4.7.2012 | 23:02
Rjómavöfflur og rosafjör!
Dagurinn í dag var aðeins öðruvísi að því leytinu að námskeiðin voru haldin fyrir hádegi. Það var nú frekar sniðugt því að rigningunni þóknaðst einmitt að koma fyrir hádegi. Bara frábært og kom sér vel fyrir okkur!
Vel gekk á námskeiðunum, efni stuttmyndarinnar hjá börnunum í kvikmyndagerð er leyndarmál eins og svo oft en við komumst að því að hluti barnanna í leiklist og grímugerð er að semja og æfa dans sem á að sýna á lokakvöldvökunni á föstudagskvöldið.
Í hádeginu var boðið upp á núðlur og núðlusúpu, brauð með eggi og kæfu og það bragðaðist svona líka vel. Tilhlökkun ríkti, enda alveg að koma að hátíðinni. Fyrst var þó hádegisfundurinn haldinn, hver hópur með sínum umsjónarmanni.
Eftir fundinn var HÚLLUMHÆDAGURINN settur með pompi og prakt. Litir dagsins: Rauður og blár.
Börnin byrjuðu á því að fara í fánaleikinn. Skipt var í tvo hópa, Martröð og Draum. Martraðarbörnin fengu rauða málningu í andlitið og Draumshópurinn bláa. Alveg í stíl við litaþema dagsins. Leikurinn var mjög spennandi en enginn sigurvegari ... það varð nefnilega jafntefli.
Á útisvæðinu var margt við að vera og einnig inni. Haldin var sápukúlusprengikeppni og þátttakan mjög góð þar og svo var hægt að fá bandfléttur í hár og tattú. Við bjóðum upp á flétturnar og tattúið nógu oft til að allir sem vilja fái.
Hátíðarvöfflurnar voru bakaðar og alveg fullt af þeim. Rjóminn átti að vera rauður og blár. Allt í lagi með bláa rjómann, hann varð blár - en sá rauði ... hann varð bleikur. En alveg jafngóður og frábær ofan á súkkulaðiglassúrinn sem þakti flestar vöfflurnar. Sumir vildu nú bara sultu, aðrir sykur og það var ekkert mál. Börnin fengu eins mikið af vöfflum og þau gátu í sig látið en einhverjar áhyggjur ríktu í upphafi um að það yrði bara EIN vaffla á mann. Flestir voru þó orðnir pakksaddir eftir tvær. Liturinn í rjómanum er að sjálfsögðu góður, ekkert eiturdrasl. :)
Hún Hafdís Alda átti afmæli í dag, varð átta ára, hún fékk afmælispakka og allir sungu afmælissönginn fyrir hana. Það er alltaf mjög gaman að eiga afmæli í sumarbúðunum.
Svo komu góðir gestir, tvíburarnir Úlfur og Ísak, sem munu verða sumarbúðabörn í framtíðinni og settust við borðið hjá Sæljónum. Þeir lærðu katong-klappið skemmtilega sem er þannig að barið er í borð sjö sinnum, höndum klappað saman sjö sinnum, barið í borð þrisvar og klappað þrisvar, síðan barið einu í borðið og klappað einu sinni, annarri hendi lyft upp og hrópað HEI! Svo kemur dauðaþögn.
Eftir kaffi mætti skrítin kerling úr Borgarnesi, Jósefína Potter spákona. Hún þóttist vita hvað börnin yrðu þegar þau yrðu stór og þau voru mjög ánægð með svörin, enda hver vill ekki verða flugkona/flugmaður, lögga, læknir, forseti, kjarneðlisfræðingur eða strætóbílstjóri? Við vitum reyndar ekkert hvað kerla sagði en börnin voru annars mjög forvitin um hana, voru einhvern veginn viss um að einhver starfsmaðurinn hefði farið í búninginn ...
Andlitsmálun, skartgripagerð, keila og zumba (wii), ásamt áframhaldandi tattúi og bandfléttum í hár var einnig í boði og það var sérlega mikið stuð í gangi.
Þessi hópur er einskaklega VIRKUR, börnin eru mjög dugleg að taka þátt í öllu og finnst allt svo skemmtilegt. Íþróttahúsið opnaði klukkan 18 og var opið ásamt útisvæðinu og svo hálftíma síðar fóru börnin inn á herbergin til að slaka svolítið á fyrir komandi kvöld ... en heill draugaleikur var fram undan. Úúúúú.
Eldhús stórkostleikans bauð upp á pylsur með öllu og gos - og ekki að sjá að börnin hefðu borðað svona mikið magn af vöfflum ekki svo löngu áður ... en kokkarnir njóta þess að gefa þessum lystugu börnum að borða.
DRAUGALEIKURINN var haldinn í Diskóherberginu og þaðan er hægt að fara inn í Bíósalinn og svo endar maður í matsalnum en leikurinn gengur út á það að hlaupa frá forstofu matsalarins og þaðan inn í diskó. Við dyrnar inn í bíóherbergið er svo tjald og þar á að sækja eina glóstiku og fljúga hreinlega með hana út á ljóshraða, inn í matsalinn og rétta starfsmanni og svo er annar starfsmaður sem tekur tímann. Þetta er eins og boðhlaup og hópurinn sem er fljótastur vinnur og allir í þeim hópi fá viðurkennignu og verðlaun. Hafmeyjar sigruðu en það munaði litlu hjá öllum hópunum. Dularfull hljóð heyrðust sem gerðu þetta allt mjög svo draugalegt. Tónlist, myrkur (en vasaljós og smáaðstoð) og reykvélin bættu um betur.
Eftir að draugarnir (Atli, Árni Páll og Teddó (sonur Rögnu næturvarðar)) tóku af sér grímurnar og hneigðu sig mætti Kokkurinn (Árni Páll) á svæðið. Kokkurinn fullyrti með frönskum hreim að Jói Fel væri brúða sem hann stjórnar og lætur hann fá allar uppskriftirnar.
Eftir leik á útisvæðinu í smástund var hoppað í náttfötin og inn í matsal, ekki til að fá venjulega kvöldkaffið sitt, ávexti eða smurt brauð, heldur voru sýndar tvær stuttmyndir úr safni Ævintýralands og með myndunum mauluðu börnin poppkorn og drukku safa. Yndislegur endir á frábærum degi. Svona náttfatabíópartíendir.
Þau voru fljót að sofna eftir kvöldsöguna.
Vinningshafar dagsins:
Sápukúlusprengikeppni: Maciej Marek
Keila: Ísleifur Jón
Draugaleikur: Hafmeyjar
Myndir frá húllumhædeginum eru hér > http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T4D3.html#grid
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.7.2012 | 01:03
Diskó, tattú, pítsur og leikrit
Nóttin gekk vel og börnin sváfu eins og steinar, þau voru mjög góð að sofna í gærkvöldi. Sólin skein glatt þegar börnin vöknuðu og veðrið var dásamlegt fram að kaffi.
Eftir mjög svo staðgóðan morgunverð, hlaðborð með góðmeti á borð við hafragraut, kornfleks, súrmjólk, seríos og ristað brauð með áleggi var haldið út í góða veðrið, í sund og á útisvæðið. Þau sem ætla að taka þátt í Ævintýrabakanum fóru á fyrstu æfingu, en söngvara- og hæfileikakeppnin verður haldin á fimmtudagskvöldið. Eins gott að byrja strax að æfa. :)
Svo var íþróttahúsið opnað og þangað lá straumurinn. Eftir hálftímaleik eða svo hófst leiksýning þar sem starfsfólkið og elstu starfsmannabörnin léku. Þetta var magnað forvarnaleikrit um þær hættur sem geta mætt okkur. Börnin hlógu mikið, enda fyndið leikrit þótt undirtónninn væri vissulega alvarlegur. Eineltismál voru að vanda tekin fyrir og til dæmis hvernig hægt er að bregðast við ef við verðum vitni að einelti. Barnið sem varð fyrir einelti fékk góð ráð frá Ping og Pong sem eru nokkurs konar góðuráðavél og svo voru þarna frændur þeirra, Sing og Song en sá síðarnefndi kann sannarlega ekki að gefa ráð. Sem betur fer hafði Sing vit fyrir honum og líka börnin í salnum.
Eftir leiksýningu fóru börnin inn á herbergin til að ganga frá sunddótinu, sum völdu að slaka á þar fram að mat en önnur hlupu aftur út í sólina og krítuðu og léku sér fram að mat.
Eldhús fullkomnunarinnar bauð upp á skyr og síðan safaríka ávexti. Allir borðuðu vel og fóru svo á hádegisfund, hver hópur með sínum umsjónarmanni. Á hádegisfundinum voru meðal annars umræður um leiksýninguna og öll börnin eru mjög fróð um það að það eigi ekki að fara upp í bíl með ókunnugum. Hver umsjónarmaður tekur svo púlsinn á börnunum í sínum hópi, vill fá að vita hvernig þau sváfu og hvort þeim líði vel og svo er farið í leiki sem eru uppbyggjandi og sjálfstyrkjandi, þessir fundir eru einstaklega vel heppnaðir og eru á dagskrá daglega.
Námskeiðin hófust klukkan 14. Þrjú námskeið sameinuðust að ósk barnanna, eða grímugerð, listaverkagerð og leiklist og verður þá heldur öflugur hópur sem á eflaust eftir að gera eitthvað magnað á lokakvöldvökunni sem við hlökkum svo til alla vikuna.Í kaffinu var sungið fyrir Ósk umsjónarmann sem átti afmæli í dag, var kornung í dag, eins og sungið var (26 ára). Börnin fengu dásamlega kryddköku með glassúr og ábyggilega tonn af melónum.
Veðrið var mjög gott eftir kaffi og börnin hoppuðu grunlaus á trampólínunum, krítuðu á stéttina, róluðu, fóru í keilu og fleira en eftir tæpan hálftíma kom þessi líka svakalega rigning. Þá var nú gott að geta flúið skrækjandi í íþróttahúsið eða í Spilaborg.
Hluti hópsins var sóttur á reiðnámskeið og tóku með sér gott nesti. Þau létu mjög vel af sér eftir námskeiðið og taka myndavélina okkar með á fimmtudaginn.
Upp úr klukkan hálfsjö barst svo ótrúlega góður matarilmur um allt hús og uppsveitir Borgarfjarðar að börnin stoppuðu í miðri hreyfingu. Hvað er þetta? hvísluðu þau. Ég held að verið sé að baka pítsur, sagði einn umsjónarmaðurinn. Og viti menn, þetta var ekki draumur, heldur voru pítsur í matinn. Og ekkert smágóðar.
Börnin höfðu þó haft orku til að skipta um föt fyrir mat, ekki bara af því að það var veislumatur, heldur vegna þess að var diskótek eftir matinn!!!
Og það var svo gaman að dansa - og þegar börnin fóru út til að anda að sér frísku lofti og kæla sig niður var boðið upp á tattú og bandfléttur í hár.
Ávextir voru í boði í kvöldkaffinu og eftir hátt & burst var framhaldssagan lesin. Þeim sem ekki sofnuðu alveg strax fannst gott að lesa svolítið, enda mikið til af bókum, blöðum og Andrésarsyrpum í Ævintýralandi.
Á morgun verður sjálfur Húllumhædagurinn og þá höfum við m.a. þemalit. Þeir verða reyndar tveir á morgun, blár og rauður. Meira að segja rjóminn með vöfflunum verður litaður, helmingur rauður og helmingur blár - en meira um það og hátíðisdaginn mikla á morgun.
Myndir frá deginum er að finna hérna > http://sumarbudir.is/sumarbudir/2012_T4D2.html#grid
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggfærslur 4. júlí 2012
Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.5.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 91094
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar