Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Lokadagarnir, takk fyrir frábæra viku!

Frumlegasta hárgreiðslanÞá er tímabili 2 lokið. Börnin fóru heim í dag og hafa án efa glaðst ógurlega yfir að hitta fólkið sitt þótt það hafi verið gaman í sumarbúðunum.

 

Strákarnir einbeittir í hárgreiðslukeppninniSunnudagurinn gekk rosalega vel. Hárgreiðslukeppni var haldin að vanda og tóku bæði stelpur og strákar þátt. Krakkarnir sýndu mikið listfengi þegar þeir breyttu venjulegu hári í sannkallað listaverk. Veitt voru verðlaun fyrir flottustu hárgreiðsluna, 1., 2. og 3. sætið og svo fyrir þá frumlegustu. Allir fengu viðurkenningarskjöl.

 

Gönguferð í góða veðrinuÝmsir völdu að fara í góða gönguferð um fallegt nágrennið, aðrir léku sér úti í góða veðrinu. Í sumarbúðunum er engin skylda að gera eitthvað, allir hafa val. Ekki eru allir í sumarbúðunum „dregnir“ í gönguferð, heldur má velja um svo margt. Þegar sólin er orðin þreytandi má líka skreppa inn og þar er sitt af hverju í boði líka. Það má velja um svo margt, fara í sund, vera á stöð, fara í göngutúr eða gera hvaðeina sem hugurinn girnist. Krakkarnir kunna vel að meta valið.

 

1. sætiFiskur var í matinn á sunnudagskvöldið og vakti heilmikla lukku hjá krökkunum og svo var grjónagrautur í eftirmat. Alltaf gott að stappa saman fisk, kartöflur og tómatsósu.

 

Svo var komið að Söngvara- og hæfileikakeppninni Ævintýrabarkanum. Keppendur stigu á svið hver af öðrum og keppnin var hörð og jöfn. Eftir að dómnefnd hafði talið saman stigin kom í ljós hverjir höfðu orðið hlutskarpastir.

 

2. sætiðErna María og Rebekka Ósk Svavarsdætur urðu í fyrsta sæti en þær sungu lagið Ó, María án undirleiks.

 

Sóley Ólöf Rún Guðmarsdóttir (hetjan úr leiknum Mörk óttans fyrr í vikunni) söng lagið Ég sjálf og lenti í öðru sæti.

 

3. sætiðÓlafur Gunnar Daníelsson, Rúnar Sindri Þorsteinsson og Sigurður Þór Daníelsson sungu rapplagið Upphafið og þeirra var þriðja sætið. Ólafur og Sigurður eru tvíburar.

 

Allir þátttakendur fengu viðurkenningarskjöl og þrír efstu verðlaun.

 

GrímugerðarleikritiðDagur 6, mánudagur, hófst með miklum spenningi, þetta var lokadagurinn og bara rúmur sólarhringur í heimferð. Um kvöldið átti að sýna afrakstur námskeiðanna. Myndlistarsýningin var sett upp, lokaæfingar fóru fram á leikritum, bæði hjá leiklist og grímugerð. Danshópurinn og íþróttahópurinn æfðu sig, allt varð að vera fullkomið fyrir kvöldið. Davíð var ekkert nema einbeitnin þegar hann klippti spennumyndina æsilegu sem kvikmyndagerðarhópurinn hafði gert.

 

LeiklistinÞað má segja að börnin geri allt sjálf, alveg frá A-Ö. Þau semja handritin (grímugerð, leiklist, kvikmyndagerð), skipa í hlutverk, velja sér búninga og sköpunargleðin ræður ríkjum frá fyrsta degi. Ef hugmyndirnar eru illframkvæmanlegar er þeim beint í aðra átt og þá koma alltaf nýjar og flottar hugmyndir í staðinn.

 

Börn eru mikill fjársjóður hugmynda, óheft og dásamlega skapandi! Þau finna alltaf leiðir framhjá vandamálum og eru ótrúlega jákvæð og skemmtileg.

 

KertagerðEins og venjulega er ruslatínsludagur á mánudögum. Þá fara nokkrir krakkar, yfirleitt frekar margir, í kringum húsið og tína allt það rusl sem þeir finna. Síðan mega þau velja sér einhvern einn flottan hlut úr ruslatínsluverðlaunakassanum.

 

Svo var kertagerð seinnipartinn en hún hefur alltaf verið mjög vinsæl. Börnin líma sprittkerti á stein og skreyta á allan máta. 

 

DanssýninginSmám saman náði hátíðarstemmingin tökum á krökkunum þegar leið á daginn, enda búið að pakka megninu af farangrinum niður, bara ekki sparifötunum en fyrir kvöldmat var skipt um föt og farið í fínasta pússið. Hamborgaraveisla var fram undan og meira að segja gos með. Maturinn fór vel ofan í mannskapinn og þegar búið var að borða var hlaupið út í íþróttahús en þar fór lokakvöldvakan fram. Sýningarnar voru hver annarri flottari og mikið klappað og hrópað.

 

Starfsmenn léku leikritið BúkollaStarfsmenn vekja alltaf miklu lukku á lokakvöldvökunni en þá þurfa þeir að leika leikrit, algjörlega óundirbúið. Aðeins Svanhildur sumarbúðastjóri veit hvaða leikrit það er! Hún tilkynnir starfsmönnunum það og lætur þá draga miða úr hatti sem ákvarðar hvaða hlutverk hver fær. Leikritið Búkolla var leikið og krakkarnir örguðu úr hlátri yfir óundirbúnu starfsfólkinu sem reyndi þó að gera sitt besta.

 

Spilað í HafmeyjaherberginuEftir kvöldkaffi var síðan horft á spennumyndina sem kvikmyndagerðarhópurinn hafði gert. Myndin heitir Sa Vinci Code og var ótrúlega spennandi. Spenntir og glaðir krakkar lögðust til svefns síðasta kvöldið, hlustuðu á lokin á framhaldssögunum sem höfðu verið lesnar á hverju kvöldi alla vikuna. Að sögn næturvarða gekk þeim samt vel að sofna. Svo var vaknað í morgunverðarhlaðborðið og vel tekið til matar síns. Ristað brauð, Cheerios, kornflakes, súrmjólk, hafragrautur ... nammi, namm.

 

Fagurlega skreyttar grímurNú er verið að þrífa allt hátt og lágt og von er á stórum hópi kátra barna á morgun. Við minnum á að Ævintýrarútan leggur alltaf í hann frá PERLUNNI, tekur upp Skagakrakka við Hvalfjarðargöngin og börn frá Borgarnesi og börn að norðan/vestan í Borgarnesi og ekur síðan beinustu leið í sumarbúðirnar þar sem ævintýrin bíða.

 

Allar myndir á tímabili 2 eru nú komnar inn á www.sumarbudir.is. Endilega kíkið á þær. Þar eru líka gagnlegar upplýsingar.

 

Okkur langar að þakka öllum börnunum sem komu á tímabil 2 kærlega fyrir frábæra viku.


Fjör og annríki og nýjar myndir!

Dagskráin í dagHúllumhæ að hefjastEnn skín sólin glatt eins og vera ber í sumarbúðum.Lítill tími er þó til að liggja í sólbaði, kannski er það líka svona meira fullorðins ...

 

 

Nýjar myndir voru að koma inn á www.sumarbudir.is og má þar finna ýmsa atburði gærdagsins undir: Tímabil 2, dagur 4.

 

 

Draumur, rauðliðarMartröð, bláliðarÍ morgun var val um góða gönguferð í sólinni, sund, útisvæði og já, svo var karaókíæfing því að senn líður að Söngvara- og hæfileikakeppninni Ævintýrabarkanum sem verður haldin í kvöld. Verðlaun verða veitt fyrir þrjú efstu sætin en allir fá viðurkenningarskjöl. Það þarf heilmikinn kjark til að syngja og skemmta fyrir framan stóran hóp.

 

 

14 vöfflur á mann, eða hvaðVöffluveislaÍ hádeginu borðuðu börnin pastaskrúfur og nýbakaða pítsasnúða og í kvöld verður fiskur.

 

Á síðasta tímabili kveinaði einn strákurinn: „Æ, er fiskur í matinn? Hann var örugglega þrisvar í viku í skólamötuneytinu mínu og ég er sko alveg búinn að fá nóg!“ Hann fékk reyndar hrísgrjónagraut og brauð það kvöldið og var alsæll með það, enda stranglega bannað að fara svangur út úr matsalnum. Fiskurinn rann þó ljúflega niður hjá langsamlega flestum sem stöppuðu hann með kartöflum og tómatsósu sem er svo rosalega gott!

 

 

SkartgripagerðinEfni í skartgripagerðHárgreiðslukeppni verður eftir kaffi í dag og alveg einstakt hvað hægt er að gera flottar hárgreiðslur. Bæði stelpur og strákar taka þátt. Strákarnir er margir svo stutthærðir að það var bara hægt að búa til drög að hanakambi á suma þeirra, samt rosaflott. Auðveldara er að gera flottar greiðslur hjá stelpunum.

 

 

 

SápukúlusprengikeppniInga Lára bláliði, í MartröðHér í færslunni má sjá ýmsar myndir frá húllumhædeginum, skartgripagerð, fánaleiknum, sápukúlusprengikeppni og vöffluáti.

Myndirnar stækka heilmikið ef ýtt er á þær og enn meira ef ýtt er aftur. Ef bendillinn er settur yfir myndirnar kemur myndatexti. En látum þetta duga að sinni. Á morgun kemur í ljós hverjir sigruðu í Ævintýrabarkanum og fleira og fleira.

 

Sólskinskveðjur frá Kleppjárnsreykjum!


Góður húllumhædagur, Draumur vs Martröð og nýjar myndir!

Viltu kjúkling, vænaAlla helgina hefur ríkt sannkölluð veðurblíða og heilu lítrarnir af sólvörn notaðir á börnin. Eftir annasaman dag í gær (föstudag) var kjúklingurinn heldur betur vinsæll og líka frönskurnar.

 

DiskóÁ föstudagskvöldi var haldið diskó fyrir þau börn sem það vildu og ríkti mikið stuð í græjunum hjá Davíð. Þeir sem kusu meiri rólegheit gátu fengið bandfléttur eða tattú. Sumarbúðirnar eiga líka gott bókasafn og var gaman að sjá tvær stelpur taka sér hvor sína bók um Inga Lára setur sólvörn á einn strákinn sinnLúlla mjólkurpóst og ætluðu báðar að lesa um Lúlla fyrir svefninn og jafnvel reyna að klára fyrir þriðjudag þegar dvölinni lýkur. Ein sagðist ætla að reyna að finna Lúllabækurnar í bókasafninu fyrst þær væru svona hrikalega fyndnar. Sú fyrsta heitir Liðið hans Lúlla og er alveg bráðfyndin.

 

 

Pollý umkringd hressum stelpumÍ morgun, laugardag, voru námskeiðin fyrir hádegi en það er vegna þess að húllumhæ-dagurinn skall á um tvöleytið, strax eftir hádegisfundi hvers hóps með umsjónarmanni sínum. Á fundinum er staðan tekin, stundum farið í leiki og alltaf spjallað saman. Einn lítill gutti vissi af húllumhædeginum og hélt að þann dag færi fram húlahringjakeppni. Hann virtist hálffeginn þegar það var leiðrétt.

 

Ósk tattúmeistariAllir umsjónarmennirnir voru uppáklæddir í flotta búninga kl. 14 og Svanhildur sumarbúðastjóri kom út með gjallarhornið og setti fánaleikinn með stæl. Börn harðneita reyndar að kalla þetta annað en hermannaleikinn. Tvö lið að keppa um klemmur ... hvað getur það heitið annað en stríð? Hmmmm ... Rauða liðið heitir Draumur og krakkarnir þar innanborðs fengu rauðar rákir á kinnarnar með andlitsmálningu, bláa liðið heitir Martröð og fékk bláar rendur. Þau voru ansi vígaleg. Þeir sem vildu meiri rólegheit sátu í sólinni og fengu bandfléttu eða tattú, krítuðu á stéttina og sitthvað fleira.

 

KarókíæfingÞað rignir bókstaflega aldrei í Borgarfirðinum, að sögn Arnars, frábærs starfsmanns sem er héðan úr sveitinni, en í lokin á fánaleiknum kom reyndar hellidemba í smástund. Algjör tilviljun, að sögn Arnars. Krakkarnir þustu inn, sumir áttu fótum fjör að launa og nokkrir fóru í bingó fram að kaffi. Vinningshafarnir í rigningarbingóinu heita Viktoría Líf og Elín Inga. Bingóstjóri var Salomé.

 

SkartgripagerðÍ kaffinu voru vöfflurnar góðu, þessar með súkkulaðikremi og rjóma. Tveir guttar spurðu hvort það væri nokkuð bara ein vaffla á mann, hvort það væri ekki hægt að fá tvær eða þrjár. Sigurjóna hélt það nú, það væri regla í matsalnum að enginn mætti fara þaðan svangur.

 

Eftir kaffi fóru sumir í skartgripagerð, bæði strákar og stelpur, öll ætluðu að gera flottan skartgrip handa mömmu. Nokkrir æfðu sig fyrir karaókíkeppnina en 17 keppendur eru skráðir. Rosalega margir kusu síðan að fara til spákonunnar, Nauthóls-eitthvað ..., og vakti hún mikla lukku. Flestir voru reyndar bara uppteknir af því að vita HVER hún væri og var giskað á ýmsa umsjónarmenn. Heheheheh

 

SumarbúðirnarEftir velheppnað vídeókvöld sofnuðu allir rótt eftir annasaman dag.

 

Í kvöld, sunnudagskvöld, verður karaókíkeppnin, eða Söngvara- og hæfileikakeppnin Ævintýrabarkinn, eins og hún heitir réttu nafni.

 

Nýjar myndir eru komnar inn á www.sumarbudir.is, dagur 3 og dagur 3 framhald. Dagur 4, húllumhædagurinn kemur svo inn í dag, sunnudag. Við erum alltaf degi á eftir með myndirnar.

 

Sólskinskveðjur frá Kleppjárnsreykjum!


Mörk óttans, karaókí og frábær matur

Enn eitt afmælisbarniðAfmælisbarniðAlltaf sama sólin og blíðan í sumarbúðunum og er veðurspáin frábær út allt tímabil 2. Í gær átti María Rós 8 ára afmæli og við óskuðum henni að sjálfsögðu innilega til hamingju með daginn, hún fékk afmælisköku, afmælisgjöf og afmælissöng! Alltaf gaman að eiga afmæli í sumarbúðunum. María Rós er í Kópunum en yngsti hópurinn ber það nafn. Svo eru Krossfiskar, Hafmeyjar, Höfrungar og fleira og fleira.

Bætti inn mynd af sjálfu afmælisbarninu en núna um eittleytið í dag bættust við fleiri myndir inn á heimasíðuna, www.sumarbudir.is. María Rós var heldur betur ánægð með daginn. Hún fékk kertaljós á kökuna sína og svo kom Svanhildur sumarbúðastjóri með glæsilega gjöf handa henni, eins og sjá má á myndinni. Rakel, til hægri á myndinni, er nú að koma í annað sinn í sumar, hún var líka á síðasta tímabili.

Góðar vinkonurNámskeiðin fóru vel af stað; leiklist, grímugerð, íþróttaævintýri, dans og kvikmyndagerð. Fæstir völdu sér myndlist að þessu sinni en samt féll hún ekki niður, hún er í gangi á morgnana og kjósa ótrúlega mörg börn að skreppa inn á myndlistarstofu og mála svolítið. Skapandi og skemmtilegir krakkar, segir sumarbúðastjórinn.

 

Góðir vinirKaraókíæfingar, úps afsakið ... æfingar fyrir Söngvara- og hæfileikakeppni Ævintýralands, sjálfan Ævintýrabarkann, eru hafnar og verða a.m.k. 11 keppendur/atriði. Án efa má búast við mikilli snilld að vanda og góðri keppni.

 

Í matsalnumMörk óttans voru haldin eftir kvöldmat í gær og þetta var svo æsispennandi keppni að annað eins hefur varla sést. Sóley Ólöf Rún Guðmarsdóttir keppti í tveimur atriðum fyrir hönd hópsins síns og stóð sig frábærlega, sérstaklega í „draugahúsinu“ þótt henni þættu „draugarnir“ úúúúú hræðilegir. Hinar stelpurnar í vinningsliðinu heita Viktoría Lovísa Frostadóttir og Guðrún Sólveig Sigríðardóttir.

Annars stóðu allir krakkarnir sig MJÖG vel. Þetta var bara spurning um mesta hraðann í gegnum þrautirnar hræðilegu. Drekka ógeðsdrykkinn, sækja stein ofan í fötu sem var full af skrýtnu, slímugu vatni og var staðsett í draugahúsinu og sitthvað fleira.

 

HressarÞetta er stórskemmtilegur hópur, kátir og lífsglaðir krakkar sem eru búnir að kynnast vel á þessum þremur dögum. Ekki koma öll börnin með einhverjum öðrum, heldur eignast nýja vini, sem passað er upp á að gerist, og er gaman að sjá hvað myndast sterk og góð vinátta á einni viku, vinátta sem heldur jafnvel eftir að dvölinni lýkur.

 

Pollý, sem vinnur sem umsjónarmaður í sumarbúðunum, er komin á þrítugsaldurinn en hún er gamalt „sumarbúðabarn“, kom á unglingatímabil um verslunarmannahelgi þegar við vorum að Reykjum í Hrútafirði, eigum sko margar góðar minningar þaðan. Pollý kom ein og eignaðist frábærar vinkonur sem líka komu einar.

 

HressirSnilldartilþrifSvo er það maturinn ... nammmm! Í gær var pítsudagur og var aldeilis borðað mikið, enda er Sigurjóna matráðskona algjör snillingur í pítsugerð. Í kvöld fá börnin síðan kjúkling, franskar, kokkteilsósu og gular baunir. Núna í hádeginu verður kakósúpa og tvíbökur, einnig ávextir eins og börnin geta í sig látið. Morgunverðarhlaðborðið er alltaf vinsælt en þar er hægt að velja um Cheerios, hafragraut, súrmjólk, ristað brauð, álegg, kornflakes ... og fá sér jafnvel smakk af þessu öllu saman. Það þarf að borða vel á morgnana þar sem degirnir eru einstaklega annasamir. Mikil útivera og mikil hreyfing = mikill matur.

Svo eru komnar inn myndir á www.sumarbudir.is. Tímabil 2, dagar 1 og 2.

Fyrsti dagur á tímabili 2 - óvænt afmælisveisla

AfmælisbarnKatla MarínNú er tímabil 2 hafið og allt gengur æðislega vel. Börnin fengu óvænta veislu í kaffitímanum en Katla Marín á 7 ára afmæli í dag. Allir fengu skúffuköku en skúffukakan hennar Kötlu Marínar var skreytt með afmæliskerti og smartís. Hún fékk líka flotta afmælisgjöf frá sumarbúðunum. Einnig var boðið upp á melónubita í kaffinu sem runnu hratt og vel niður ... í tonnatali.

 

 

Fjör í heita pottinumStuð í sundiUmsjónarmenn fóru um svæðið fyrir kaffi með hópa sína og sýndu þeim allt saman; íþróttahúsið, sundlaugina, spilaborg, borðtennisborðin, billjarðborðin og flotta útisvæðið fyrir framan húsið. Þá var börnunum hjálpað til við að koma sér vel fyrir. Síðan var hægt að velja um að fara í sund, spilaborg eða útisvæði fram að kvöldmat en í matinn var kjöt og spagettí, heldur betur vinsælt. Þau voru orðin glorhungruð eftir mikla hreyfingu og útiveru seinnipartinn. Enda eru þetta skemmtilegustu sumarbúðir í öllum heiminum, að okkar mati, og nóg við að vera fyrir hressa krakka. Frábær hópur, segir sumarbúðastjórinn.

 

Í SpilaborgEftir kvöldmat var fundur úti í íþróttahúsi þar sem starfsmennirnir kynntu sig og námskeiðin sem í boði eru í tvo tíma á dag og hefjast eftir hádegi á morgun: Leiklist, íþróttir, kvikmyndagerð, myndlist, dans/söngur, ævintýranámskeið og grímugerð. Börnin völdu sér það námskeið sem þeim leist best á. Á síðasta tímabili kusu um 40 börn grímugerðina en næstvinsælust var kvikmyndagerðin sem yfirleitt er þó vinsælust. Stór hópur fer líka í íþróttirnar og þetta hefur oftast skipst nokkuð jafnt á milli námskeiða. Síðasta kvöldið sýna börnin síðan afrakstur námskeiðanna. Allir taka þátt, allir eru með og allir gera sitt allra besta. Allir hafa svo skemmtilegt val, eins og kertagerð, skartgripagerð og slíkt sem er ákaflega vinsælt.

 

Æðisleg sundlaugSvanhildur sumarbúðastjóri kynnti agakerfið, 1,2,3 töfrar sem farið er eftir í sumarbúðunum og svo stóru, miklu og frábæru regluna sem verður að fara eftir ... eða að ALLIR EIGA AÐ SKEMMTA SÉR KONUNGLEGA í sumarbúðunum, líklega ansi hörð regla ... hehehe, en börnin eru hæstánægð með hana og hlýða henni vel!

 

Í kvöldkaffinu fá börnin ávexti og síðan lesa umsjónarmennirnir 1. hluta kvöldsögunnar og koma sínum börnum í ró. Eftir það taka næturverðir við og passa upp á að allt sé í himnalagi.

 

Afmælishátíð í dagNú er Davíð að koma myndum inn á www.sumarbudir.is, restina frá lokakvöldvökunni á síðasta tímabilinu og myndir sem teknar voru í dag. Síðast tók talsverðan tíma að hlaða þeim inn en vonandi gengur það hraðar í kvöld.

 

 ------        ----------        ----------     --------

 

Sólin skín skærtÉg minni á að foreldrar geta sent tölvupóst á sumarbudir@sumarbudir.is til að spyrjast fyrir um börn sín og skila kveðju. Öllum bréfum verður svarað samdægurs.

 

Sólin hefur skinið skært í allan dag og gerir á morgun og hinn líka, samkvæmt norsku veðursíðunni www.yr.no. Hægt er að setja inn Kleppjárnsreykir og birtist þá veðurútlit næstu daga.

 

 

Sólskinskveðjur frá sumarbúðunum!


Fjörugur fardagur - villtur sólardans - lokakvöldvakan í gær

AfmælisbarniðBörnin vöknuðu spennt og kát í morgun og fengu sér morgunverð. Nokkur voru hálflystarlaus af spenningi yfir því að hitta fjölskylduna aftur. Þau voru búin að pakka niður að mestu í gær og lögðu svo lokahönd á það í morgun með góðri hjálp umsjónarmanna sinna. Óskilamunir voru boðnir upp að vanda og við þriðja hamarshögg (eða þannig) komust þeir í hendur réttmætra eigenda. Fötin eru vel merkt af foreldrunum og því yfirleitt auðvelt að koma öllu til skila.

Atriði á lokakvöldvökunniTöskurnar settar út um tíuleytið. Í eitt hornið fóru töskur rútufarþeganna og í annað farangur þeirra barna sem voru sótt. Inni í stóra sjónvarpsherberginu sátu svo krakkarnir og horfðu á skemmtilega mynd fram að brottför.

Allt í einu kom hellidemba og nú voru góð ráð dýr. Ekki mátti rigna á allan farangurinn sem beið. Nokkrum starfsmönnum kom það snjallræði í hug að dansa villtan sólardans, svona anti-regndans og viti menn, það hætti að rigna. Næsta demba kom ekki fyrr en allur farangur var kominn inn í rútur og foreldrabílana.

Mikið var veifað þegar rútan ók úr hlaði. Yndislegur hópur farinn og von á öðrum, örugglega ekki síðri, á miðvikudaginn. Rútínan þessa viku var aðeins öðruvísi en venjulega vegna 17. júní. Hún hófst á þriðjudegi en hingað til og héðan í frá verða miðvikudagarnir alltaf dagar eitt og heimförin er á þriðjudögum.

Hluti hópsins3 umsjónarmennLokakvöldvakan var æðisleg! Grímugerðarhópurinn fjölmenni hafði samið leikrit og sýndi það við mikil fagnaðarlæti hinna barnanna og starfsmanna. Íþróttahópurinn sýndi frábært atriði og kvikmyndahópurinn frumsýndi bíómyndina Fjólubláa leynifélagið og yfirnáttúrulegi töfrasteinninn.
Þetta var einstaklega vel heppnuð kvöldvaka og dásamlegt að sjá hvað börnin voru hreykin af frammistöðu sinni. Öll komu þau fram með eitthvað og öll brilleruðu þau algjörlega.

Mörg börn, ekki bara í kvikmyndagerðarhópnum, lýstu yfir löngun sinni til að eignast bíómyndina. Það er hægt, við getum fjölfaldað hana og sent hvert á land sem er. Það þarf bara að senda okkur tölvupóst, sumarbudir@sumarbudir.is, eða hringja í síma 435-1172. Hún kostar 1.500 krónur og rennur allur ágóði af henni í að byggja upp kvikmyndagerðina.

Myndir frá degi 6 eru komnar inn á www.sumarbudir.is en ekki allar frá lokakvöldvökunni. Elskan hann Davíð kemur þeim inn á miðvikudaginn en þá hefst tímabil 2.

                                                    000 === -O- === 000

Við höfum verið hvött til að setja hagnýtar upplýsingar um sumarbúðirnar, skráningu, tímabil, laus pláss og slíkt á bloggsíðuna. Hér koma þær og meira er líka að finna á heimasíðunni:

3. tímabil: 25. júní – 1. júlí     (8-12 ára) Nokkur pláss laus Smile

4. tímabil: 2. júlí – 8. júlí        (8-12 ára) Biðlisti

5. tímabil: 9. júlí – 15. júlí      (8-12 ára) Nokkur pláss laus Smile

6. tímabil: 16. júlí – 22. júlí    (8-12 ára) Nokkur pláss laus Smile

7. tímabil: 23. júlí – 29. júlí    (10-12 ára) Biðlisti

8. tímabil: 30. júlí – 5. ágúst   (12-14 ára) Biðlisti

Aldursskipt er í hópa.

Á leið á lokakvöldvökuna í íþróttahúsinuHægt er að hringja í síma 435 1172 kl. 13-16 virka daga eða senda okkur tölvupóst á sumarbudir@sumarbudir.is.

Foreldrar sem eiga börn í sumarbúðunum geta hringt kl. 10.30-11.30 á morgnana en geta líka sent tölvupóst, spurt um börnin og sent þeim kveðju. Öllum bréfum verður svarað samdægurs.

Þangað til á miðvikudaginn ...

Kærar sumarbúðakveðjur úr sveitasælunni!


Lokadagurinn - afmælisbarn - ruslatínsla - bleikt skyr - hárgreiðslukeppni

Bleika skyriðÞegar börnin vöknuðu í morgun vissu þau að þetta væri síðasti heili dagurinn. Heimferð á morgun kl. 11 og komið í Perluna rétt fyrir kl. 12.30. Mikil tilhlökkun ríkir, enda alltaf svo yndislegt að koma heim þótt gaman hafi verið í sumarbúðunum.

AfmælisstemmningÍ hádeginu var jarðarberjaskyr/hvítt skyr og smurt brauð með eggjum. Það rann ljúflega og vel niður eins og allt annað.

 ---------    ----------    ----------     --------     --------      ------

AfmælisbarnStundum koma nokkur afmælisbörn, hafa kannski fengið dvölina í afmælisgjöf en núna var bara einn strákur sem átti afmæli, varð 10 ára í dag. Hann fékk köku og gjafir og var alsæll. Allir sungu afmælissönginn fyrir hann. Þau verða alla vega tvö næsta tímabil.

Æfingar fyrir lokakvöldvökuna hafa verið á fullu og inn á milli var pakkað niður, öllu nema fínu fötunum. Hátíðarkvöldverðurinn stendur nú yfir. Kveikt er á kertum og allir eru í sínu fínasta pússi. Hamborgaraveisla a la Ævintýraland.

Sigurvegarar í hárgrei�slukeppninniÍ gær var haldin glæsileg hárgreiðslukeppni. Tveggja manna hópar kepptu, bæði strákar og stelpur, hér er mynd af sigurvegurunum tveimur. Allir fengu viðurkenningarskjöl og fyrstu þrjú sætin og frumlegasta hárgreiðslan fengu smá verðlaun. Sjá má fleiri myndir á www.sumarbudir.is.

 -----    -----    ------    ------    ------     -----     ------     ------

Ping og PongStarfsmenn léku leikrit í gær fyrir börnin og mátti heyra nál detta á meðan það var sýnt, stundum var eitthvað fyndið í leikritinu og þá var nú hlegið. Tekið var á eineltismálum og hvernig hægt er að rjúfa vítahring. Einnig var farið inn á það hvern best er að tala við/leita til ef eitthvað liggur þungt á huga barnsins. Verst er að þegja. Góðu-ráða-vélin með þau Ping Skúffukaka nammmmog Pong innbyrðis vakti mikla lukku, enda Ping og Pong rosalega fyndin og líka afar ráðagóð.  

Eftir kaffi í dag var ruslatínslutími. Mjög margir krakkar buðu sig fram, fengu plastpoka og fóru svo hringinn í kringum húsið og tíndu rusl, aðallega gömul laufblöð og bréfarusl. Eftir það fengu þau að velja sér eitthvað flott úr ruslatínsluverðlaunakassanum. Þau voru ótrúlega fljót að gera allt snyrtilegt í kringum sumarbúðirnar.


Vídjókvöld, dularfull spákerla og vinsælasti morgunmaturinn!

ListakonurRennibrautNú sitja börnin róleg og horfa á mynd, reyndar tvær í boði, fyrir eldri og svo yngri. Dagurinn hefur verið virkilega annasamur. Húllumhæið var fjörugt, stóð yfir allan eftirmiðdaginn og eins gott að kaffið (vöfflurnar) voru inn á milli. Eftir kaffið var m.a. spákonuheimsókn í boði, eins og alltaf á húllumhædegi. Hún vekur hrikalega lukku, ekki þó bara fyrir það sem hún segir, heldur er svo spennandi að giska upp á því hver hún er.

 

RólaðRólóÞegar síðuskrifari mætti í Ævintýraland um kl. 16.30 með töskuna sína og myndavél kom spurning frá einu barninu: „Ert þú spákonan?“ Ég harðneitaði því, fussaði og sveiaði, og máli mínu til sönnunnar benti ég þeim á að ég stæði hjá þeim en væri ekki inni í spákonuherberginu þar sem spákonan var við iðju sína. „Iss, þetta er bara hann Gummi umsjónarmaður að þykjast vera spákerling,“ sagði annað barn. „Nei, þetta var Thelma!“ sagði það þriðja. Aðalspenningurinn var að fletta ofan af kerlu ... og allir starfsmenn liggja undir grun. 

Tveir töffararGrímugerð í byrjunSandra Ýr, dóttir Önnu aðstoðarráðskonu kom inn í eldhús mjög spennt. „Ég var hjá spákonunni og hún sagði að þú og pabbi elskuðuð mig rosalega mikið og að ég myndi fara til Suður Ameríku þegar ég yrði stór.“

Myndir af spákonunni koma á morgun og verða settar á bloggið. Davíð tæknitröll á nefnilega frí í kvöld og því verða bara "gamlar" 2008-myndir síðan fyrr í dag og gær og fyrradag með í færslunni.

 

HressarHressirKrakkarnir eru meira og minna flestir með flottar bandfléttur í hárinu og glæsileg tattú, sum meira að segja úr "gulli", á handleggjunum. Setið var úti við bandfléttu- og tattúgerð og leikið í körfubolta og fleira. Það ríkti líka ógurlega kósí stemmning í spilaborg í dag en sum börnin flúðu úr sólinni, þeim var heitt og þau þreytt á sólinni í bili og fannst svalandi að geta sest niður í smástund og lesið Andrésblöð, púslað eða teflt.

 

Kjúllinn góðiGrilluðu pylsurnar runnu vel niður í kvöld og matráðsfólkið, frábæra og stórkostlega, stóð í röð og setti tómatsósu, hráan lauk, steiktan lauk, sinnep og remúlaði ... allt eftir smekk hvers og eins. Ógurlega vinsæll matur.

Ég spurði sumarbúðastjórann hver væri vinsælasti morgunverðurinn af hlaðborðinu. „Fyrsta morguninn er eldaður hafragrautur til að athuga hverjir vilja slíkt, ef enginn sýnir áhuga þá er hann ekki eldaður aftur. Ristaða brauðið er mjög vinsælt. Börnin fá sér stundum Cherios, svo næsta morgun kannski súrmjólk, þá kornflakes en alltaf ristað brauð með. Þessa vikuna er eldaður hafragrautur, svona fjögur til fimm börn vilja hann á hverjum morgni þetta tímabilið. Þessi barnahópur borðar allt og það finnst Sigurjónu matráðskonu alveg æðislegt! Spennandi að vita hvað þau segja um fiskinn annað kvöld ... 

Með sumarbúðakveðju úr sveitinni! 


Náttfatadiskó, gönguferð, drukkið úti og húllumhæ-dagur á morgun

Mörk óttans að hefjastDraugahúsið hroðalegaLeikurinn Mörk óttans gekk afar vel í gærkvöldi. Þrír hópar, hver með nokkrum börnum innanborðs, þurftu að leysa hrikalegustu þrautir. Ja, alla vega eina verulega hræðilega ... komast í gegnum „draugahúsið“. Einn úr hverjum hópanna þriggja þurfti að komast í gegnum það undir hvatningahrópum sumarbúðastjórans sem jók á spennuna með því að reka á eftir ... hehehe.

Draugahússverkefnið var að fara inn í dimmt herbergi (draugahúsið) þar sem reykvélin var á, bara hljóðið í henni er draugalegt, og finna stein ofan í fötu fullri af viðbjóði (uppskriftin: mold, arfi, gras, fullt af vatni, súrmjólk, banani, smjörvi og Ógeðsdrykkur drukkinnRisapúsluppþvottalögur) sem þau vissu auðvitað ekki hvað innihélt, síðan hlaupa út um þröngar dyr og beint í fangið á umsjónarmanninum sínum.

 

Liðin voru öll frábær en þeir sem náðu að leysa allar þrautirnar á stystum tíma voru úr hópi Höfrunga, Hildur Harðardóttir, Iðunn Hlíf Stefánsdóttir og Sigríður Ragna Sigurðardóttir. Þær fá verðlaun afhent á lokakvöldvökunni!

 

 

3 hressir3 hressarMikið fjör og mikið gaman í dag, eins og tilheyrir í góðum sumarbúðum. Kakósúpan og ávextirnir runnu einstaklega vel ofan í mannskapinn í hádeginu. Þar sem veðrið var svo gott ákvað eldhúsdeildin guðdómlega að færa kaffitímann út. Krakkarnir fengu ávexti, brauð og kökusneið í dag. Gaman hvað þau eru dugleg að borða ávexti.

Í kvöld gæddu þau sér á kjúklingi og frönskum, salati og sósu. Þau borðuðu einstaklega mikið og verða hnöttótt eftir vikuna ... eða yrðu ef þau hreyfðu sig ekki svona mikið.

GönguferðKörfuboltiKrossfiskarnir skruppu í góðan göngutúr í morgun. Þeir krakkar sem ætla að taka þátt í karaókókeppninni æfðu í dag og margt var brallað að vanda. Náttfatadiskó fer nú fram og líka er hægt fá tattú eða bandfléttur. Það er sívinsælt.

 

Húllumhæ ... svona Ævintýralands-17. júní, verður á morgun og verið er að undirbúa hátíðahöldin. Um kvöldið verður síðan horft á skemmtilega mynd, popp og svaladrykkur, alveg eins og bíó. Reyndar er hægt að velja um að leika úti eða horfa á vídeó. Alltaf val í Ævintýralandi J

Sund 2005Veðurspáin er himnesk fyrir næstu tvo daga, samkvæmt norsku veðursíðunni www.yr.no (sett inn orðið Kleppjárnsreykir). Ekki er tími til að horfa á sjónvarp á svona stóru heimili, hvorki fréttir né veðurfréttir!
Hitinn á morgun verður 15-17°C eftir hádegi og glampandi sól og svipað á laugardag. Það byrjar síðan að rigna eftir hádegi á sunnudag sem kemur sér bara vel, undirbúningur fyrir lokakvöldvökuna verður á fullu þá, lokaæfingar á leikritum, forsýning á stuttmyndinni fyrir kvikmyndagerðarhópinn, íþróttahópurinn fínpússar atriðið og allt í þeim dúr.

Nú eru að hlaðast inn hundruðir mynda frá fyrstu dögunum og þær má finna undir „myndir“ á heimasíðunni, www.sumarbudir.is endilega kíkið. Myndirnar með þessarri færslu stækka ef klikkað er á þær með músinni og enn meira ef klikkað er aftur.

Með bestu sumarbúðakveðjum frá Kleppjárnsreykjum.


Bloggsíða Sumarbúðanna Ævintýralands

Vöfflur með súkkulaðikremi og rjóma NAMMMStuð í sundiÁ þessari síðu mun verða bloggað um starfsemina okkar í sumar, birtar myndir frá námskeiðum, kvöldvökum og úr daglegu starfi. Haldin eins konar dagbók og geta foreldrar og aðrir ástvinir kíkt á síðuna og fylgst með börnunum sínum. Auðvitað geta foreldrarnir líka hringt og spurt um börnin og skilað kveðju en það er ábyggilega gaman að geta kíkt á krúttin sín hér. Við höfum ekki bloggað áður, heldur haldið úti heimasíðu í nokkur ár þar sem allar upplýsingar er að finna, www.sumarbudir.is.

Elskan hún Inga Lára setur bandfléttu í hárKvikmyndagerðarhópurinn við upptökurSkráning í sumarbúðirnar hófst 1. apríl sl. og hefur farið vægast sagt mjög vel af stað. Smile

Við getum ekki beðið eftir að starfsemin hefjist, snemma í júní, og verður ótrúlega gaman þegar fjörið byrjar og börnin koma. Í maí hittist allt starfsfólkið á námskeiði eins og venjulega. Þar verður farið yfir allt ferlið, skyndihjálp, 123-töfrar-aðferðina og annað sem hefur tryggt farsælt starf í 10 ár og það sem mestu skiptir, glöð og hamingjusöm börn!


« Fyrri síða

Um bloggið

Sumarbúðirnar Ævintýraland

Höfundur

Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðir með sérstöðu

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • ...3_sapukulur
  • Æðisleg reiðnámskeið
  • Vinsæl leiklist
  • Úr bíómyndinni
  • Sykurpúðar grillaðir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband