Ævintýrabarkar kvöldsins

GamanEnn einn frábæri sólardagurinn, veðrið hefur verið yndislegt í dag.

Þegar börnin vöknuðu drifu þau sig (klædd og með burstaðar tennur og greitt hár) í matsalinn þar sem morgunverðarhlaðborðið beið eftir þeim. Hafragrautur, súrmjólk, seríos, kornflögur, ristað brauð með osti og heimalöguðu marmelaði ... svo fátt eitt sé talið. Gott að geta valið sér það sem manni finnst best.

SundÞá var bara haldið út í sumarbúðalífið ljúfa og sitt af hverju var í boði að vanda. Einhverjir völdu að fara í sund, aðrir fóru á kertagerðarnámskeið og útisvæðið skemmtilega var opið líka. Þau börn sem skráðu sig í karókíkeppnina æfðu, enda var keppnin nú í kvöld.

Við höfum dáðst mikið að henni Nadíu sem varð fyrir því óhappi að handleggsbrotna skömmu áður en hún kom í sumarbúðirnar en hún lætur ekkert stoppa sig þrátt fyrir það. Í gærkvöldi, rétt áður en hún fór að sofa, var gifsið klippt af henni samkvæmt beiðni foreldra og afans sem er læknir. Mikið fannst Nadíu gott að losna við það, hún fór í sund í morgun en ætlar samt að fara varlega næstu dagana. Flest börnin fóru í sund með henni en karókíbörnin kusu þó að æfa og æfa og æfa ...

Kertagerð að  hefjastKertagerðin var stórskemmtileg en hún fer þannig fram að börnin velja sér bláskel sem umsjónarmaður hellir vaxi varlega í og auðvitað er kveikur settur í miðjuna. Eftir að vaxið hefur storknað er það skreytt eftir því sem ímyndunaraflið býður. Mjög flott kertin í morgun. Útisvæðið var vinsælt líka og mörg kusu að fara í smástund inn á herbergin fyrir matinn.

Á reiðnámskeiðiGrjónagrauturinn var borðaður af mikilli lyst og einnig ávextirnir sem voru í eftirrétt. 

Námskeiðin voru síðan haldin eftir hádegisfundinn og í kaffinu var boðið upp á ævintýraköku (sandköku) og vöffluafganga með súkkulaði, einnig brauð með kæfu og mjólk með. Allt borðað upp til agna.

Er þetta dansspennumyndÍþróttahúsið varð fyrir valinu hjá flestum eftir kaffi en nokkur börn úr kvikmyndagerð æfðu dans sem verður í myndinni. Hvernig mynd verður þetta eiginlega? Dans- og söngvamynd með spennuívafi? Eða spennumynd um dansskóla? Svo voru einhverjir í Spilaborg þar sem Ellen kenndi þeim skemmtilegt spil. Nokkrir fóru að herða skrúfur og undirbúa kassabílana fyrir rallíið á morgun. 

Rétt fyrir kvöldmat skiptu börnin um föt ... aðallega keppendur kvöldsins. Kvöldmaturinn var einstaklega gómsætur! Glænýr fiskur, steiktur, með hrísgrjónum og karrísósu, tómatsósu fyrir þá voguðu ...

Gaman á ÆvintýrabarkanumSvo var haldið út í íþróttahús þar sem Söngvara- og hæfileikakeppnin Ævintýrabarkinn 2012-01 fór fram ...
Systurnar Adela og Birgitta sungu lagið Blár ópal, systurnar Askja Ísabel og Ynja Mörk dönsuðu við lagið Turn me on. Eva Huld og Ólavía Guðrún sungu Moves like Jagger. Ólavía Guðrún söng lagið Bíóstjarnan mín. Og svo var hópatriði með Karen Örnu, Hrafntinnu Máneyju, Öldu Ósk og Sigríði Berglind, ásamt fyrrtöldum listakonum.

Sigurvegarar kvöldsinsEkki var auðvelt fyrir dómnefnd að gera upp á milli, svo flott var þetta allt saman, en þegar búið var að telja stigin kom í ljós að Eva Huld og Ólavía Guðrún urðu í efsta sæti með lagið Moves like Jagger. Í öðru sæti voru dansararnir Askja og Ynja og í því þriðja Adela og Birgitta sem sungu Blár ópal, jöfn að stigum við þær var Ólavía Guðrún sem söng Bíóstjarnan mín. Allir fengu viðurkenningarskjöl og efstu sætin smáverðlaun.

Þetta var sérlega flott kvöld - og atriðin hvert öðru betra. Góður endir á góðum degi. Svo var það bara kvöldkaffið, kvöldsagan og draumalandið.

Myndir frá deginum eru á heimasíðunni, www.sumarbudir.is, myndir - dagur 4.


Vöffludagurinn græni ...

Þemað var græntDagur 3 var aðeins öðruvísi en hinir. Námskeiðin voru fyrir hádegi og eftir matinn, núðlusúpu, núðlur, brauð með eggi og kæfu, ásamt vatni í miklu magni, hófst húllumhædagurinn.

Fyrst var hádegisfundur með umsjónarmönnunum en svo var farið í fánaleikinn. Skipt var í tvö lið, Martröð og Draum og sigraði það fyrrnefnda, alls ekkert léttilega þó. 

Margvísleg andlitsmálun í gangiFram að kaffi var margt um að vera; sápukúlusprengikeppni, sólbað, krítað á stéttina, boltaleikir og önnur dásamlegheit. 

Í kaffinu var boðið upp á vöfflur með súkkulaði ... og rjóma sem var litaður grænn í stíl við daginn. Þemaliturinn var nefnilega grænn og allir voru í einhverju grænu. Í miðju vöfflusmjatti kom algjört steypiregn en dagskráin var bara inni þar til stytti upp eftir um tvo tíma. Gott fyrir gróðurinn.

Eftirmiðdagsskemmtunin var heldur betur fjölbreytt. Það var skartgripagerð, andlitsmálun, tattú, bandfléttur, keila og zumba (í Wii) ... og svo mætti heil spákona á svæðið, ég legg ekki meira á ykkur. Sú heitir Jósefína Potter og þykir nokkuð sérstök. Börnin settust hjá henni og fengu að heyra sitt lítið af hverju skemmtilegt. Spenningurinn var mikill að vita HVER þessi spákona væri og voru ýmsir starfsmenn nefndir til sögunnar en það mál er enn ekki upplýst ...

Hver er þessi JósefínaSvo var allt í einu komið að kvöldmatnum - pylsupartíi, takk fyrir. Það hefði mátt halda að engar rjómavöfflur hefðu verið á boðstólum í kaffinu eða að börnin hefðu bara rétt nartað í þær ... svo vel tóku þau til matar síns, þessar elskur. Það var líka gott að fá að skola því niður með gosi.

Jósefína PotterDraugaleikur var eftir matinn, keppni milli hópa, og margar hetjurnar sem létu sig hafa það að hlaupa í gegnum íþróttahúsið í nánast myrkri, í gegnum allskyns þrautaleiðir, sækja glóstikk og fljúga síðan út á ljóshraða. Þau sem vildu vernd töluðu bara við sumarbúðastjórann sem fór með þeim. 

Gott var að skreppa í sund til að kæla sig niður, aðrir fóru í heita pottinn til að róa sig niður ... en svo kom fljótlega í ljós að draugarnir ógurlegu voru bara Gummi, Apríl og Árni Páll. Þá var nú hlegið.

Í stað þess að fara beint í matsalinn og síðan að sofa var það fyrst bíósalurinn þar sem börnin fengu að sjá tvær eldri stuttmyndir eftir sumarbúðabörn og popp og safi gerði bíósýninguna enn skemmtilegri. 

Svo var sofnað vært og rótt.

Nammm, vöfflurVinningshafar dagsins:

Sápukúlusprengikeppnin: Steinar Dúi

Keila: Rakel Sandra

Draugaleikurinn: Krossfiskar

 

P.s. Myndir frá deginum eru á

www.sumarbudir.is - myndir - dagur 3.

 


Bloggfærslur 14. júní 2012

Um bloggið

Sumarbúðirnar Ævintýraland

Höfundur

Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðir með sérstöðu

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • ...3_sapukulur
  • Æðisleg reiðnámskeið
  • Vinsæl leiklist
  • Úr bíómyndinni
  • Sykurpúðar grillaðir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband