsæl.
Eftir kaffi (sandkaka og tekex með heimagerðu marmelaði) var haldin hárgreiðslukeppni, útisvæðið opið, íþróttahúsið og herbergin opnuð í smástund til að hægt væri að bera á sig after sun og slíkt.
Úrslit hárgreiðslukeppninnar: 1. sæti: Sandra Rún (módel), Margrét Fríða (meistarinn), 2. sæti: Svana Björk (módel), meistarar: Helena Líf og Álfheiður Inga OG Unnur Lilja (módel), meistari: Sara Bryndís. 3. sæti: Margrét Fríða (módel), meistari: Birgitta ... og Lena María (módel), meistari: Tinna. Frumlegasta: Fannar Hrafn (módel), meistari: Aron Freyr. Mest kúl: Pétur William (módel), meistari: Fannar Óli.
Tíminn leið ógurlega hratt og allt í einu var kominn kvöldmatur og þvílík gleði þegar pítsuilmurinn barst úr matsalnum ... börnin borðuðu eins og þau gátu í sig látið af pítsum a la Sigurjóna snillingur.
Brennókeppni var haldin á milli hópa eftir kvöldmat og urðu Höfrungar í fyrsta sæti, Gullfiskar í öðru. Síðan var draugaleikurinn ógurlega fyndni og skemmtilegi sem við viljum ekki gefa of mikið upp um ...
Sigurvegarar í draugaleiknum voru Hafmeyjar og í öðru sæti voru Sæljón. Óhætt er þó að segja að mikið hafi verið skríkt og hlegið og öskrað og hlaupið.
Eftir að hafa snætt og borðað og hámað í sig ávexti í kvöldkaffinu, háttað og burstað tennur voru allir orðnir svo þreyttir eftir daginn að flestir sofnuðu um leið og þeir lögðu höfuðið á koddann.
Annasamur og hrikalega skemmtilegur dagur í sólinni í dag. Okkur sýnist á veðurspánni (hjá hirðveðurspástofunni okkar ( www.yr.no ) að það falli einhverjir regndropar á morgun ... sem gerir bara ekkert til - en á sunnudaginn, húllumhædaginn sjálfan, verður glaðasólskin sem kemur sér vel því það verður svoooo mikið um að vera þá.
Algjörar stuðkveðjur frá Kleppjárnsreykjum - meira fljótlega ... já, og það eru komnar myndir á myndasíðuna á http://sumarbudir.is/sumarbudir/Myndir.html
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.2.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 91039
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.