Fjör á dansleik, meiri brjóstsykur, ísbíll og allt!

Brjóstsykursgerð með Ingu LáruDagur þrjú ...þvílíkur dásemdardagur - afmælisveisla, dansleikur, meiri brjóstsykursgerð, ísbíllinn kom í heimsókn, það fór fram hárgreiðslukeppni - það var synt og hoppað og skoppað um allar grundir ... er hægt að biðja um skemmtilegri dag?

Kósí í heita pottinumEftir hið fjölbreytta og bragðgóða, samt valkvíðaaukandi en saðsama morgunverðarhlaðborð var sitt af hverju í gangi. Eins og íþróttahúsið sem býður upp á svo ótrúlega skemmtilega leiki, stórar og þykkar dýnur, stökktrampólín og fleira og fleira, sundið og heiti potturinn, Spilaborgin góða og svo var brjóstsykursgerð ... en það er löngu sannað að brjóstsykur sem maður býr til sjálfur smakkast betur en annar brjóstsykur. Svo var karaókíæfing fyrir Ævintýrabarkann.

 

Morgunninn leið hratt og áður en nokkur vissi af var kominn hádegisverður - kakósúpa og tvíbökur og fullt af ávöxtum. 

Á reiðnámskeiðiHádegisfundirnir gengu vel, svo og námskeiðin en undirbúningurinn fyrir lokakvöldvökuna er einmitt fólginn í þeim ... Íþróttaatriði eru búin til fyrir sýninguna - handrit kvikmyndagerðar komið á hreint, búningar valdir og æfingar hafnar, jafnvel einhverjar tökur! Alltaf hvílir mikil leynd yfir námskeiðunum þar sem allt á að opinberast síðasta kvöldið. Við reynum að skilja það ...

Alexandra Björg afmælisbarnHeilt afmælispartí var haldið í kaffitímanum. Hún Alexandra Björg átti afmæli og blásið var til veislu af því tilefni. Súkkulaðikaka á línuna - skreytt sneið fyrir afmælisbarnið sem er hér fjórða árið sitt í röð, annan afmælisdaginn sinn í röð líka. Hún fékk eðallegghlífar frá sumarbúðunum, bláar og rosaflottar, einnig afmæliskort. Lívey Erika og Alexandra Diljá bjuggu að auki til afmæliskort handa henni sem allir krakkarnir skrifuðu nöfnin sín í ... og svo keypti Lívey handa henni ís þegar Ísbíllinn mætti á svæðið. 

Já, við fáum sjálfan Ísbílinn alltaf í heimsókn á unglingatímabilinu og þegar bjölluhljóðið í honum heyrðist var sko hlaupið af stað. Hrattttt!

Haldin var hárgreiðslukeppni eftir kaffi og sú var skemmtileg. Bæði stelpur og strákar tóku þátt og mátti meðal annars sjá módel á gólfinu, hármeistara í sófanum að greiða því og ofan á sófabakinu sat annar hármeistari sem greiddi fyrri hármeistara. (Sjá mynd) Já, og tvær hárgreiðslur skiptu með sér fyrsta sætinu en hér koma úrslitin:

HárgreiðslukeppniÚrslit:

1. sæti: María Sif sem greiddi Stefaníu Veigu.

1. sæti: Stefanía Veiga og María Sif greiddu Írenu.

2. sæti: Alexandra Björg greiddi Alexöndru Diljá.

3. sæti: Bryndís Ósk sem greiddi Alex Þór.

Frumlegasta: Árný Birna greiddi Pétri William.

Speisaðasta: Daníela Rán greiddi Árnýju Birnu.

Flippaðasta: Lívey Erika og Birta Lind greiddu Ísak Árna.

Mest töff: Stefanía Veiga greiddi Hreiðari Henning.

 

Ísbíllinn kom í heimsóknAllir þátttakendur fengu viðurkenningu og sigurvegararnir smáverðlaun sem tengjast hári, eins og spennur, greiður, teygjur og þess háttar.

Einhverjir sprikluðu úti í íþróttahúsi eftir ísátið mikla og aðrir spiluðu í Spilaborg.

Svo kom kvöldmaturinn ... og vakti þvílíka lukku. Heimabakaðar pítsur í tugatali og gos með. Börnin borðuðu ekki vel - þau borðuðu MIKIÐ! Sem er allt annað. Brosið fór ekki af Sigurjónu matráðskonu sem hefur svo gaman af því að gefa lystugum börnum að borða!

Dansleikurinn ... eða diskóiðEftir mat var haldinn dansleikur ... ja, eða diskó, eins og allir kölluðu það. Til að krakkarnir hefðu nægt pláss var ballið haldið í íþróttahúsinu. Það var sko reykvél, diskóljós og allt, krakkarnir í sínu fínasta pússi og það var sko dansað og dansað. Einnig var hægt að fá tattú og bandfléttu í hárið.

Hann Unnar kenndi krökkunum að búa til ímyndaða samloku en þá voru allar hreyfingarnar með brjáluðu dans-"múvi", hver hefur ekki smurt sér samloku á þennan hátt ... Já, og kveikja á ímyndaðri sláttuvél og margt fleira sem sló heldur betur í gegn.

Reykvél og allt ...Eftir að hafa dansað um langa hríð var komið að kvöldkaffi, ávöxtum og svo var það bara bólið og spjall og síðan svefninn. Flestir voru dauðþreyttir eftir allan dansinn og sofnuðu eflaust fyrr en ella.

Hér eru fleiri myndir frá deginum:

http://sumarbudir.is/sumarbudir/t8d3_2011.html

Við kveðjum í bili úr fjörinu á Kleppjárnsreykjum. Wizard

 

 


Brjóstsykur, kerti og spennandi draugaleikur

BrjóstsykursgerðDagur 2 var hreint út sagt frábær - námskeiðin hófust, og ótal margt skemmtilegt var við að vera, m.a. fór fyrsta karaókíæfingin fram, búinn var til brjóstsykur, kerti skreytt, draugar sigraðir og margt fleira.

 

 

BrjóstsykursgerðEftir að hafa sofnað eldsnemma frekar seint vaknaði hópurinn hress í bragði og dreif sig inn í matsal þar sem morgunverðarhlaðborð beið. Hafragrautur, cheerios, súrmjólk, kornfleks, ristað brauð með osti og marmelaði ... sem sagt, algjör dýrð. Hægt að smakka á öllu eða fá sér bara uppáhaldið sitt.

Margir héldu út í íþróttahús eftir morgunmatinn, einhverjir fóru í sund og svo var aukanámskeið í ... já, haldið ykkur ... brjóstsykursgerð!!! Færri komust að en vildu svo framhald verður á næstu morgna svo allir geti fengið að læra þessa göfugu og ævafornu sælgætisgerð sem allir ættu að kunna ...

Fyrsta karaókíæfingin var haldin - en það er raunar bara starfsheiti á upphafi "þrotlausra" æfinga fyrir Ævintýrabarkann, söngvara- og hæfileikakeppni Ævintýralands sem haldin er næstsíðasta kvöldið. Það borgar sig að byrja strax að æfa.

ÍþróttanámskeiðÍ hádeginu var núðlusúpa og smurt brauð með eggjum og kæfu. Eftir matinn var farið inn á herbergi til að punta sig aðeins og njóta þess að vera til. Stóru krakkarnir njóta þess mjög að hanga inni á herbergjum inn á milli, enda gaman að spjalla og hafa það kósí. Það gefst reyndar ekki mikill tími til þess, það er svo mikið um að vera frá morgni til kvölds.

Hádegisfundir með umsjónarmönnunum voru síðan haldnir kl. 14. Þetta eru dúndurgóðir fundir, mikið spjallað, já, og hlegið. Hópurinn þjappast betur og fyrr saman og gott fyrir umsjónarmanninn að taka stöðuna á "krökkunum sínum".

KertagerðSíðan var haldið á námskeiðin og voru allir mjög virkir og hugmyndaríkir. Íþróttahópurinn skemmti sér konunglega í íþróttahúsinu og svo stefnir víst allt í hörkuspennandi mynd hjá kvikmyndagerðinni. Sumarbúðastjórinn fékk að lesa handritið ... og skalf víst úr hræðslu!

Reiðnámskeiðsbörnin voru sótt skömmu fyrir kaffi og tóku með sér nesti og nýja skó, eins og vera ber. Það koma fljótlega myndir af þeim á hestbaki hingað á bloggið.

Í kaffinu bauð elskhúsið (elsku eldhúsið) upp á sandköku og ávexti. Nammi, namm.

Eftir kaffi fóru börnin í íþróttahúsið ... eða Spilaborg ... eða á útisvæði ... eða í kertagerð.  Kertagerðin er alltaf vinsæl og voru skreytt mörg stórglæsileg kerti. Bláskel, vax, kveikur og efni til að skreyta með. Það er hægt að gera mikil flottheit með þessum hráefnum.

Kvöldmaturinn var ekki af verri endanum ... hakk og spagettí!

Hetja í draugaleikÞessir bráðhressu krakkar lögðust ekki á meltuna eftir matinn, heldur héldu beinustu leið út í íþróttahús þar sem æsispennandi brennókeppni fór fram. Hópur 2, fjólublái strákahópurinn hans Davíðs bar sigur úr býtum.

Þá var komið að leik sem krefst hugrekkis, þrautseigju, óttaleysis ... sem sagt, já, það var komið að draugaleiknum sem hefur þróast hjá okkur í gegnum aldirnar upp úr leiknum Mörk óttans. Enginn ógeðsdrykkur framar, nú er það bara hrikaleg spenna, hetjulund og ... hlátur. Þetta er nánast leikrit þar sem Davíð umsjónarmaður lék aðaldrauginn og honum til aðstoðar voru Unnar, Auður og Dagbjört.

Nokkrir úr hverjum hóp þurfa að leysa þrautir og hafa hraðann á þar sem fljótasti hópurinn að komast í gegnum göng, sækja stein sem er varinn af draugum, og fleira, sigrar ... já, þetta er frábær leikur og krakkarnir skemmtu sér konunglega, bæði áhorfendur og þátttakendur. Aðaldraugurinn endaði á því að elta Ingu Láru umsjónarmann um allt og stökk síðan upp á borð í matsalnum. Svo endaði leikurinn, eða leikritið, á því að draugarnir tóku niður grímurnar (ein gríman var nú geimverugríma) og hneigðu sig. Það var mikið klappað. 

Flott kerti í kertagerðinniEftir draugaleikinn og fyrir kvöldkaffi fór Inga Lára með hópinn sinn í leik sem hefur það að markmiði að vera forvörn gegn hættum á Netinu. Meira um það síðar. Á sunnudaginn fá hinir hóparnir líka að fara í svona leik.

Gómsætir ávextir voru snæddir í kvöldkaffinu og síðan var farið að spjalla inni á herbergjum, svona undir svefninn, smám saman komst ró yfir og brátt heyrðust hroturnar alla leið yfir í Reykholt ...

Smellið á hlekkinn hér fyrir neðan og ævintýri dags 2 koma í ljós:

http://sumarbudir.is/sumarbudir/t8d2_2011.html

 


Bloggfærslur 30. júlí 2011

Um bloggið

Sumarbúðirnar Ævintýraland

Höfundur

Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðir með sérstöðu

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 91091

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • ...3_sapukulur
  • Æðisleg reiðnámskeið
  • Vinsæl leiklist
  • Úr bíómyndinni
  • Sykurpúðar grillaðir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband