17. júní í Ævintýralandi - mikið stuð!

GrímugerðarmyndlistardansnámskeiðiðKvikmyndagerðin í búningumÞriðji dagurinn hófst með miklum spenningi, enda bæði húllumhædagur og 17. júní.

 

Að vanda var „ráðist á“ morgunverðarhlaðborðið og snætt af bestu lyst þar til allir voru orðnir pakksaddir og tilbúnir fyrir daginn ... og þvílíkur dagur.

 

Námskeiðin voru haldin fyrir hádegi að þessu sinni til að hátíðardagskráin gæti staðið samfleytt frá hádegi og langt fram á kvöldið. Grímudansleiklistin er á fullu í undirbúningi og hafa grímur þegar verið málaðar. Kvikmyndagerðin var í tökum og mikið fjör í gangi á námskeiðinu. Þetta verður spennumynd um dularfullt hús ... stelpa fer inn í það og hverfur. Annað úr handritinu er enn algjört leyndarmál þar til kemur að lokakvöldvökunni og stuttmyndin verður frumsýnd.

 

Grjónagrautur var í boði í hádeginu og melónur í eftirmat. Alveg sérlega góður grautur, sögðu börnin sem borðuðu heil ósköp af honum.

 

Hátíðin að hefjastÁrni og DanniSíðan var haldinn hádegisfundur með umsjónarmönnunum og eftir hann var starfsfólkið með smásprell fyrir börnin.

 

Svo sló Árni í gegn með brúðuna Danna (sem er sjö ára, Danni sko). Danni hafði verið í ferðatöskunni í tvo daga og var orðinn nokkuð slæmur í bakinu að sögn. Árni fór á kostum með hinn bráðskemmtilega Danna sem segist vera frá Flórída.

 

                                                          ----- ooo OOO ooo -----

 

 

FánaleikurinnBandfléttur í hárVeðrið lék svo sem ekkert við okkur þrátt fyrir ágæta veðurspá fyrir Kleppjárnsreyki en börnin klæddu sig bara eftir veðrinu og haldið var út í fánaleikinn góða. Liðin Martröð og Draumur börðust um ... klemmur.

 

Martraðarliðið var auðkennt með blárri stríðsmálningu (ja, strikum) í andlitið og Draumaliðið með rauðum strikum. Eftir heilmikla baráttu, brjáluð hlaup og læti þá tókst Draumi að sigra, eða safnaði fleiri klemmum. Við færðum hátíðarhöldin inn þegar fór að rigna lárétt í hraðskreiðu logninu. Börnin komu inn rjóð í vöngum og voru sko alveg til í næsta atriðisem var hvorki meira né minna en ...

 

 

KókosbolluboðhlaupKókosbolluboðhlaup... kókosbolluboðhlaup. Hóparnir kepptu sín á milli og þurfti hver keppandi að borða kókosbolluna sína eins hratt og hann gæti með hendur fyrir aftan bak. Síðan hlaupa hratt til hópsins aftur og þá gat næsti tekið við að borða sína kókosbollu. Tíminn var tekinn og voru Krossfiskar langfljótasti hópurinn. Svo sem sá elsti og þar af leiðandi með stærstu munnana, sagði einn Gullfiskurinn en alls ekki tapsár. Þetta var bara skemmtilegt, fannst börnunum, og ekki amalegt að fá heila kókosbollu!

 

Þetta var ekki búið enn því nú var komið að sykurpúðagleypikeppni. Börnin eru afar hrifin af öllum keppnum og þar sem veðrið leyfði ekki sápukúlusprengikeppni þá var fundin upp alveg ný keppni sem sló aldeilis í gegn. Börnin köstuðu sykurpúðum (pínulitum og sætum) upp í loftið og gripu með munninum. Fljótustu börnin voru Rakel Sandra (Hafmeyjum), Kristófer (Krossfiskum) og Inga Birna (Gullfiskum).

 

Það var ekkert slugsað í eldhúsinu þótt allt þetta gengi á í matsalnum. Sigurjóna snillingur hafði bakað heilu stæðurnar af vöfflum undir köllum og hvatningarhrópum, og þrátt fyrir kókosbollur og  sykurpúða var sko alveg pláss fyrir 17. júní vöfflur hjá börnunum. Sumarbúðirnar bjóða alltaf upp á vöfflur með súkkulaðiglassúr og rjóma en auðvitað er sulta líka í boði fyrir þá sem vilja. Flestir kusu súkkulaðivöfflur, enda eru þær hreint út sagt dásamlega góðar.

17. júní vöfflurnarEftir vöffluátið var sitt af hverju í boði. Eins og skartgripagerð en hún var sérlega vinsæl af börnunum sem bjuggu til mjög fallega skartgripi. Það voru bandfléttur í hárið og keilukeppni (Wii) og svo ... kom ofboðslega skrítin spákona í heimsókn; Jósefína Potter frá Borgarnesi.

 

Dragðu spil úr stokknum ...Búið var að segja börnunum að þau mættu spyrja spákonuna einnar spurningar, alls ekki tveggja eða fleiri. Þar sem sumarbúðastjórinn er prakkari bað hún einn strákinn að stríða spákonunni svolítið. Allt gekk vel til að byrja með. Stákurinn spurði hvað hann yrði þegar hann yrði stór. Spákonan sagði honum að hann yrði það sem hann langaði til að verða. Síðan laumaði stráksi út úr sér: Af hverju er himinninn blár? Og þá æpti spákonan á sumarbúðastjórann, og stráksi hljóp í burtu skellihlæjandi. Eydís Emma spurði hvernig hárið á henni yrði á fullorðinsárum og því var fljótsvarað: „Þú þarft ekki að lita það fyrr en um fimmtugt og þú verður með slöngulokka þar til þú verður níræð!“„Þakka þér kærlega fyrir,“ sagði Eydís Emma alsæl. Þetta var svolítið skrítin spákona. Hún sagði við suma: „Dragðu spil úr bunka mínum og legðu það á jörðina ... “ Sumum börnunum fannst þau hreinlega vera komin inn í Búkolluævintýri ... Flest börnin voru á því að þetta hefði örugglega verið Gummi umsjónarmaður ...

 

Í matsalnumÍ kvöldmat voru pylsur með tómatsósu, sinnepi og steiktum, algjörlega áframhaldandi hátíð og það var sko ekki allt búið enn. 

Bíókvöld var haldið með pomp og prakt og í tilefni dagsins fengu allir poka með sælgæti til að maula með yfir sýningunni. Þetta var spennandi nammi sem Apríl okkar keypti þegar hún var í Ameríku núna í vor. Í hléinu var boðið upp á popp og Svala.

Þetta sló allt í gegn og engin aukalæti voru í gangi þrátt fyrir óvenjumikið sykurátið ... en þetta var nú einu sinni 17. júní. Þau voru bara elskuleg eins og alltaf, ánægð með allt sem þau fengu.

Tennurnar voru burstaðar vel og vandlega undir svefninn, kvöldsagan lesin og Elísa næturvörður tók við. 

Þetta var einstaklega skemmtilegur og góður dagur.

Myndir eru komnar inn á sumarbudir.is - tímabil 2 - dagur 3.

Bestu þjóðhátíðarkveðjur frá Kleppjárnsreykjum!


Bloggfærslur 18. júní 2011

Um bloggið

Sumarbúðirnar Ævintýraland

Höfundur

Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðir með sérstöðu

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 91091

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • ...3_sapukulur
  • Æðisleg reiðnámskeið
  • Vinsæl leiklist
  • Úr bíómyndinni
  • Sykurpúðar grillaðir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband