Leynigestur, sykurpúðar og hátíðarkvöldverður á lokadegi

Lokadagurinn, eða síðasti heili dagurinn, dagur númer 6, var viðburðaríkur, eins og við mátti búast, enda lokakvöldvakan um kvöldið og heilmargt um að vera fram að henni.

Heiti potturinn alltaf góðurDagurinn hófst eins og venjulega á morgunverðarhlaðborðinu og síðan voru ýmsar æfingar í gangi og fjölbreytt afþreying að vanda.

Í hádeginu bauð Sigurjóna upp á skyr og með því voru bollur og einnig pítsusneiðar, sem féll vel í kramið. 

Síðan var farið í að pakka niður því allra helsta og það gekk ljómandi vel, röskir krakkar voru ekki lengi að drífa þetta af. Vissulega var fínu fötunum ekki pakkað niður, eða ferðafötum næsta dags, en öllu hinu.

Þá var farið í sund og í skemmtilega leiki. Kvikmyndagerðarhópurinn horfði á gamlar myndir sem hópar fyrr í sumar höfðu gert og skemmtu sér vel yfir þeim. Myndin Adda padda, sem unglingahópurinn í fyrra gerði, en það þótti nú ekki leiðinlegt þar sem fjölmargir hjá okkur núna voru einnig í fyrra og léku í þeirri mynd.

Hópmynd með leynigestiÓvænt voru börnin beðin um að koma inn í matsal. En leynigesturinn var mættur á svæðið. Enginn annar en Ólafur Darri leikari sem allir þekkja úr Fangavaktinni (Þröstur Hjörtur) og Roklandi. Ólafur Darri spjallaði við krakkana og svaraði spurningum þeirra um hlutverkin og einnig annað á borð við hvort hann ætti börn, ætti bíl, ætti konu, hvað hann væri gamall og annað í þeim dúr. Hann svaraði öllu skýrt og skilmerkilega og þegar hann var spurður um hlutverk sitt í Fangavaktinni var hann alvarlegur og sagði að fangelsi væru sorglegir staðir og maður ætti að gera allt sem hægt væri til að forðast slíka staði, eða halda sig réttum megin við lögin. Margar myndir voru teknar, allir vildu eiga mynd af sér með Þresti Hirti ... og svo tókum við þessa hópmynd.

Í kaffinu var boðið upp á skúffuköku og melónur.

Ellen útbjó handdekurhorn og bjó til maska úr hunangi, matarolíu, kaffikorgi og hrásykri og vildu bæði stelpur og strákar fá mjúkar hendur. Stelpurnar voru kannski öllu áhugasamari þegar kom að því að lakka neglurnar ...

Dugnaðarforkar í ruslatínsluÁ síðasta deginum óskum við alltaf eftir dugnaðarforkum í ruslatínslu og stéttasópun. Meira en helmingur barnanna bauð sig fram og er það mál manna að umhverfi sumarbúðanna hafi sjaldan verið hreinna og fínna. Farið var með poka og rusl tínt upp í þá. Þau fengu að sjálfsögðu smá viðurkenningu fyrir dugnaðinn. 

Skömmu fyrir mat fóru þau inn á herbergin til að skipta um föt og svo var haldið í matsalinn, í hátíðarkvöldverð að hætti ævintýraeldhússins. Það voru hamborgarar, franskar, sósa og gos og þvílík veisla! 

Tilþrif á íþróttasýninguÍþróttahópurinn sýndi miklar körfuboltalistir í íþróttahúsinu og gerðu einnig mjög stóran mennskan pýramída, ekkert smá flott hjá þeim.

Síðan var haldið út í góða veðrið þar sem starfsfólkið beið við grillin, og sykurpúðar og stjörnuljós biðu. Þetta var mjög skemmtilegt og mikil stemmning.

Ávextir voru síðan snæddir í kvöldkaffinu og á þessu síðasta kvöldi var eftirmatur, eða frostpinni!

Grillaðir sykurpúðar og stemningEkki var hægt að sýna bíómynd kvöldsins þar sem upp kom bilun í klippiforritinu ... en Davíð vann fram á nótt við að klippa bíómyndina um Sigmund Árnason skólastjóra og fjölskyldu.  Eftir heilmiklar ógnir og skólahúsið í rúst var skólinn endurbyggður en alltaf var draugagangur þar. Áttundi bekkur fékk að gista í nýbyggða skólanum og þá varð nú allt vitlaust!

Myndin var sýnd að morgni brottfarardags, eftir morgunverðinn, og vakti mikla lukku, enda ógurlega spennandi. Svo kom rútan og sótti megnið af börnunum, hin voru sótt.

Við þökkum þessum frábæra og hugmyndaríka hópi kærlega fyrir samveruna, sem og öllum gestunum sem hafa komið til okkar í sumar. Megi veturinn verða frábær, sjáumst næsta sumar!

Myndir frá lokadeginum eru hérhttp://sumarbudir.is/sumarbudir/t8d6_2011.html


Góð námskeið og frábær söngvakeppni

StenslagerðinDagur fimm var fjörugur og viðburðaríkur, eins og hinir fyrri. Boðið var m.a. upp á stenslagerð, námskeið í umhirðu húðar, það var tískusýning og söngvarakeppni ... bara dýrlegt alveg.

Eftir morgunverðinn var haldið út í sundlaug þar sem krakkarnir fóru í sund eða bara sturtu, fór eftir því hvað var fram undan, karaókiæfing og svona ...

Fyndinn bolurStenslagerð var í boði og þar var nú aldeilis gaman, mikið hugmyndaflug í gangi eins og sjá má betur á öllum myndunum á heimasíðunni (sumarbudir.is).  Börnin stensluðu myndir eða settu á boli og þetta sló algjörlega í gegn.

Pasta með risastórum heimabökuðum hvítlauksbollum var í matinn í hádeginu. Alveg svakalega gott.

Eftir mat fannst krökkunum nú sérdeilis þægilegt að slaka aðeins á inni í herbergjum en innan skamms hófust hádegisfundirnar. Að þessu sinni var fjallað um það að standa með sjálfum sér, heiðarleika í eigin garð og annarra, vináttu, það að þora að segja nei og fleira. Þau drógu miða með jákvæðum staðhæfingum til að hafa með sér inn í framtíðina ...

Námskeið í umhirðu húðar ofl.Námskeiðin gengu eins og í sögu ... en kvikmyndagerðarhópurinn fór um víðan völl í tökum á stuttmyndunni sinni og rak m.a. sumarbúðastjórann út af skrifstofu sinni þar sem þurfti að taka nokkur skot þar. Þá vitum við a.m.k. um eitt atriði með vissu, eða skrifstofuatriði. Líklega verðum við að bíða eftir að vita allt um innihald hennar þegar myndin verður frumsýnd. Bæði krakkarnir á námskeiðinu, umsjónarmennirnir og sumarbúðastjórinn sem fékk að lesa handritið, neita að tjá sig um innihaldið. Dæs. Álíka dularfull eru börnin í íþróttahópnum, við teljum víst að sýningin þeirra verði algjört æði, þegar við höfum njósnað (með myndavél) virðist ríkja mikið fjör og miklir hæfileikar í gangi. Jamm, þetta kemur allt í ljós á lokakvöldvökunni.

Gjöfin í árÍ kaffinu var nýbökuð sandkaka, ávextir og einnig vöffluafgangar frá fyrra degi. Allir saddir og sælir.

Eftir kaffi var hið árvissa unglingatímabilsnámskeið í umhirðu húðar og um almennt hreinlæti og fleira. Þarna var mikilvæg fræðsla um gott mataræði, að mála sig ekki of mikið og annað í þeim dúr. Kynntar voru sniðugar vörur, eins og sótthreinsandi bóluhyljari og létt sólarpúður sem er meira en nóg fyrir unga og fallega húð eins og unglingar eru með. Þátttakendur voru leystir út með gjöf (sjá mynd til hægri). Einnig var fjallað um skaðsemi áfengis og tóbaks á húðina, sem og heilann og líkamann, og hvernig gott væri að svara ef einhver vill endilega bjóða manni eitthvað sem maður vill ekki.

Þau sem vildu máttu prófa hreinsivörur (andlitsmjólk og -vatn, og sótthreinsistifti fyrir bólur). Nokkrar stelpur vildu fá að mála sig þar sem þær ætluðu að taka þátt í tískusýningu um kvöldið. Útkoman varð skemmtilega skrautleg, enda margir sniðugir augnskuggar og varalitir í boði. Skömmu fyrir kvöldmat fóru krakkarnir inn á herbergi til að gera sig enn fínni fyrir kvöldið.

Eldhúsið bauð upp á fisk með hrísgrjónum og karrísósu í kvöldmat, einnig voru tómatsósa og smjör í boði ... tómatsósan fyrir sanna sælkera, eins og einn strákurinn orðaði það.

Frá tískusýningunni ...Síðan hófst Ævintýrabarkinn, söngvara- og hæfileikakeppnin ... og tískusýning, takk fyrir.

Þátttakendur voru:

Frá Ævintýrabarkanum1) Eva María, Írena Líf, María Sif og Stefanía Veiga sungu lagið Komdu til baka  (Kristmundur Axel og Júlí Heiðar)
2) Alexandra Diljá söng lagið Baby (Justin Bieber)
3) Stefanía Veiga sem var líka í atriði 1, söng lagið Ást (Ragnheiður Gröndal)
4) Sigurveig söng lagið Ég ætla að verða kóngur klár úr Lion King, og naut aðstoðar Alexöndru Bjargar
5) Alexandra Björg söng lagið Ástin opnar augun skær (Elton John, úr Lion King)

Allir þátttakendur stóðu sig frábærlega vel. Á meðan dómnefnd fór yfir stigin var haldin stórskemmtileg tískusýning. 

Þær Alexandra Björg og Stefanía reyndust vera með flest stigin og nákvæmlega jafnmörg. Þær skiptu því fyrsta sætinu með sér og fengu báðar verðlaun. Allir sem tóku þátt fengu viðurkenningarskjal.

 

Góðir vinirÍ kvöldkaffinu var boðið upp á smurt brauð og safa. 

Frábær dagur að baki og heilmikil tilhlökkun í gangi fyrir næsta degi ... lokakvöldvakan um kvöldið!!! Allt um það í næsta bloggi.

Myndir frá degi 5:

http://sumarbudir.is/sumarbudir/t8d5_2011.html

 


Um bloggið

Sumarbúðirnar Ævintýraland

Höfundur

Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðir með sérstöðu

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 91091

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Ágúst 2011
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • ...3_sapukulur
  • Æðisleg reiðnámskeið
  • Vinsæl leiklist
  • Úr bíómyndinni
  • Sykurpúðar grillaðir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband