Stórskemmtilegur lokadagur - Takk fyrir okkur!

Grímugerð og leiklistFlott grímaAllt í einu var bara komið að lokadeginum, við bjuggumst varla við því, ekki svona fljótt. Góðir hlutir gerast hratt, segja sumir og við segjum að góðar vikur líði alllllllt of hratt.

Þessi sjötti og síðasti (heili) dagur hófst að vanda með því að börnin fengu sér morgunverð. Þegar allir voru orðnir saddir var haldið á námskeiðin. Það þýddi ekkert annað ef allt átti að vera tilbúið um kvöldið fyrir sjálfa lokakvöldvökuna sem allt hafði miðast við.

Við komumst að því að íþrótta- og ævintýrahópurinn hefur æft leikrit á laun en ekki var viðlit að komast að efni þess - það varð að bíða til kvöldsins. Við sem héldum að þau hefðu bara verið að leika sér ... huh, aldeilis ekki.

Grímugerðar- og leiklistarhópurinn hafði ekki bara gert glæsilegar grímur, heldur einnig samið handrit og æft leikrit sem lítið var hægt að fá fregnir af. Þessi börn eru frekar mikið leyndardómsfull en skiljanlega, það er langskemmtilegast að koma á óvart og biðin svo sem ekki löng til kvölds. Sjá myndir ofar.

Forsýning Öddu PödduForsýning Öddu PödduKvikmyndagerðin var búin með allt sitt, öllum tökum lokið og Matti búinn að klippa og beita meistaratöktum sínum á ræmuna Öddu Pöddu. Hópurinn átti að fá að sjá myndina í forsýningu fyrir kaffi og fannst það hreint ekki leiðinlegt.

Í hádeginu var grjónagrautur og líka skyr. Fyrir svona eðalkrakka dugir ekkert minna en tveir aðalréttir á lokadegi.

Síðan var haldið til herbergja þar sem farangrinum var pakkað niður. Þá kom sér nú vel að hafa tekið til í ferðatöskunum deginum áður. Fínu fötunum fyrir kvöldið og heimfararfatnaði var þó haldið til hliðar en passað upp á að sundfötin væru þurr og færu ofan í tösku, skór og sitt af hverju fleira sem ekki mátti gleymast. Krakkarnir undu sér vel í herbergjunum við þetta en svo var haldið æsileg kraftakeppni sem Ægir sigraði.

ReiðnámskeiðHamborgararVíða voru annir og verið var að klára að leggja síðustu hendur og fætur á þetta allt saman. Kvikmyndagerðarhópurinn sá myndina sína og einnig nokkrar eldri myndir sem hafa verið gerðar í gegnum tíðina í Ævintýralandi. Þær myndir eru síðan sýndar á 7. degi, þegar börnin bíða eftir rútunni eða foreldrunum að sækja sig.

Reiðnámskeiðsbörnin fóru á seinna námskeiðið um miðjan dag og höfðu gaman af. Þeir eru alveg frábærir hestarnir hennar Guðrúnar Fjeldsted reiðkennara og alveg greinilegt að unglingarnir nutu þess í botn að fara í útreiðatúr á þeim.

Þar sem Katla átti afmæli á degi 7 og yrði þá komin heim í kaffitímanum var tekið á það ráð að halda upp á það deginum fyrr og ríkti mikil ánægja með að fá afmælisköku. Afmælisbarnið fékk sérskreytta köku og afmælispakka frá sumarbúðunum. Aldrei leiðinlegt að eiga afmæli í Ævintýralandi. Wizard

Eftir kaffi var Spilaborg opin og einnig voru krakkarnir inni á herbergjum, það þurfti nægan tíma til að taka sig til og gera klár fyrir kvöldið. Þau fóru í sparigallann, svona langflest, og það þurfti líka að sjá til þess að það yrði „frábært hár“. Einhverjir bjuggu til vinabönd á meðan beðið var eftir kvöldverðinum.

Konunglega eldhúsið bauð upp á frábæran mat fyrir prinsessurnar og prinsana ... eða hamborgara, franskar og sósu, ásamt gosi fyrir þá sem vildu. Þeir sem drekka ekki gos fengu safa að eigin vali.

Íþróttahópur með leikritGrímugerð og leiklistÍþrótta- og ævintýrahópurinn var með fyrsta atriði kvöldsins - leikrit um íþróttakrakka sem leiðast út í rugl, verða feitir og vitlausir, eiginlega hálfgerðir uppvakningar. Kapteinn Ofurbrók kom og hjálpaði órugluðu íþróttakrökkunum við að endurheimta vinina og með hjálp vélarinnar Pálínu 4000 gátu þau snúið þeim á rétta braut og fengið þau aftur í íþróttirnar. Handritið samið af börnunum sjálfum frá A-Ö. Sýningin endaði svo á hressum súperman-dansi sem áhorfendur voru dregnir út í. Æðislegt leikrit og frábær skemmtun.

Grímugerðar- og leiklistarhópurinn sýndi látbragðsleikritið Skinkuvandræði. Það var mjög ævintýraríkt og skemmtilegt þar sem við sögu komu skinkur, emo-krakkar, hippar og bronskötturinn Kitty. Þema leikritsins var að vera vinir og leyfa gleðinni að ráða. Mjög vel heppnað og grímurnar sérlega flottar.

ÖskubuskaFrábærir krakkarSíðan var komið að "martröð" starfsmannanna (smáýkt, við elskum þetta) en á hverju tímabili þurfa þeir að leika leikrit algjörlega óundirbúnir og fá ekki nema nokkrar mínútur til að gera sig klára ... Öskubuska var það heillin og lék Geir Öskubusku og María prinsinn. Þetta var góð skemmtun og mikið hlegið, enda ekkert venjuleg Öskubuska.

Eftir kvöldkaffið, ávexti og Svala, var boðið til bíósýningar þar sem frumsýna átti hina ógurlegu, hroðalegu og svakalega spennandi hryllingsmynd Öddu Pöddu. Með henni var snæddur frostpinni. Hún segir frá krökkum í heimavistarskóla og draugnum Öddu Pöddu sem dó á sorglegan hátt (vegna eineltis) fyrir mörgum árum og ásækir krakkana eftir að þau laumast til að fara í andaglas. Myndin var sérlega vel gerð og spennandi og leikararnir fóru á kostum í henni. Þau Marteinn Þórsson kvikmyndagerðarmaður og Guðrún Eva Mínervudóttir rithöfundur (sem hjálpaði til við að koma handritum barnanna saman í eitt) eiga mikið hrós skilið fyrir.

Fjör í íþróttahúsinuSprellÞegar þetta er skrifað eru flestir, ef ekki allir, steinsofnaðir því stór dagur er á morgun líka, eða heimfarardagurinn. Eftir morgunmatinn verður horft aftur á stuttmyndina og einnig fleiri myndir, gamlar og góðar. Svo er það bara rútan og heim. Gaman, gaman. Sakn, sakn.

Okkur langar að þakka kærlega fyrir frábæra viku með afar skemmtilegum og góðum krökkum sem við vonum að hafi notið dvalarinnar hjá okkur jafnvel og við nutum þess að hafa þau hjá okkur.

BLESSSSS OG TAKKKKKKKK! Heart

Myndir dagsins eru hér:

http://sumarbudir.is/sumarbudir/t7d6.html

 

ATH. Þar sem þetta er síðasti dagurinn á síðasta tímabilinu viljum við nota tækifærið og þakka fyrir samveruna öllum þeim fjölda barna sem hafa komið til okkar í sumar. Þetta hafa verið frábærar vikur sem hafa verið allt of fljótar að líða! Sjáumst öll hress og kát næsta sumar. 

 


Söngvakeppni, sykurpúðar og stjörnuljós

Eyjólfur á trampólíniKvikmyndagerðinVið höfum verið ákaflega heppin með veður í allt sumar og dagur 5 var engin undantekning frá því. Sól og blíða ríkti og því var vinsælt að vera á útisvæðinu eftir morgunverð.

 

Margir skruppu út í sundlaug, enn aðrir kusu að fara bara í sturtu - þetta var nokkurs konar dagur hreinlætis eins og koma mun fram þegar lengra verður lesið. Hann innihélt nú heilmargt fleira eins og söng, sópirí, sykurpúða og stjörnuljós ...

 

Íþróttahúsið vinsæla fékk einnig heimsókn og þátttakendurnir í Ævintýrabarkanum æfðu sig, enda söngvara- og hæfileikakeppnin um kvöldið. Ekki laust við að spenna væri komin í mannskapinn.

 

LeiklistinSópí, sópíMorgunninn leið hratt við skemmtilega iðju og í hádeginu bauð eldhúsið upp á pasta og hvítlauksbrauð. 

 

Eftir matinn voru börnin beðin um að fá hreinlætisæði, en það er nokkuð sem er sérlega vinsælt á heimilum, svona til að útskýra þetta frekar. Þau létu ekki segja sér það tvisvar, heldur drifu sig í tiltekt í herbergjunum (sem veitti ekki af) og voru ekki lengi að gera allt glansandi fínt. Flestir tóku líka til í töskunum sínum en það á heldur betur eftir að flýta fyrir pökkun á degi 6.

Námskeiðin voru haldin kl. 14.30-16.30. Ekki fór framhjá neinum að kvikmyndagerðin notaði reykvélina í tökum þar sem brunavarnarkerfið fór í gang. Það er ekki hávært, heldur brjálæðislega hávært. Maríu umsjónarmanni varð að orði að sumarbúðastjórinn hefði sett hraðamet í 400 m hlaupi eftir göngunum þegar hún stökk af stað til að þagga niður í vælinu. Ekki var nú reykurinn mikill en gott brunavarnarkerfi gerir engan greinarmun á litlum reyk úr reykvél eða einhverju meira. Sem er bara æðislegt!

FöndurgerðÚtisvæðiðÍ kaffinu fengu börnin sumarbúðasandköku, afgangsvöfflur með súkkulaði og rjóma og svo melónur. 

Sitt af hverju var í gangi eftir kaffi. Spilaborgin var opin og einnig var boðið upp á föndurgerð í myndlistarsalnum sem var vinsæl. Útisvæðið var opið líka og nokkrir tóku þátt í ruslatínslu þar - degi of snemma. Yfirleitt er hún í gangi síðasta daginn (daginn fyrir brottför) en þar sem spáð er rigningu þann dag var ákveðið að flýta henni. Hún fólst mestmegnis í því að sópa og gera snyrtilegt á útisvæðinu og það tókst svo sannarlega. Að vanda voru verðlaun að eigin vali í boði fyrir þá sem tóku þátt og þótti það ekki mjög amalegt. Hægt var að velja sér eitthvað flott upp úr verðlaunakassa ruslatínslunnar og þar var ekkert rusl ...

Hluti hópsins fór á reiðnámskeið og þau börn komu alsæl til baka rétt fyrir kvöldmat og náðu að skipta um föt fyrir kvöldið.

Eldhúsið sló enn eitt vinsældametið þegar kom að kvöldverðinum. Sigurjóna snilldarkokkur bauð upp á lasagna sem var svooooo gotttttt.

Hress hópurSigurvegarar í ÆvintýrabarkanumÞá var bara komið að Söngvara- og hæfileikakeppninni Ævintýrabarkanum! Sex þátttakendur stigu á svið og sungu af mikilli list. Allir þátttakendur fá viðurkenningarskjal og efstu þrjú sætin verðlaun. Svo hófst söngurinn. Þátttakendur voru:

Alexandra Diljá Arnarsdóttir sem söng lagið Baby.

Alexandra Björg Ægisdóttir sem söng lagið Drip Drop.

Alexzandra Elínborgardóttir sem söng lagið Paparazzi.

Björg Björgvinsdóttir sem söng lagið Hallelujah.

Gréta Jónsdóttir sem söng lagið Russian Roulette.

Sandra Sæmundsdóttir sem söng lagið Með þér.

Ekki átti dómnefnd gott - sem vild´ekki dæm´í klessu,“ eins og skáldið hefði mögulega getað ort. Þegar stigin höfðu verið talin kom í ljós að aðeins munaði 0,1 stigi á fyrsta og öðru sætinu og mjög mjótt var einnig á munum hjá öðrum keppendum.


Í fyrsta sæti varð Sandra Sæmundsdóttir (Með þér), í öðru var Alexzandra Elínborgardóttir (Paparazzi) og því þriðja Alexandra Björg Ægisdóttir (Drip Drop). Þær voru kallaðar upp á svið og fengu verðlaunin afhent á verðlaunapallinum. Dæmt var fyrir söng og sviðsframkomu og skoruðu allir þátttakendur mjög hátt. Sumarbúðastjóranum varð að orði að stelpurnar hefðu allar sungið eins og englar, eða mjög fallega. Svo þurrkaði hún eflaust tár af hvarmi.

Sandra tekur sigurlagiðEftir einstaklega velheppnaðan Ævintýrabarka var haldið í kvöldkaffi þar sem boðið var upp á smurt brauð og safa. Það var ekkert hátt, burst og sofn á eftir ... onei, það var að hefjast útipartí og ekkert venjulegt partí, heldur sykurpúðagrillpartí þar sem stjörnuljós og útikerti mögnuðu upp einstaka stemmningu.

Stjörnuljós og sykurpúðarÞegar partíinu var lokið og allir höfðu fengið nægju sína af grilluðum sykurpúðum var haldið í háttinn. Börnin lásu eða spjölluðu og í kringum miðnætti fór ró að færast yfir mannskapinn, ljósin slökkt og draumalandið tók við.

Mikið var þetta skemmtilegur dagur - og svo er lokadagurinn fram undan í allri sinni dýrð og lokakvöldvakan þar sem afrakstur allrar vinnunnar á námskeiðunum verður sýndur. Allt um það í næstu færslu!

Myndir frá deginum eru hérna: http://sumarbudir.is/sumarbudir/t7d5.html


Mikil stemming og húllumhæ

KvikmyndagerðinLeiklistaræfingarFjórði dagurinn frábær var

og fagran hafð´ann blæ.

Hamagangur og hasar sko mar´

og komið að húllumhæ.

 

Þetta tímamóta-snilldarljóð var ort í tilefni þess að fjórði dagurinn í sumarbúðunum var svokallaður húllumhædagur og ríkti mikið fjör alveg frá hádegi og til háttatíma. Morgunninn var nú ekkert slæmur heldur.

 

Dagurinn hófst þó eins og venjulega á góðum morgunverði eftir að búið var að nudda stírur úr augum, bursta tennur, klæða sig og greiða hárið. 

 

Íþróttahópur í bandíVinirNámskeiðin voru haldin fyrir hádegi og þar sem líður á vikuna er undirbúningurinn alveg á milljón. Íþróttahópurinn var áfram leyndardómsfullur um atriði sitt á lokakvöldvökunni og lék sér áhyggjulaus í hinum skemmtilega og hraða leik bandí.

María fór með grímugerðar- og leiklistarhópinn sinn á útisvæðið í leiklistaræfingar og náði papparatsí-ljósmyndarinn okkar nokkrum myndum þar. Annars er undirbúningur vel á veg kominn hjá hópnum að sögn Maríu þegar okkur tókst að króa hana af.

Tökur stuttmyndarinnar Öddu Pöddu fóru fram í svefnsölum leikaranna og svo reyndar aftur eftir kvöldmat á útisvæði. Við erum viss um að hún verður algjört meistarastykki, eins og fleiri kvikmyndir sem hafa verið gerðar í Ævintýralandi í gegnum árin.

Í hádeginu bauð gúrmei-eldhúsið upp á himneskan grjónagraut og melónur voru á boðstólum líka.

FánaleikurinnKókosbolluboðhlaupFljótlega eftir hádegisverð var sjoppuferð og þvílík sæla að fá nammi á sjálfan nammidaginn.

Síðan var haldinn hádegisfundur, hver umsjónarmaður með hópnum sínum, þar sem púlsinn var tekinn á hlutunum og farið yfir dagskrá dagsins. Húllumhædagsins!

 

Veðrið lék við okkur, logn og hiti, algjört draumaveður fyrir það sem koma skyldi - eða fánaleikinn. Börnunum var skiptí tvo hópa, Martröð og Draum. Draumsliðar fengu rauða málningu í andlitið en Martraðarliðar bláa. Síðan var hlaupið og hlaupið, barist um klemmur og fána út í eitt. Eftir æsispennandi keppni sigraði lið Martraðar.

 

Þá hófst kókosbolluboðhlaup (sjá mynd ofar) þar sem tvö lið kepptu í hlauphraða og áti kókosbolla á mettíma. Ekki mátti nota hendurnar, heldur varð að beygja sig niður að borðinu sem kókosbollan var á og borða hana. Það var nokkuð flóknara en sumir héldu. Síðan klára bolluna og hlaupa til baka aftur þar sem næsti endurtók leikinn. Þetta er ekkert verri leið en hver önnur til að fá nammi ... enda tóku allir sannir kókosbolluunnendur þátt. Tounge 

 

Vöfflur og kókómaltGóðar vinkonurRétt fyrir kaffi voru allir á útisvæðinu í góðu yfirlæti og m.a. hægt að fá bandfléttur í hárið. Það er mjög vinsælt hjá stelpunum og verður fléttað þangað til allar sem vilja eru búnar að fá.

 

Vöffluilmurinn sem barst úr eldhúsinu var alla að æra þrátt fyrir nýliðið kókosbolluát og því var hlaupið hratt inn í matsal þegar komið var að kaffi. Þetta voru sérlega góðar vöfflur sem versnuðu ekkert við að fá súkkulaðiglassúr og rjóma ofan á. Einn vildi þó rabarbarasultu frekar en súkkulaði og annar vildi sykur. Reynt er að uppfylla allar óskir, maður á jú að skemmta sér í sumarbúðum. Kannski eins gott að enginn sérvitringur var á svæðinu sem hefði viljað kavíar eða sojasósu á vöfflurnar sínar. Já, vöfflurnar - flestir fengu sér tvær, þær voru svoooo góðar. Ekki var amalegt að fá kókómalt með.

SkartgripagerðSpákonubiðröðHeilmargt var í boði eftir kaffi, m.a. kom systir Jósefínu Potter (sem brá sér til Eyja), hún Gvendólína Potter, ávallt kölluð GPotter af aðdáendum - opnaði heilt spátjald (enda 17. júní-stemmning) og sagði krökkunum hvað þau væru hæfileikarík og gáfuð og gætu allt sem þau vildu. Hún hafði að orði eftir spádómana að sjaldan hefði hún hitt annan eins hóp af klárum krökkum og þarna. Börnin vissu auðvitað alveg að þetta væri meiri leikur en nokkurn tíma alvara og höfðu mjög gaman af. Að minnsta kosti myndaðist löng biðröð fyrir framan „tjaldið“ hennar en hún var snögg að þessu, ein spurning var borin upp og henni var svarað. Hviss, bang, búið, enda svo margt annað skemmtilegt á boðstólum.

Það var hægt að fá tattú og bandfléttur og nóg að gera þar, einnig inni í Framtíðinni þar sem keilukeppni fór fram, eða Wii, einnig Wii-tennis.

Wii í FramtíðinniSápukúlusprengikeppniÁ útisvæði fór fram sápukúlusprengikeppni og var hún verulega spennandi. Þar er keppt í því að vera sem fljótastur að klappa saman lófunum þannig að maður sprengdi sem flestar sápukúlur. Færustu vísindamenn okkar lágu yfir ljósmyndum, upptökum og gerðu líkön og slíkt áður en kom í ljós að sá klappsneggsti var Ísleifur Kristberg sem náði að sprengja rosalega margar sápukúlur á einni mínútu. Mikið varð hann Geir umsjónarmaður hreykinn af sínum manni!

Í matsalnum fór fram skartgripagerð, ásamt tattúsmiðjunni, en við eigum einstaklega mikið af alls kyns hráefni til að búa til hina fjölbreyttustu og flottustu skartgripi.

Dásemdareldhúsið var sko ekkert hætt þennan dag, heldur höfðu þær Sigurjóna og Fernanda staðið í ströngu við að grilla pylsur ofan í mannskapinn og upp á þær var boðið í kvöldmatnum með tómatsósu, sinnepi, steiktum og remúlaði - og auðvitað í pylsubrauði. Svo var gos með. Sumir vildu þó vatn.

Eftir matinn voru aukatökur hjá kvikmyndagerðinni, eins og áður hefur komið fram, og einnig aukaæfing fyrir Ævintýrabarkann, söngvara- og hæfileikakeppnina sem fer alveg að bresta á. Flest hin börnin léku á als oddi á útisvæðinu í góða veðrinu.

Góðir grannarLoksins hófst svo bíókvöldið. Það setur alltaf punktinn yfir i-ið á húllumhædeginum. Nammið úr sjoppuferðinni fyrr um daginn var maulað með en þau börn sem eru lítið fyrir sælgæti fengu ávexti og Svala.

Svo var það bara draumalandið á eftir og ljúft að sofna eftir vægast sagt annasaman og alveg stórskemmtilegan dag.

 

Myndir frá húllumhædeginum eru hérna:

http://sumarbudir.is/sumarbudir/t7d4.html

 


Um bloggið

Sumarbúðirnar Ævintýraland

Höfundur

Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðirnar Ævintýraland
Sumarbúðir með sérstöðu

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Ágúst 2010
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • ...3_sapukulur
  • Æðisleg reiðnámskeið
  • Vinsæl leiklist
  • Úr bíómyndinni
  • Sykurpúðar grillaðir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband