Færsluflokkur: Menning og listir
5.8.2008 | 16:46
Takkkkkkk fyrir frábæra viku
Gærdagurinn gekk frábærlega vel. Börnin pökkuðu niður flestu og héldu síðan áfram að undirbúa sig fyrir lokakvöldvökuna. Íþróttahús, spilaborg og útisvæði voru opin eftir kaffi en klukkutíma fyrir mat var opnað inn á herbergin svo að þau gætu farið að punta sig fyrir hátíðina. Í kvöldverð voru hamborgarar, franskar, sósa og salat, ekkert smá vinsælt og síðan kom að kvölddagskránni.
Byrjað var á myndlistarsýningunni og þar voru sýnd æðisleg listaverk. Síðan var farið út í íþróttahús. Þar sýndi íþróttahópurinn dans, Fugladansinn sjálfan við mikinn fögnuð áhorfenda.
Leiklistin sýndi síðan leikritið Trönuberjasafa sem krakkarnir sömdu, skipuðu í hlutverk, æfðu og léku með glæsibrag. Leikritið fjallar um fólk á elliheimili og það er alveg sama hvað þau biðja oft um trönuberjasafa þá fá þau bara appelsínusafa. Einn daginn ákveða þau að strjúka og þá til Hondúras. Þau eru stoppuð í Leifsstöð því að vegabréfin þeirra eru útrunnin. Þegar hjúkkurnar á elliheimilinu uppgötva að fólkið er horfið ákveða þær að hringja ekki á lögguna því ein þeirra er á sakaskrá. Sú þekkir leigumorðingja og semur við hann um að sækja fólkið. Þegar hann skilar gamla fólkinu á elliheimilið þá er hann mjög þyrstur og biður um trönuberjasafa sem hann fær og nóg af honum. Gamla fólkið hélt hins vegar áfram að fá appelsínusafa þar sem trönuberjasafinn er allt of dýr til að það sé verið að spreða honum í gamla fólkið ... jamm, eða þannig.
Næst var danssýning, eða raunar tvær sýningar, hvor annarri glæsilegri.
Þar á eftir sýndu starfsmenn leikritið Mjallhvít og tröllin við mikinn fögnuð. Starfsmenn vissu ekki hvað leikrit yrði leikið eða hvað hlutverk þeir þyrftu að leika og var mjög gaman að sjá þá leika af fingrum fram og bulla alveg út í eitt.
Tveir hópar voru í kvikmyndagerð þannig að gerðar voru tvær stuttmyndir. Sú fyrri heitir Sumarbúðirnar og fjallar um tvær vinkonur sem fara í sumarbúðir. Önnur skilur hina eftir útundan og fylgir eftir vinkonuhópi sem hin er ekki velkomin í. Úr verður einelti en sú sem skilin var útundan lætur þetta ekki skemma neitt fyrir sér, heldur kynnist frábærum krökkum. Sætustu strákarnir vingast við hana og hún fer að hanga með þeim. Vinkonan og hópurinn hennar verða grænar úr öfund en býður henni og nýju vinunum að vera með í körfubolta. Myndin endar á því að allir spila saman körfubolta.
Seinni myndin heitir Sumarbústaðurinn. Hún fjallar um nokkrar 14-16 ára stelpur sem fara í leyfisleysi í sumarbústað. Þær nota plat-trix sem foreldrarnir falla fyrir og halda að þær séu bara allar hver heima hjá annarri og tékka ekki á því. Tvær þeirra eru svo kræfar að þær læðast bara út. Ein stelpan í hópnum á 25 ára kærasta sem á vín og fleira. Hann birtist með landaviðbjóð og hvetur allar til að smakka. Úr verður mikið drama, sjúkrabíll og læti, og myndin fjallar um hættur þess að drekka svona ungur og hvað þá einhvern viðbjóð.
Þetta bjuggu börnin alveg til sjálf og voru áhugasöm um að koma þessum boðskap til skila.
Þessi vika með unglingunum var einstaklega skemmtileg og við þökkum kærlega fyrir frábæra samveru og góða viku. Myndir frá lokakvöldvökunni o.fl. er á síðunni okkar, www.sumarbudir.is, tímabil 8, dagur 6.
Hrikalega miklar saknaðarkveðjur frá Kleppjárnsreykjum.
4.8.2008 | 19:09
Kertagerð, karaókí, hárgreiðslukeppni og sykurpúðaát
Dagur 5, gærdagurinn, var viðburðaríkur eins og allir hinir dagarnir. Margt var við að vera og nokkrar stöðvar opnar, sundlaugin, íþróttahúsið, útisvæðið og svo var karaókíæfing. Hluti hópsins fór í kertagerð sem er afar vinsæl hjá öllum aldurshópum sem koma til okkar.
Eftir guðdómlegan hádegisverð, pasta og pítsusnúða, voru hádegisfundirnir með umsjónarmönnunum á dagskrá en síðan hófust námskeiðin. Mikið var æft, enda sjálf lokakvöldvakan í kvöld þar sem afrakstur námskeiðanna verður sýndur.
Í gær var líka haldin hárgreiðslukeppni og tóku bæði strákar og stelpur þátt í henni. Keppnin sló gjörsamlega í gegn og hefur ekki verið jafnmikill fjöldi þátttakenda í allt sumar. Þessi börn eru ótrúlega virk og hafa einlægan áhuga á öllu sem er í boði. Það er virkilega gaman að vera með þeim ... unglingavandamál hvað!
Sigurvegarar í hárgreiðslukeppninni og hlutu verðlaun voru: Birta og Sara, sem lentu í fyrsta sæti. Inga Lóa og Eyrún Ósk í öðru sæti og Karitas og Danival í því þriðja. Frumlegasta hárgreiðslan var líka verðlaunuð en hana áttu Þórhildur Tinna og Halldóra Guðrún. Allir þátttakendur fengu að sjálfsögðu viðurkenningarskjöl
<!--[if !supportLineBreakNewLine]-->
<!--[endif]-->
Eftir kvöldmat var komið að karaókíkeppninni, eða Söngvara- og hæfileikakeppninni Ævintýrabarkanum. Börnin buðu upp á sjö atriði og stóðu sig öll mjög vel. Eftir að dómnefnd hafði ráðið ráðum sínum, slegist og rifist (djók) og stigin talin saman kom í ljós að Svanhildur Alexzandra Elínborgardóttir hafði fengið flest stig. Í öðru sæti varð Íris Árnadóttir og í því þriðja Sigurbjörg Hannah Guðmundsdóttir. Verðlaunin voru vegleg fyrir efstu þrjú sætin og allir þátttakendur fengu viðurkenningarskjal.
Ellý, söngþjálfari með meiru, kom, sá og sigraði og tók óvænt lagið og ákvað María umsjónarmaður að svara þessu með öðru lagi og hún hafði sér til aðstoðar Hrafnhildi og Ingu Láru.
Kvöldið var nú aldeilis ekki búið því að á útisvæðinu var haldinn Gummasöngur, eða Gummi umsjónarmaður spilaði á gítar og söng á meðan börnin gæddu sér á sykurpúðum, grilluðum og ógrilluðum.
Miðað við magnið sem fór af sykurpúðum þá var nú ekki reiknað með að börnin hefðu lyst á kvöldkaffi ... en jú, jú, þau borðuðu samloku, skoluðu henni niður með safa og fóru létt með það. Það er mjög gaman að gefa þessum börnum að borða, þau hafa endalausa lyst, þessar elskur.
Fjöldinn allur af myndum er kominn inn á www.sumarbudir.is. Tímabil 8, dagur 5.
Frábærar stuðkveðjur frá Kleppjárnsreykjum.
Menning og listir | Breytt 6.8.2008 kl. 10:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.8.2008 | 13:12
Æðislegur húllumhædagur og sjálfur Haffi Haff leynigesturinn ...
Það hefur verið ótrúlegt stuð hjá okkur. Nóg við að vera frá morgni til kvölds. Námskeiðin ganga mjög vel og allt er að smella saman í leiklist, grímugerð og kvikmyndagerð, handritin orðin tilbúin og æfingar/tökur hafnar af fullum krafti.
Dansinn og íþróttirnar ganga líka rosalega vel og frábær atriði að komast á koppinn. Það verða tveir hópar í dansinum og því tveir dansar sýndir á lokakvöldvökunni.
Umsjónarmenn hafa verið dularfullir og ekki viljað gefa of mikið upp um innihald atriðanna en við vitum þó að önnur kvikmyndin fjallar um einelti og hvernig sá sem verður fyrir finnur góðan vin og allt fer vel að lokum. Ekkert var gefið upp um hina myndina .... garg!
Eftir snyrtinámskeiðið sem Ellý hélt (í fyrradag) var haldin tískusýning úti í kvöldsólinni og voru frábær tilþrif sýnd á pallinum. Meira að segja umsjónarmennirnir voru frekar kúl ... þegar þeir gengu eftir pallinum.
Húllumhædagurinn í gær var alveg stórkostlegur. Þar sem laugardagar eru nammidagar var haldið í sjoppuferð og bætt við birgðirnar. Unglingatímabillin eru mjög frábrugðin öðrum tímabilum og finnst krökkum sem hafa komið áður og verið yngri, mikill munur á. Þau fara seinna að sofa, vakna seinna, dagskráin er öðruvísi og allt bara miklu frjálsara, eða þannig.
Húllumhæið hófst á kókosbolluboðhlaupi sem var mjög spennandi og bragðgott ... og síðan hófst fánaleikurinn æsispennandi þar sem krakkarnir skiptust í tvö lið, Martröð og Draum, sem börðust um ... klemmur!
Í kaffinu var boðið upp á heitar vöfflur með súkkulaðiglassúr og rjóma og vakti það þvílíka gleði. Borðuð voru nokkur tonn af vöfflum, enda mannskapurinn glorhungraður eftir öll hlaupin. Vera Sif átti afmæli, varð 12 ára. Hún fékk afmælisgjöf, afmælissöngurinn var sunginn og allir fengu ís, ávaxtaklaka, í tilefni dagsins.
Eftir kaffið var ýmislegt í boði, m.a. skartgripagerð, tattú, bandfléttur og spákonutjald. Spákonan þótti mjög glúrin og sagði krökkunum margt um glæsta framtíð sem beið þeirra. Verst að hún var tímabundin og gat ekki haldið áfram eftir kvöldmat, það var enn biðröð þegar kallað var í kvöldmat, grillaðar pylsur með tómat, sinnep og steiktum ... eða eftir smekk.
Boðið var upp á bíósýningu eftir matinn og það vakti heldur betur lukku en það besta var þó eftir ... sjálfur leynigesturinn. Á hverju ári hefur verið boðið upp á spennandi leynigest sem skemmtir krökkunum á unglingatímabilinu. Páll Óskar hefur komið a.m.k. tvisvar, ef ekki oftar, Hildur Vala kom árið sem hún varð Idol-stjarna en í ár fannst okkur enginn annar koma til greina en ... sjálfur HAFFI HAFF.
Krakkarnir voru óvænt kallaðir inn í matsal þar sem búið var að koma fyrir flottum græjum. Þau vissu ekki hvaðan á þau stóð veðrið þegar ungur maður stökk upp á eitt borðið og hóf að syngja. Tryllt öskur heyrðust í stelpunum og þær stóðu í engu að baki aðdáendum Bítlanna í gamla daga ... nema þessar rifu kannski ekki í hárið á sér og fleygðu sér í gólfið grátandi, onei. Strákarnir reyndu að sussa á þær til að það heyrðist eitthvað í tónlistinni en það tókst ekki strax ... þetta var gjörsamlega æðislegt. Haffi var alveg yndislegur og fannst mjög gaman. Stelpurnar vildu láta mynda sig
með honum eftir tónleikana og hann fór ekki fyrr en allar áttu mynd af sér með honum. Strákarnir stilltu sig aðeins betur ... en skemmtu sér ekki síður en stelpurnar. Þær sem ekki voru með myndavél voru myndaðar af okkur og geta nálgast myndirnar á heimasíðunni, www.sumarbudir.is. Þar eru komnar ótrúlega margar myndir inn, tímabil 8, dagar 3 og 4.
Bandbrjálaðar stuðkveðjur frá Kleppjárnsreykjum ... úúúúúú ...
1.8.2008 | 23:10
Mörk óttans, diskó, pítsuveisla, reiðnámskeið ... algjört stuð
Gærdagurinn var frábær og veðrið lék við okkur. Allir vöknuðu hressir, enda var sofnað á skikkanlegum tíma. Af öllum þessum fjölda eru ekki nema tíu sem eru á reiðnámskeiðinu og þessir tíu drifu sig eldsnemma af stað. Eins og sjá má á myndunum var riðið um fallegar slóðir og þetta virðast þaulvanir krakkar, sumir meira að segja með sirkusmenntun ... hehehe
Stór hluti barnanna fór í sund og aðrir út í íþróttahús. Enginn áhugi var á gönguferð, sem var í boði, en útisvæðið var vinsælt. Vel var borðað í hádeginu og þjónar dagsins voru ótrúlega duglegir.
Eftir hádegismat var herbergistiltekt og síðan tékk og voru herbergin öll mjög fín. Sumir voru reyndar enn að endurraða í töskurnar á meðan við mynduðum en við vorum of snemma á ferð ...
Þegar því var lokið voru haldnir hádegisfundir, hver hópur fundaði með umsjónarmanni sínum og síðan hófust námskeiðin kl. 14.30.
Eftir kaffi, áður en stöðvarnar opnuðu, var Ellý með dúndrandi forvarnarfyrirlestur eins og alltaf á hverju ári á unglingatímabilinu. Börnin hlustuðu af mikilli athygli á hana og töluðu um að það væri eins gott að passa í sig í þessum harða heimi.
Þú ert það sem þú hugsar, er setning sem mikið er notuð hérna og okkur langar mikið til að reyna að troða henni sem þema inn í kvikmyndagerðina sem vinnur að stuttmynd núna. Ekki er þó víst að það takist, börnin ráða svo miklu ... og þau vilja bara hryllingsmyndir. Hahaha.
Í gærkvöldi, eftir dásamlega pítsuveislu voru MÖRK ÓTTANS, æsispennandi leikur sem reynir á kjarkinn, kraftana, skynsemi og þanþol óttans ... úúúúúú ... eða þannig. Fyrsta þrautin er kraftaþraut, síðan þarf að púsla risapúsli, þá drekka verulega viðbjóðslegan ógeðsdrykk, svona þriðja stigs, ekkert súrmjólk og sinnep hér ... og síðast þarf að leysa tvær þrautir inni í draugahúsinu þar sem heilir þrír draugar reyndu að hræða líftóruna úr hetjunum ungu í dimmu herbergi. Það var heilmikið skrækt ... en meira af spenningi en hræðslu hjá flestum. Það munaði mjög litlu á liðunum sem kepptu en eins og venjulega þá sigraði stelpulið ... og það hefur gerst í allt sumar. Hvar er Jafnréttisráð? Það munaði reyndar bara hálfu stigi á stelpuhópnum og þeim næsta á eftir en hér eru sigurvegararnir: Agnes Helga Jónsdóttir, Arndís Sara Gunnarsdóttir, Berglind Ólafsdóttir, Brynja Sif Sigurjónsdóttir, Edda Ingibjörg Þórsdóttir, Elín Andra Helgadóttir, Fernanda Palma Rocha, Helga María Kristinsdóttir, Kolbrún Edda Jónsdóttir, Kolfinna Karen Andersen, Kristbjörg Guðrún Halldórsdóttir, Lilja Dís Kristjánsdóttir, Marey Þóra Guðmundsdóttir, María Egilsdóttir, Sóley Þórsdóttir, Sólveig Ásta B. og Thelma Ósk Þórðardóttir.
Dagurinn í dag var mjög skemmtilegur, námskeiðin héldu áfram og svo eftir kaffi var Ellý með námskeið í umhirðu húðar fyrir bæði kynin. Allir fengu gjöf í lokin og voru strákarnir einstaklega ánægðir með það sem þeir fengu, skrúbbsápu, dagkrem og ilmvatn fyrir karlmenn. Þeir fóru allir beint í sund á eftir, enda talaði Ellý um að vatn væri númer eitt, tvö og þrjú, bæði að innan og utan. Táfýla ekki góð, hreinar tennur algjört möst og sturta á hverjum degi. Strákarnir hlustuðu vel og fóru sáttir í sund. Ellý hélt stelpunum eftir og talaði um förðun við þær, eitthvað sem strákarnir höfðu engan áhuga á.
Í kvöld dunaði diskóið á fullu (eftir dásamlega kjúklingaveislu) en hægt var að hvíla sig aðeins á milli og skreppa í Spilaborg og fá tattú og bandfléttur og svo aftur inn í stuðið. Frábær dagur, mikið fjör, dýrlegir krakkar!!!
Nýjar myndir eru komnar á www.sumarbudir.is, dagur 2.
Dillandi diskókveðjur frá Kleppjárnsreykjum
31.7.2008 | 01:34
Steikjandi hiti og óvæntur ísbíll
Þá er unglingatímabilið hafið, síðasta tímabil sumarsins, og kom full rúta (plús rútukálfur) upp úr hádegi með frábæran og hressan hóp innanborðs.
Krakkarnir eru greinilega mikið fyrir útiveru. Það kom þó fyrir í dag, þennan mikla molludag, að börnin flúðu hitann og kældu sig inni. Ekkert skrýtið. Það var glampandi sól og tæplega 30 stiga steikjandi hiti.
Börnin skoðuðu svæðið úti sem inni, skúffukaka var borðuð í kaffinu og líka melónur. Þau völdu sér síðan námskeið til að vera á alla vikuna og verður afrakstur þeirra sýndur á lokakvöldvökunni síðasta kvöldið.
Alveg óvænt mætti ísbíll á svæðið um kl. 18 og vakti þvílíka lukku. Flest börnin keyptu sér ís og voru alsæl.
Venjulega vilja börnin í þessum aldurshópi, 12-14 ára, vera sem mest inni á herbergjum sínum fyrsta kvöldið en þessi hópur er öðruvísi, flest vildu vera úti og kíkja bara annað slagið inn.
Nokkuð margir fóru í sund en hinir voru til skiptis á útisvæðinu eða inni í Spilaborg þar sem mikið val er um afþreyingu, skemmtileg spil, bækur, töfl og hægt að fara í billjarð og borðtennis.
Myndir eru komnar inn á www.sumarbudir.is, tímabil 8, dagur 1 og 1framhald.
Meira á morgun.
Stuðkveðjur úr hitanum á Kleppjárnsreykjum.
29.7.2008 | 17:26
Æðislegur lokadagur og frábær hópur!
Jæja, þá er þessu frábæra tímabili bara lokið og bloggsíðan okkar loksins komin í lag eftir bilun síðan í gær hjá blog.is.
Síðasti dagurinn var alveg stórskemmtilegur.
Margt var við að vera, m.a. voru haldnar lokaæfingar fyrir lokakvöldvökuna, pakkað var niður og svo var umhverfið gert fallegra með vikulegri ruslatínslu. Þeir sem taka þátt í henni fá verðlaun og mjög stór hluti barnanna var sko alveg til í að sópa, tína upp rusl og fá svo eitthvað fallegt að launum.
Fyrir kvöldmat fóru börnin í herbergin sín og klæddu sig upp á í tilefni dagsins. Maturinn vakti mikla lukku en boðið var upp á hamborgara, franskar, sósu, salat og gos með. Það ríkir alltaf mikil hátíðarstemmning í lokakvöldverðinum og ekki er verra hvað börnin voru ánægð með matinn.
Kvölddagskráin hófst með glæsilegri myndlistarsýningu sem bar nafnið Náttúran og ég, það erum við. Myndlistarhópurinn sýndi afar flott listaverk eins og sjá má á myndunum á sumarbudir.is.
Síðan var haldið út í íþróttahús þar sem lokakvöldvakan hélt áfram. Íþróttahópurinn sýndi leiklitið Úr sveit í fótbolta og var það alveg æðislega skemmtilegt og flott hjá krökkunum.
Grímugerð og leiklist höfðu tekið sig saman, sömdu leikritið Allt getur gerst á einum degi og sýndu það við mikil fagnaðarlæti.
Kvikmyndagerðin var síðust og sýndi stuttmyndina Ógæfuhúsið, ferlega flotta mynd.
Áður en stuttmyndin var sýnd tróðu starfsmenn upp með leikrit sem "kvikindislegi" sumarbúðastjórinn lét þá leika óundirbúið. Þetta var leikritið Mjallhvít og tröllin. Davíð lék prinsinn og þegar hann bað Mjallhvítar svaraði hún ekki alveg strax og hann fékk frekjukast þannig að sundgleraugun spýttust af honum og allt varð vitlaust úr hlátri í salnum. Og þegar vonda drottningin, stjúpa Mjallhvítar, spurði spegilinn hver væri fegurst (eftir að veiðimaðurinn hafði fært henni hjartað úr
Mjallhvíti) sagði spegillinn við drottninguna að hún væri ótrúlega vitlaus að hafa kvöldinu áður grillað hjarta úr villisvíni með riðuveiki. Drottningin, leikin af Maríu, sagði þá við spegilinn: Rólegan æsing eða ég brýt þig!
Mjög flott leyniatriði var sýnt en þau Stefanía og Gunnar dönsuðu tvo samkvæmisdansa fyrir hópinn og vöktu mikla lukku.
Þetta var sannarlega vel heppnuð lokakvöldvaka og bara öll vikan var alveg æðisleg. Hópurinn var frábær og sem dæmi má nefna þá voru strákarnir einstaklega góðir að fara að sofa. Við vissum ekkert af þeim á kvöldin. Þeir hlustuðu á kvöldsögu, spiluðu, lásu og fóru svo bara að sofa ... ÖLL kvöldin.
Ekki það að börnin séu venjulega eitthvað óþekk, þetta var bara alveg sérstakt, þeir voru svo sallarólegir. Stelpurnar voru líka alveg dýrlegar.
Mikið þökkum við ykkur öllum vel fyrir góð kynni og einstaklega skemmtilega samveru síðustu vikuna!
Saknaðarkveðjur frá Kleppjárnsreykjum
Fjöldi mynda er (loksins, það var líka bilun hjá okkur) kominn inn á www.sumarbudir.is.
Tímabil 7, dagur 6, 6frh og 6frh2. Endilega kíkið á myndirnar, þær segja meira en mörg orð.
28.7.2008 | 12:06
Ævintýrabarkinn, hárgreiðslukeppni og fleira stuð
Í gærmorgun var nóg við að vera, haldin var m.a. næstsíðasta æfingin fyrir Söngvara- og hæfileikakeppnina Ævintýrabarkann. Margir voru á útisvæði, fóru í sund eða húlakeppni í íþróttahúsinu. Húlameistarar Ævintýralands eru: Birgitta og Anna Petra í fyrsta sæti og í öðru sæti Íris Jana.
Mikil leynd hvílir yfir grímugerðarleikritinu sem verið er að æfa og verður sýnt í kvöld á lokakvöldvökunni, þótt við reyndum að njósna fengum við ekkert að vita. Tökum í kvikmyndagerð er lokið en börnin eiga þó eftir að gera eitthvert aukaefni, spaug sem lætur starfsmennina fá á baukinn ... við hlökkum til að sjá hvað litlu krúttin ætla að gera okkur, eða þannig.
Hárgreiðslukeppnin var haldin í gær, var mjög vinsæl og hér koma úrslitin: Í fyrsta sæti lenti Svanhildur Alexzandra og Linda. Í öðru sæti Anný Björk og Íris Jana og í þriðja sæti Guðmunda Líf og Lea.
1. Svanhildur Alexzandra og Linda. 2. Anný Björk og Íris Jana. 3. Guðmunda Líf og Lea
Frumlegasta hárgreiðslan: Steinunn Rán og Sonja Rún
Heil 16 atriði voru síðan á dagskrá í Söngvara- og hæfileikakeppninni Ævintýrabarkanum og að þessu sinni sýndu bara stelpur! Það er mjög óvenjulegt að strákar taki ekki þátt en þá hefur greinilega langað til að vera áhorfendur ... sem er auðvitað stórskemmtilegt líka, tala nú ekki um þægilegt ... hahahahah!
Þátttakendur:
Alexandra Diljá Arnarsdóttir, Alexandra Gná Hauksdóttir, Annarósa Ósk Magnúsd., Anný Björk Arnardóttir, Aþena Ýr Káradóttir, Dagbjört Ottesen, Eva Grímsdóttir, Eydís Sara Ágústsdóttir, Guðmunda Líf Gísladóttir, Halldóra Kristín Lárusdóttir, Halldóra Vera Elínborgardóttir, Hekla Bender Bjarnadóttir, Kolbrún Júlía Guðfinnsdóttir, Krista María Finnbjörnsdóttir, Kristín Harpa Jónsdóttir, Lára Margrét Lárusdóttir, Málfríður Arna Helgadóttir, Ragna Sól Ágústsdóttir, Sædís Ósk Færseth, Silja Katrín Davíðsdóttir, Steinunn Rán Bengtsdóttir og Telma Rós Hallsdóttir.Svanhildur Alexzandra var með skemmtiatriði en tók ekki þátt í keppninni sjálfri. Þetta var æðislega flott keppni og þegar dómnefnd taldi stigin kom í ljós að þetta var ótrúlega jöfn keppni. Í fyrsta sæti varð þó Eydís Sara Ágústsdóttir sem söng lagið Vetrarsól. Í öðru sæti þær Kolbrún Júlía og Sædís Ósk og Hekla Bender lenti í því þriðja. Þrjú efstu sætin eru verðlaunasæti en allir fengu viðurkenningarskjöl fyrir þátttökuna.
Í dag verður byrjað að pakka niður og telja niður að lokakvöldvökunni. Hátíðarkvöldverðurinn er í kvöld og mæta allir í sínu fínasta pússi. Líkast til verður byrjað á myndlistarsýningunni eftir matinn og síðan haldið í íþróttahúsið til að horfa á leikrit grímugerðar- og leiklistarhópa, dansinn, íþróttahópinn og hrikalega fyndið leikrit starfsmanna. Síðast verður stuttmynd kvikmyndagerðarhópsins sýnd. Það verður rosamikið við að vera í kvöld og frábært að sjá afrakstur allrar vinnunnar á námskeiðunum undanfarið.
Nýjar myndir eru komnar inn á www.sumarbudir.is, frá degi 5 og alveg heill hellingur af þeim.
Sólríkar sumarbúðakveðjur frá Kleppjárnsreykjum
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 12:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.7.2008 | 01:18
Kókosbolluboðhlaup, fánaleikur, súkkulaðivöfflur og önnur snilld
Mikið var þetta skemmtilegur og frábær húllumhæ-dagur. Fánaleikurinn var alveg rosalega vel heppnaður og næstum öll börnin tóku þátt í honum.
Það er alltaf val í Ævintýralandi, ekki sagt: "Jæja, nú eiga allir að fara í fánaleik!" heldur er fleira í boði og börnin elska þetta. Nokkur börn kusu frekar að fá tattú og bandfléttur, enda þarf helst að bjóða upp á það á hverjum degi til að allir geti fengið. Þetta er svo vinsælt.
Fánaleiks-hópnum var skipt í tvennt, tvö lið sem heita Draumur og Martröð.
Liðsmenn Draums fengu rauða stríðsmálninu og þau í Martröð bláa.
Kannski ekkert skrýtið þótt börnin kalli þetta hermannaleikinn. Þetta var mikill hamagangur og bara hrikalegt fjör að berjast svona um ... þvottaklemmur.
En fyrst var kókosbollu-boðhlaupið og það var náttúrlega alveg brjálað. Börnin stóðu sig mjög vel, voru eldfljót með kókosbolluna og hlupu svo af stað svo næsti í liðinu gæti tekið þátt. Á eftir keppti starfsfólkið og þar ríkti líka mikill keppnisandi!
Í kaffinu voru það svo vöfflurnar gómsætu með súkkulaði og rjóma og voru eflaust nokkur hundruð vöfflur borðaðar! Eða bara milljón!
Of mikið rok var úti til að hægt væri að vera með dagskrána þar svo hún var bara flutt inn en sumt þarf þó að vera inni á húllumhædegi, eins og skartgripa-gerðin, keilukeppnin og ... úúúú, spákonan kulsækna.
Jósefína Potter var rosalega spúkí og fannst krökkunum hrikalega gaman að fara til hennar. Þau sögðu samt flest þegar þau komu fram: Þetta var bara hún Inga Lára!
Keilukeppni var haldin í bláa herberginu, skartgripagerðin í matsalnum en sápukúlu-sprengikeppnin reyndar úti í smáskjóli þó.
Rokið varð þó til þess að ekki var hægt að grilla pylsurnar úti en þær runnu samt ljúft niður. Svo var það bara kvikmyndahús Ævintýralands. Sýndar voru myndir í tveimur sölum, alltaf val ... poppkorn og safi í hlé og allir mjög glaðir.
Börnin voru úrvinda eftir viðburðaríkan dag og voru fljót að sofna.
Myndir frá deginum eru á www.sumarbudir.is. Tímabil 7, dagur 4, 4framhald og 4framhald2.
Gómsætar vöfflukveðjur frá Kleppjárnsreykjum!
Menning og listir | Breytt 28.7.2008 kl. 12:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.7.2008 | 16:54
Húllumhæ I - myndir frá námskeiðum og vinabandagerð
Frábærar myndir eru komnar inn, m.a. síðan í gærkvöldi en þá voru krakkarnir að gera vinabönd á náttfötunum inni á herbergjum.
Þetta sló reyndar öllu meira í gegn hjá stelpunum, held samt að þeir hafi ekki búið til óvinabönd ...
Dagurinn í dag, húllumhædagurinn, hófst á námskeiðunum og fór sumarbúðastjórinn um allt og tók myndir af hópunum.
Grímugerðarhópurinn byrjaði að mála grímurnar sínar í morgun og þær eru rosalega flottar.
Hugmyndaflugið hjá börnunum er stórkostlegt og sannir listamenn þarna á ferð.
Börn búa yfir svo mikilli sköpunargleði og þau hafa sannarlega blómstrað núna undanfarið og sýnt hvað í þeim býr. Einbeitingin leynir sér ekki í svip þeirra, eins og sést á myndunum. Gríman hægra megin er mjög frumleg og gaman að vita hvaða hlutverk skapari hennar mun leika í leikritinu. Það kemur allt í ljós á mánudagskvöldið.
Kvikmyndagerðin er búin að semja handrit að stuttmyndinni og tökur eru hafnar.
Okkur heyrðist, þótt laumulega væri farið með handritið, enda algjört leyndarmál, að það kæmu þar m.a. rassálfar fram.
Þau eru búin að velja sér búninga og eru frekar vígaleg í þeim eins og sjá má á myndinni hérna hægra megin. Stuttmyndir Ævintýralands eru hver annarri flottari og skemmtilegri og bera sköpunargáfu krakkanna sterk merki. Kannski tekst okkur einhvern daginn að skella þeim inn á bloggið svo aðrir fái notið þeirra. Hver veit!
Grímugerð og leiklist sameinuðust í einu leikriti og eru búin að leggja síðustu hönd á handrit leikritsins, búið er að skipa í hlutverk og velja búninga og fyrstu æfingar hefjast á morgun, sunnudag.
Íþróttahópurinn er að búa til mjög flott atriði sem verður sýnt á lokakvöldvökunni og ríkir mikill spenningur í hópnum. Dansinn dunar hjá danshópnum og verður sýningin þeirra án efa stórkostleg. Mynd af íþróttahópnum er vitanlega tekin í markinu og danshópurinn tók sér smáhlé frá æfingum og stillti sér upp í dansstúdíóinu! Með því að setja bendilinn á myndirnar sést myndatextinn.
Myndlistarhópurinn vann í dag með náttúruleg efni og verður æsispennandi að sjá hvað kemur út úr því, betur sést á myndunum hvað um er að ræða. Haldin verður myndlistarsýning í upphafi lokakvöldvökunnar.
Eftir hádegismatinn (Grjónagraut og melónur í eftirmat) var húllumhædagurinn settur. Myndir frá honum koma í kvöld. En kókosbolluboðhlaupið verður fyrst á dagskrá og síðan fánaleikurinn fjörugi.
Í kaffinu glöddust mörg hjörtu ósegjanlega mikið þegar ilmandi vöfflulykt tók á móti þeim í matsalnum. Jú, jú, nýbakaðar vöfflur með súkkulaðiglassúr og rjóma biðu þeirra í himinháum stöflum. Vöfflurnar hennar Sigurjónu glatt þúsundir barna í sumarbúðunum í gegnum árin. Ef maður hefur einu sinni smakkað vöfflur með súkkulaði og rjóma er erfitt að snúa til baka ... eða þannig. Þetta er svona sambland af bolludeginum og jólunum ... ja, eða bara ólýsanlegt.
Veðrið er frábært, sól og hiti ... en svolítið rok. Við vonum að það fari að lægja núna seinnipartinn en ef ekki þá fá börnin bara að ráða ... ef þau vilja vera inni þá flytjum við dagskrána þangað og verður margt í boði, m.a. skartgripagerð, spákonutjald, tattú, bandfléttur, Spilaborg og sitt af hverju. Það er líka leiðinlegt ef allt fýkur út um allt.
Fyrstu myndir frá degi 4 eru komnar inn á www.sumarbudir.is. Myndir af námskeiðunum síðan í morgun og frá vinabandagerðinni í gærkvöldi. Myndirnar á blogginu stækka ef klikkað er á þær með músinni og einnig á heimasíðunni.
Sólskins-hita-og rok-kveðjur frá Kleppjárnsreykjum
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 16:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.7.2008 | 02:26
Dillandi diskó á degi 3
Í dag, föstudag, var veðrið gjörsamlega dásamlegt, sól og hiti. Þau börn sem ekki fóru á reiðnámskeið eða á karaókíæfingu í morgun skelltu sér í sund, einnig var boðið upp á gönguferð og sippukeppni á útisvæðinu ...
Námskeiðin voru að vanda eftir hádegismatinn (kakósúpu, tvíbökur og ávexti). En eftir kaffi var börnunum boðið á leiksýningu. Starfsfólkið lék skemmtilegt leikrit með alvarlegum undirtóni. Það tekur m.a. á einelti og sýnir hvað gott er að tala um hlutina, ekki byrgja þá inni. Krökkunum fannst góðuráðavélin með þau Ping og Pong innbyrðis alveg frábær og fyndin, svona á milli alvarlegri atriðanna.
Síðan var sund, karaókíæfing, útisvæði og kertagerð og klukkutíma fyrir mat fóru þau í herbergin ... stórviðburður var fram undan, eða diskótek og þau þurftu að klæða sig í flott föt, sjálfan diskógallann.
Í kvöldmat var kjúklingur, franskar, kokkteilsósa og gular baunir, heldur betur vinsælt og svo var haldið á diskóið þar sem var brjálað fjör. Reykvélin var pumpuð aðeins of mikið og brunavarnarkerfið fór í gang. Þótt við vissum ástæðuna fyrir ýlinu rýmdum við húsið á innan við einni mínútu en svo hélt fjörið áfram. Einnig var boðið upp á bandfléttur og tattú og síðan var útisvæðið opnað og einnig Spilaborg.
Það voru þreyttir diskókrakkar sem lögðust til svefns og sum sofnuðu hreinlega á meðan framahaldssögurnar voru lesnar. Umsjónarmenn buðu góða nótt og næturverðir tóku við. Þriðji dagurinn á enda runninn og svona líka skemmtilegur!
Gleymdi að geta þess í síðustu færslu að hringurinn sem börnin mynduðu á leiksvæðinu og sést á mynd þar er þannig tilkominn að þau leiddust öll frá túninu (þar sem ógeðsdrykkurinn í Mörkum óttans var drukkinn af hetju úr hverjum hópi) og svo var engin leið að hætta, búnir til hringir og dansað og leikið sér um svæðið.
Á morgun, laugardag, verður húllumhædagur og þá verður mikið fjör. Námskeiðin verða að þessu sinni fyrir hádegi. Hinn vinsæli fánaleikur (sem heitir reyndar aldrei neitt annað en hermannaleikur hjá krökkunum) skellur á strax eftir hádegismatinn (grjónagraut og melónur á eftir). Margt, margt verður í boði, enda mun ríkja 17. júní-stemmning, og meira að segja mætir virðuleg spákerling úr Borgarnesi, frú Jósefína Potter. Hún hefur mætt hvern laugardag í sumar ... og það er alveg merkilegt með börnin, þau eru ekkert rosalega spennt að vita hvað hún segir, þau langar bara að vita hver af starfsmönnunum er í þessum dularfulla búningi! Hnuss, auðvitað dettur okkur ekki í hug að plata blessuð börnin og dulbúa starfsmann ... sussumsvei!
Um kvöldið verður síðan vídjókvöld, líklega tvær myndir í boði og svo popp og safi í hléinu. Bara æði!
Myndir frá degi 3, ásamt reiðnámskeiðinu á degi 2, eru komnar inn á www.sumarbudir.is. Myndirnar stækka ef klikkað er á þær.
Sólskins- og diskókveðjur frá Kleppjárnsreykjum

Um bloggið
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (7.7.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar